Finnur Gunnþórsson skrifar:
Píratar voru stofnaðir til þess að valdefla almenning og kalla fólk til lýðræðislegrar ábyrgðar með aukinni þátttöku.
Möguleikinn á því að nýta hæfileika og áhuga fólks og sérfræðinga í auknu samspil er stóraukinn með upplýsingabyltingunni.
Ætli þess vegna sé ekki möguleiki á því að pólitík verði núna eitthvað allt annað heldur en hún var áður? Eitthvað annað en þrætubókarlist og „ég náði þér“ og „þú tapaðir fyrir mér“? Eða ætli eina leiðin til að ná árangri sé að beita bolabrögðum sem minna á þrýsting á vitlausabeinið? Hvað viljið þið, ætlar þú að í alvörunni leggja helling á þig…til að breyta stöðunni? Án þess að krefjast viðurkenningar og verðlauna í beinu hlutfalli? Eða er hægt að samræma þetta allt? Er Ísland bara verstöð sem býður ekki upp á annað en að þeir sem hafa styrk til að bola öðrum til hliðar nái framgangi í hverju því gullæði sem geisar hverju sinni?
Nær allir ná að lesa sér til, hlusta eða horfa á efni um eitt og annað og mynda sér þar með upplýstari skoðanir og auka möguleika sína á þátttöku. Fólk nær að tengjast í verkefnavinnu og skoðanaskiptum á leifturhraða í fjölþættu samhengi þvert á allskonar skilgreiningar um nám, fyrri störf, aldur og félagslega ásýnd . Svo lengi sem það tapar sér ekki í upphrópunum, dægurþrasi, niðurrifi og afþreyingu.
ISMARNIR OG KÖLTIÐ
Sú hugsun sem er Pírataleg gengur út á að sjá hvað er að gerast, hvað er hægt að gera og að leysa verkefni frekar en að boða einhvern isma. Hún er gríðarlega mikilvæg í nútímanum í stærra og stærra samhengi og fjölþættara en áður . Til þess að upplýsingabyltingin og auknir möguleikar á samstarfi nýtist til eflingar einstaklinga og samfélags frekar heldur en til þess að drekkja fólki í afþreyingu og eftirliti eða markaðsrannsóknum þarft þú að taka afla þér upplýsinga og færni, taka afstöðu og taka til hendinni.
Gamaldags valdboð þar sem allir þurfa að standa vaktina á flokkslínunni nýtir ekki hæfileika fjöldans að sama skapi. Áhugi og drifkraftur hvers og eins á að njóta sín og má nýta mun betur í hópi eins og Pirötum vegna tækninnar sem komin er. Þar með er líka möguleiki kominn á því að taka samtalið lengra. Upphrópanir úr kennslubókum um hvað er rétt og rangt eða hugarheimi fortíðar duga ekki lengur til. Við höfum fengið að skyggnast á bak við vinstri og hægri og höfum séð sömu eiginhagsmunina og manlegt klúður byggt á græðgi eða einhverjum öðrum löstum verða einum og öðrum að falli.
Þar sem við erum öll mannleg höfum við í nútímanum flest okkar frekar trú á lífinu í öllum heldur en einhverjum einum ímynduðum fullkomnum núlifandi leiðtoga. Við höfum frekar áhuga á því að fá stuðning annarra heldur en að elta einhvern einn eða einhverja eina hugmynd eða hugmyndakerfi að feigðarósi sem hefur síendurtekið sig í gegnum veraldarsöguna. Við vitum að við höfum ákveðna hæfileika en erum svo alveg stopp annarsstaðar, við þurfum stuðning og aðhald hinna: Nú til að ná árangri í ræktinni, geta búið til kvikmynd eða staðið í stjórnmálum. Ekki ætla ég að leysa öll mál einn, eða standa einn á einhverju berangri, þó ekki nema væri af því að ég hef gaman af félagsskap.
