Í tilefni af nýjum þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins sendir stjórn Hollvina Ríkisútvarpsins frá sér eftirfarandi ályktun:
Nýr þjónustusamningur mennta- og menningarmálaráðherra við Ríkisútvarpið hefur loks litið dagsins ljós. Í honum birtist á skýran hátt misræmi milli þess lýðræðis- samfélags- og menningarhlutverks sem stjórnvöld vilja í orði kveðnu að stofnunin gegni og þeirra aðstæðna sem henni eru búnar til þess að rísa undir því.
Um lýðræðishlutverkið segir m.a. í samningnum, að Ríkisútvarpið eigi að gera „fólki kleift að móta skoðanir sínar og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum, eftir því sem framast er unnt hverju sinni“. Atburðarásin í íslensku samfélagi undanfarnar vikur hlýtur að undirstrika mikilvægi þessa.
Landsmenn hafa fundið rækilega fyrir því að óháðir, gagnrýnir fjölmiðlar, með Ríkisútvarpið í fararbroddi, skipta sköpum í samfélaginu. Um leið hafa þeir fylgst með sumum ráðamönnum hundsa Ríkisútvarpið eða veitast að því og starfsmönnum þess.
Hollvinir vilja í þessu sambandi benda á að hinn nýi samningur kemur í kjölfar þeirrar ákvörðunar meirihluta Alþingis í desember s.l. að skerða aðaltekjustofn Ríkisútvarpsins, útvarpsgjaldið, annað árið í röð. Hún hefur leitt til þess að stofnunin verður að skera niður í grunnstarfsemi sinni um 213 milljónir á þessu ári, og mun sá niðurskurður haldast út það tímabil sem samningurinn tekur til. Um þetta segir í samningnum:
„Ríkisútvarpið sendir út dagskrá sem skal uppfylla skilyrði í lögunum og þjónustusamningi þessum, með sambærilegum hætti og umfangi og árið 2015, að teknu tilliti til tekna og gjalda þannig að dagskrárframboð og þjónusta geti á samningstímanum dregist saman um allt að 10% miðað við framangreint ár.“
Það er því ljóst að hinn nýi samningur er samningur um skerta þjónustu:
* Hann vegur að getu Ríkisútvarpsins til að reka öfluga og gagnrýna fréttastofu sem „gerir fólki kleift að draga ályktanir út frá réttum upplýsingum“.
* Hann staðfestir gegndarlausan niðurskurð á dagskrá Rásar 1, flaggskipi Ríkisútvarpsins.
* Hann frestar löngu tímabærri skráningu og hagnýtingu eldra efnis í Gullkistu RÚV.
* Hann heftir vaxtarskilyrði dýrmætra nýrra sprota á borð við KrakkaRÚV.
Íslenskur almenningur hefur margoft svarað því í skoðanakönnunum að hann vilji standa vörð um Ríkisútvarpið og reiði sig á þjónustu þess. Stjórnvöld ganga ítrekað í berhögg við þann þjóðarvilja. Hvað veldur?