Undanfarið hefur mikið verið rætt um hvort konur eigi að stunda líkamsrækt á meðgöngu eða ekki og sitt sýnist hverjum. Margir pæla í því hvort að það sé í lagi að stunda líkamsrækt á meðgöngu og þá hversu mikla. Hér á eftir koma nokkrar staðreyndir um líkamsrækt á meðgöngu.
Hríðir kvenna sem stunda reglulega líkamsrækt á meðgöngu taka yfirleitt 30% styttri tíma en hjá konum sem ekki stunda neina reglulega hreyfingu. Talið er að það sé vegna sterkari kviðvöðva hjá konum sem eru í góðu líkamlegu formi en það þarf jú heilmikla áreynslu til að ýta barninu út.
Í rannsókn sem gerð var í Bretlandi kom fram að konur sem höfðu stundað reglulega líkamsrækt á meðgöngu þurftu í 16% færri tilfella að fara í keisaraskurð eða inngrip í fæðingu með sogklukku og töngum.
Ófrískar konur sem eru í góðu líkamlegu formi eru ólíklegri til að þjást af háum blóðþrýsing og meðgöngusykursýki heldur en konur sem ekki eru í góðu líkamlegu formi. Þetta kemur til vegna reglulegrar hreyfingar og því að konur sem hreyfa sig reglulega eru líklegri til að borða hollt og gott fæði.
Ef þú stundar reglulega líkamsrækt á meðgöngu er mjög líklegt að þér líði betur og að þú hafir meiri orku. Þetta hjálpar svo sannarlega til á meðgöngutímanum.
Vika 0-12
Ef þú ert vön að stunda líkamsrækt þá getur þú haldið því áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Ef þú ert ekki vön að hreyfa þig, þá getur þú byrjað að stunda reglulega líkamsrækt en þú skalt byrja rólega. Gott er að byrja á reglulegri göngu og einnig er sund mjög góð hreyfing. Ef þig langar til að fara að æfa í líkamsræktarstöð og jafnvel að fara lyfta, þá skaltu ráðfæra þig við þjálfara á staðnum.
Allar konur ættu að stefna að því að hreyfa sig í um 30 mínútur á dag, alla eða flesta daga vikunnar, svo lengi sem læknir hefur ekki bannað það.
Passaðu þig að drekka vel af vatni (2,5-3,0 l á dag) og varastu að þér verði ekki of heitt eða of þreytt á æfingum. Hlustaðu á hvað líkami þinn segir þér.
Vika 13-27
Ef þú ert vön að stunda líkamsrækt þá getur þú haldið því áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Barnið liggur vel varið í móðurkviði en að sjálfsögðu ber að forðast allar íþróttir sem geta valdið skaða á kvið.
Rannsóknir sýna að jöfn og hæfileg hreyfing er lykillinn að góðum árangri líkamsþjálfunar á meðgöngu.
Þetta er sá tími sem margar konur byrja að stunda líkamsrækt á meðgöngu. Ef þú ert ein af þeim skaltu ráðfæra þig við ljósmóður sem annast þig í meðgöngueftirlitinu.
Ekki æfa á bakinu lengur en 30-40 sekúndur í einu.
Passaðu þig að drekka vel af vatni (2.5-3,0 l á dag) og varastu að þér verði ekki of heitt eða of þreytt á æfingum. Hlustaðu á hvað líkami þinn segir þér.
Vika 28-40
Ekki æfa á bakinu.
Hlustaðu vel á hvað líkami þinn segir þér á þessu tímabili.
Passaðu þig að drekka vel af vatni (2,5-3,0 l á dag) og varastu að þér verði ekki of heitt eða of þreytt á æfingum.
Haltu áfram að æfa reglulega, meðgöngunni fer að ljúka.
Rannsóknir sýna að best er að auka líkamsrækt á þessu tímabili til að ná sem bestum áhrifum líkamsræktar á meðgöngu. Ef þú minnkar eða hættir að æfa núna þá getur það leitt til þess að börnin verða þyngri og þú fáir aukin meðgönguóþægindi. Það þarf þó alls ekki að vera og auðvitað býrð þú að því að hafa hreyft þig reglulega á fyrri vikum meðgöngunnar.