Fyrst að netið getur afhjúpað allt er ekki lagt jafn mikið á einhvern einn mögulegan höfðingja og höfðingjahollustan umbreytist þannig að svigrúm skapast fyrir minni sellur / hópa sem minna á frumur í samskiptum í mannslíkama. Mismunandi líffæri tengjast og mynda líkamann sem þegar að vel lætur líkist fremur óstöðvandi náttúrukrafti heldur en leiðinlegu afli sem færir einstaklinga í sama mót með því að skikka þá til.
Persónuleika költið
Persónuleika költið heyrir sögunni til þar sem ismarnir eru að deyja út í nútímanum af því að það er hægt að skyggnast á bakvið tjöldin þar sem nær ógerlegt er að halda uppi hollýwood fronti út á við vegna stafræna skuggans (upplýsinga sem verða til á netinu) og stöðugrar afhjúpunar á hagsmunatengslum og mannlegu eðli hvers og eins. Eina ráðið til þess að viðhalda persónuleika költinu verður augljós. Hún verður rándýr ! Peningavél, byggð á því besta úr auglýsingarannsóknum og hegðunarrannsóknum sálfræðinnar og í slæmum tilfellum kúgunartækjum óttans og miðast við það sem viðheldur athygli þeirra sem enga hafa. Þar er alveg bannað að vera einlægur. Enn slíkt pot þrífst því miður á lægsta samnefnara vegna þess að fronturinn heldur ekki og því brestur hann og ný sveifla tekur við og auðveldast er að höfða stöðuglega til óttans, tímaleysis, frumhvatanna eða letinnar. Ekkert traust byggist upp á slíku þó svo að stemmning geti myndast um stundarsakir og því gengur það ekki í stjórnmálum þar sem haldið er utan um lífsskilyrði allra. Við viljum ekki þannig í pólitík. Þess vegna verðum við að vera einlæg. Þess vegna er það svo að:
Augun hvíla á Pírötum
Þar er eitthvað nýtt á ferðinni og næstum óskiljanlegt þeim sem eru vanir að hafa traust sitt af skýrum fyrirmælum og spakmælum fortíðar. Þar sem um skipulagsform er að ræða sem að fólk þarf að venjast af því flestir eru vanir öðru fyrirkomulagi er mikilvægt að við vöknum til vitundar um hvernig við höfum atferlismótast af reynsluheimi okkar , var byggt á óttanum heima hjá okkur og í skólanum eða gátum við notið okkar? Erum við vön því að vera þvinguð og eigum við möguleika í frjálsari heimi?
Gáum að því hvernig samskipti við viljum eiga og sjá í samfélaginu. Barnið lærir það sem fyrir því er haft og við getum bara kennt með fordæmi.
Hvernig hugsum við um vinnubrögð og faglega aðkomu. Hvað finnst okkur? Hvað finnst okkur gott? Hvað færir okkur traust og vellíðan í samskiptum? Við verðum að vera og stunda það sem við viljum sjá, eftir bestu getu. Það er eina leiðin til að byggja upp nýja pólitík og ný viðmið í samfélaginu.
Það er mikilvægt í hverju verkefni Pírata að fara sem best eftir því sem við boðum og draga fram ábyrgðir og áhrifasvið til þess að við getum samþætt þá vinnu sem fer fram og gert hana sem sýnilegasta. Það frelsi sem Píratar veita þátttakendum felst í þeirri hugsjón að við tökum eftir hæfileikum hvers annars, drögum þá fram og stundum uppbyggileg samskipti þar sem við hlúum hvert að öðru, hjálpum öðrum að njóta sín og tökum eftir því sem að fólk hefur fram að færa. Þá er það þroskandi og skemmtilegt þó það geti stundum verið erfitt að taka þátt í pólitík.
Traust á pólitík í landinu hefur hrunið, við þurfum að skapa traust á lýðræðið !
