Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Svanir skilja ekki

$
0
0

Dansandi svanir í kassa – umsögn um leikverkið Svanir skilja ekki í Þjóðleikhúsinu.

Nú var það Kassinn í Þjóðleikhúsinu. Frumsýning á verkinu Svanir skilja ekki eftir Auði Övu Ólafsdóttur í leikstjórn Charlotte Bøving. Þetta var spennandi kvöldstund að mínu áliti því Auður skrifaði  leikverk sem er eitt af mínum uppáhalds, eða Svartan hund prestsins sem var sýnt einmitt í Kassanum á leikárinu 2011-2012. Líklega var ég búin að hlakka of mikið til því ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum. Umfjöllunarefni verksins er ,,hið stórkmerkilega fyrirbæri hjónabandið“ eins og höfundur kemst svo skemmtilega að orði í leikskrá. Þar sem sú stofnun, hjónabandið, er mikið áhugamál hjá mér var ég í leit að afhjúpun. Og fékk hana, en þó ekki.

Í verkinu koma hjón til ráðgjafa út af vandamálum sem tengjast syni þeirra. Eða það halda þau í upphafi. Allt leysist þetta svo upp í að þau eru farin að rífast um minningar, orð, gjörðir og smáatriði. Og dansa síðan bara þegar orðin vantar, eru óþörf eða of sár. Dansinn er líka oft betri en orð og það skilaði sér til áhorfanda í tilfiningalíki, hvort sem var kómísku sem tregafullu. Þegar kastljósið beinist að hjónunum, sem voru, eins og þreyttra hjóna er siður, algerlega laus við að vera einstaklingar, fóru að kvikna ljós í höfði áhorfandans.  Heilabrot um flækjur og fáránleika smáatriða og lokunar sjálfsins, innilokuðu í kassa hjónabandsins. Ráðgjafinn sem hjónin leita til, er öðruvísi, fer ögrandi leiðir, er meðvirkur í meira lagi og dálítið klikk. En kannski er það það sem virkar, þ.e klikk á klikk, tveir mínusar verða plús eða einhver álíka uppáhelling.

Screen Shot 2014-03-05 at 10.00.39 AM

Verkið í heild sinni er mjög töff. Mjög flott og listilega vel fléttuð leikmynd og ljósahönnun. Hreyfimjúk tónlist úr höfði og höndum Ragnhildar Gísladóttur, svona snertiltónlist eins og ég vil kalla tónlist sem kemst inn fyrir hjúpinn á hjartanu. Dans og hreyfingar mikið og vel notaðar til tilfinningatjáningar. Falleg andartök í höndum ofurleikaranna Ólafíu, Margrétar og Baldurs, þau voru alveg klassi og nærðu mína leiklistarelskandi sál.

Orðræða verksins er brilliant á köflum og lýsir vel hinu absúrdíska andrúmslofti sem oft skapast í hjónaböndum, þá aðallega þeim þreyttu, hjónaböndunum sem nenna ekki að vera til lengur og hengja volæði sitt í eitthvað annað. Þó fannst mér vanta dýpt í sum samtölin, sársauka, raunveruleika, stundum urðu þau of steríótýpuleg fyrir minn smekk. En á hinn bóginn held ég að það sé partur af hjónabandinu, það hvað það getur oft á tíðum verið alveg hrottalega yfirborðskennt. Kannski er það bara minn vandi  að vilja hafa flækjustigið hátt í orðræðu í leikverki um hjónaband. Kannski er þetta ekkert svona rosalega flókið eins og margur heldur, ef einstaklingar í hjónabandi halda sig bara hvor innan síns líkama og tilveru, leyfa hinum aðilanum að vera hann sjálfur og bera virðingu fyrir honum. Og kannski var það markmiðið með verkinu, að fá áhorfandann til að skilja þetta. En hver og einn túlkar listaverk út frá sjálfum sér, burtséð frá því hvaða hlutverki verkið gegnir af höfundarins hálfu. Leikhúsið er þar engin undantekning. Svanir skilja ekki hvatti til hugsunar, trega og kátínu, svo mikið er víst, ef ekki í orði þá í dansi og tónum.

Takk fyrir mig – hollt verk fyrir fersk sem þreytt hjónabönd og fólk sem vill leikhús sem leikur á alla tíu fingur listarinnar að skapa og túlka.

Frekari upplýsingar:

Svanir skilja ekki eftir Auði Övu Ólafsdóttur, Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 28.febrúar 2014.

Leikarar – Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir og Baldur Trausti Hreinsson.

Leikstjóri: Charlotte Bøving – Aðstoð við leikstjórn: Benendikt Erlingsson

Leikmynd og búningar: Eva Signý Berger – Tónlist og hljóðmynd: Ragnhildur Gísladóttir

Dansar og sviðshreyfingar: Melkorka Sigríður Magnúsdóttir

Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson

 

.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283