Auður H Ingólfsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og lektor við Háskólann á Bifröst skrifar.
Forsætisráðherra hefur verið gagnrýndur harðlega undanfarið vegna verklags við útdeilingu á 205 milljónum til ýmissa verkefna. Svo virðist sem ráðherrann hafa ákveðið sjálfur í hvaða verkefni fjármunirnir færu án þess að nokkur skýr viðmið væru höfð til hliðsjónar. Þetta þykir ekki góð stjórnsýsla og er á skjön við þá þróun undanfarinna ára að koma slíkum styrkveitum í faglegan og gagnsæjan farveg. Í Kastljósviðtali þriðjudagskvöldið 4. mars varði Sigmundur Davíð ákvörðun sína með þeim hætti að um væri að ræða lið í fjárlögum sem búinn var til á síðasta kjörtímabili og fjármunum úr þessum lið hafi verið úthlutað með sama hætti í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. En hvaða fjárlagalið er hann að vísa í og hvernig hafði fyrri ríkisstjórn áætlað að nýta fjármunina?
Samkvæmt svari forsætisráðherra við fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur um málið er um að ræða fjármuni af tveimur liðum fjárlaga: Lið 01-128 um atvinnuuppbyggingu og fjölgun vistvænna starfa og lið 01-305 um græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Þegar litið er yfir lista þeirra verkefna sem hlutu styrk er ljóst að ekkert þeirra tengist neinni af þeim 50 tillögum sem Alþingi lagði til í þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins.
Um hvað snýst græna hagkerfið?
Hugmyndin um grænt hagkerfi hefur verið að ryðja sér til rúms alþjóðlega sem skynsamleg leið til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar. Mikilvægi þess að haga efnahagsþróun með þeim hætti að virðing sé borin fyrir umhverfi og náttúru er óumdeilt. Uppbygging græns hagkerfis er leið til að skapa ný störf og bæta lífsskilyrði fólks, bæði hnattrænt og heima fyrir, án þess að ganga of mikið á höfuðstól náttúrunnar. Hið opinbera getur gripið til ýmissa aðgerða til að stuðla að uppbyggingu græns hagkerfis, t.d. með því að beita hagrænum hvötum og að sýna gott fordæmi í eigin rekstri.
Í mars 2012 samþykkti Alþingiþingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Málið var sérstakt að því leyti að um það ríkti þverpólitísk sátt og allir viðstaddir þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni. Þeirra á meðal var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Allar áætlanir um eflingu græna hagkerfisins virðast hins vegar hafa lognast út af með nýrri ríkisstjórn. Ekki aðeins voru fjárveitingar til verkefnisins næstum þurrkaðar út, heldur hafa þeir litlu fjármunir sem þó voru enn eyrnamerktir græna hagkerfinu gufað upp undir liðnum „Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegrar og menningartengdra byggða og fornleifa“. Með öðrum orðum, hugmyndin um græna hagkerfið var þynnt út með því að skella henni saman við aðra, ótengda málaflokka í fjárlögum undir yfirheitinu „þjóðmenning“. Eftir að í ljós kom hvaða háttalag var haft við útdeilingu fjármagns undir þessum lið lítur málið síðan enn verr úr.
Í þingsályktunartillögunni um græna hagkerfið kemur fram að þær aðgerðir sem kynntar eru miði að því að Ísland skipi sér í fremstu röð á alþjóðavettvangi sem grænt hagkerfi með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni. Hvergi er minnst á þjóðmenningu eða verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa. Sá liður á fjárlögum sem nú heitir „Grænt hagkerfi og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl.“ hét í tíð fyrri ríkisstjórnar „Græna hagkerfið, ýmis verkefni“ (í fjárlögum ársins 2013). Bæði þingsályktunartillaga Alþingis og Aðgerðaráætlun um eflingu græna hagkerfisins, sem verkefnisstjórn um eflingu græns hagkerfis gaf út í janúar 2013, gefa nokkuð skýr viðmið um hvernig nota beri það fjármagn sem er til ráðstöfunar undir þeim lið fjárlaganna.
Sú staðhæfing forsætisráðherra að úthlutun úr þessum lið fjárlaganna hafi verið með svipuðum hætti í tíð fyrri ríkisstjórnar og sú aðferð sem hann beitti í lok árs 2013 virðist því ekki eiga við nein rök að styðjast. Öllu alvarlegi er þó sú staðreynd að núverandi ríkisstjórn virðist ætla að kasta frá sér allri þeirri góðu vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili varðandi möguleikann á eflingu græns hagkerfis. Þetta er gert án nokkurrar umræðu og þrátt fyrir að fulltrúar þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn hafi stutt þingsályktunartillögu Alþingis um málið árið 2012. Til að bæta gráu ofan á svart er ekki komið hreint fram heldur látið í það skína að áfram sé stutt við hugmyndina með því að kalla liði á fjárlögum nöfnum sem vísa í græna hagkerfið án þess að ætlunin virðist að nýta eina einustu krónu í þau viðfangsefni sem tengjast tillögum um eflingu græns hagkerfis.
Auður H Ingólfsdóttir er alþjóðastjórnmálafræðingur og lektor við háskólann á Bifröst. Hún hefur m.a. kennt námskeið undir heitinu „Sjálfbærni og samfélagsábyrgð fyrirtækja“ í nokkur ár þar sem grænt hagkerfi er til umfjöllunar.