Til þess að skapa traust á okkur er frumskilyrði að við getum treyst okkur sjálfum. OG þá ekki til þess að ná árangri í einu og öðru eða vera sæmileg í þessu og hinu. Heldur sem manneskjum til þess að móta líf okkar og annarra eins mikið og við getum í átt að því sem við teljum gott. Það er líka mikilvægt að við séum sem samkvæm okkur sjálfum til þess að geta treyst sjálfum okkur og haft fullan framkvæmdastyrk. Við kynnumst svo hinum og reynum þá. Þar með náum við að kalla fram það besta í innsæi okkar og trausti á möguleikana og sem hópur. Við þurfum öll að læra og erum stöðuglega að læra og þjálfa okkur út frá okkar eigin lífsreynslu. Ég hef tekið að mér að halda námskeið til þess að auka vellíðan Pírata í opinberri framkomu og hef þar miðað að því að hver og einn finni sinn eigin takt og tón frekar en því að þröngva öllum í sama mót og ég er sannfærður um það að ég er ekki að kenna fólki að hlýða leiðtoga eða halda flokks aga, þó svo ég mælist til þess að það samræmi sig heildinni sem best til þess að hún virki út frá grunnstefnu Pírata.
Við þurfum að vera hreinskiptin í samskiptum. Það sem gerir okkur kleyft að vera hreinskiptin er að byggja á því sem við eftir bestu vitund teljum satt svo að við hjálpum til við að halda samfélaginu vel upplýstu og náum með því að byggja upp traust. Það er erfiðara fyrir fólk að treysta þar sem hlutirnir eru faldir eða óljósir, jafnvel ósannir.
Það þarf sárlega að mynda traust á lýðræðinu í landinu og í stjórnmálum almennt. Til að vekja traustið og vera sönn þurfum við fyrst að skynja okkur sjálf, horfast í augu við okkur sjálf eftir bestu getu. Sársauka og áföll jafnt sem það sem okkur þykir betra. Við þurfum að mynda sjálfstraust fyrir okkur sjálf á sjálfum okkur! Við þurfum það sem er kallað innri viðurkenning þannig að við náum að veita öðrum sem best svigrúm í kringum okkur og verðum græðginni ekki að bráð, því hún er sjúkleg alveg eins og hver önnur fíkn. Við þurfum að geta athugað gagnrýni, jafnvel þegar hún virðist óvægin en við þurfum ekki að taka til okkar nema það sem er réttmætt þá til uppbyggingar og til góðs vegna þess að við þurfum líka að vera sterk. Það er mikilvægt í þessu að við áttum okkur á persónulegum hagsmunum og hvernig þeir samræmast hagsmunum heildarinnar og að við þurfum þar af leiðandi ekki að fela þá, frekar að draga þá fram til þess að fá stuðning heildarinnar við að uppfylla langanir okkar og samræma þær heildinni; hagsmunum heildarinnar. Við sjáum hæfileika í öðrum og drögum þá fram til þess að við njótum þeirra sem flest. Við eigum okkur öll okkar sérhagsmuni en þeir þurfa ekki að vera stórtækir eða stangast á við hagsmuni annarra. Við getum þá óhikað leitað hvert til annars með aðstoð og beint hvert öðru áfram eftir því sem við teljum gott. Þá erum við ekki með sérhagsmunafélag heldur þroskandi samfélag.
Við viljum ekki bara öslast áfram með sjálfstraust í verkefnið, heldur vita sem best hvar við erum stödd og hvernig okkur líður til þess að tengjast öðrum sem best og ná velgengni í framkvæmdum. Þetta er af því við erum að móta samfélag í pólitíkinni. OG samfélag snýst um hvernig fólk hefur það og hvernig er búið að því. ÞESS vegna eru t.d. allir Píratar sem ég hef talað við sammála Kára Stefánssyni um að við verðum að lagfæra íslenska heilbrigðiskerfið.
Höfundur er varamaður í stjórn Pírata í Hafnarfirði