„Í vetur hefur stefna Pírata í stjórnarskrármálinu hvílt þungt á mér en aðalfundur Pírata 2015 ályktaði að flokkurinn skyldi, ef hann kæmist til valda, beita sér fyrir því að Alþingi samþykkti strax á næsta þingi (sem er 9 mánuðir) nýja stjórnarskrá út frá tillögum stjórnlagaráðs,“ skrifar Erna Ýr Öldudóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs Pírata, í skoðanapistli í Fréttablaðinu í dag. Greinin ber titilinn „Pírötum rænt.“
Erna ýjar að því að stefnu flokksins hafi í raun verið rænt af fólki úr öðrum flokkum. „Tillagan var lögð óvænt fram og var bæði vanreifuð og illa kynnt og málið í heild var hið undarlegasta. Hún passar illa við almenn stefnumál Píratahreyfingarinnar en athyglisvert er að hún passar þeim mun betur við markmið Dögunar og Lýðræðisvaktarinnar, smáflokka sem náðu ekki inn á þing í kosningunum 2013,“ skrifar fyrrverandi formaður framkvæmdaráðs.
Erna sagði sig frá formennsku framkvæmdaráðs Pírata í lok apríl. Í tilkynningunni gaf hún því undir fótinn að afsögnin væri sökum þess að hennar nafn væri ekki í Panamaskjölunum.
„Ég dreg mig í hlé til að koma í veg fyrir að rýrð verði kastað á Pírata og þau góðu störf sem þeir hafa unnið í tíð þessarar ríkisstjórnar, þar sem mér hefur ekki tekist að skipa mér á bekk með alvöru ræningjum, hverjir ránsfengi sína fela á sjóræningjaeyjum suður í höfum.“
Ástæðan viðirst þó fyrst og fremst vera erfiðleikar í starfi ráðsins. „Aðrar mikilvægar ástæður eru málefnalegur ágreiningur og sú staðreynd að einstaka meðlimir framkvæmdaráðs hafa ekki sýnt þá samstöðu sem þarf til að takast á við mikilvæg verkefni eins og t.d. tímanlega ráðningu framkvæmdastjóra í afar ört stækkandi flokki með óteljandi áskoranir framundan. Því miður kemur fyrirséð annríki nú í veg fyrir að ég geti sinnt hlutverki mínu áfram af þeim krafti og þeirri alúð sem þarf til að ljúka þeim verkefnum sem liggja fyrir, m.a. vegna þess að framkvæmdastjóri hefur enn ekki verið ráðinn.“
Umdeild innan flokksins
Í hlutverki formanns framkvæmdaráðs hefur Erna vakið athygli og verið langt því frá óumdeild. Í samtölum við Pírata er þó ljóst að Erna hefur verið flokknum dýrmætur sjálfboðaliði. Hún vakti athygli fyrir túlkun sína á efnahagskreppu ársins 2008, en hún hefur skrifað um þá skoðun að efnahagskreppan sé afleiðing af „stækum sósíalisma.“ Nokkur óánægja var innan Pírata með framgöngu hennar og nýfrjálshyggjuáróður.
Þær Erna og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, áttu í stormasömum samskiptum. „Það er gjörsamlega óþolandi að þingmaður láti endurtekið titla sig sem leiðtoga eða formann eða kaptein flokksins án þess að vera það,“ skrifaði Erna Ýr á Pírataspjallinu síðastliðinn febrúar. „Koma svo með yfirlýsingar í fjölmiðlum um hitt eða þetta án þess að hafa til þess umboð frá félagsmönnum. Svona sólóplay og röng framsetning á sannleikanum er óheiðarleg, bæði gagnvart flokknum, félagsmönnum, kjósendum og þeim reglum og ferlum sem Píratar notast við.“ Þær Birgitta og Erna tókust á vegna ummælanna og krafðist Birgitta meðal annars afsökunarbeiðni frá Ernu. „Nei ég sé ekki ástæðu til þess. Ég er að benda á staðreyndir og mig langar að fá skýringar.“
Eyjuviðtalið og ágreiningur
Um miðjan apríl sagði Erna Ýr, í viðtali við Björn Inga Hrafnsson, í þættinum Eyjan á stöð 2, það ekki óumbreytanlega stefnu Pírata að næsta kjörtímabil verði stutt og þar lögð áhersla á afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. „Það er allavega stefnan eins og er. En stefnur Pírata eru lifandi, þær eru ekki fastar. Ef það er vilji fyrir því þá er náttúrulega hægt að breyta stefnum. Þá bara kemur breytingatillaga og þá er bara kosið um það í kosningakerfinu. Mér persónulega finnst eitt þing mjög knappur tími fyrir svona mikilvægt og stórt mál.“
Birgitta Jónsdóttir brást harkalega við og taldi Ernu hafa farið langt út fyrir starfssvið formanns framkvæmdaráðs. „Hún fer með formennsku í framkvæmdaráði sem hefur nákvæmlega ekki neitt pólitískt vægi, sér um að framkvæma hluti og halda félagsheimili Pírata þrifalegu og að borga leigu, tryggja aðstöðu fyrir grasrótina. Aðalfundur Pírata samþykkti þessa stefnu einróma, þar á meðal hún og síðan var þetta borið undir atkvæði í kosningakerfinu okkar og samþykkt þar með yfirgnæfandi meirihluta.“
Ummæli Birgittu vöktu nokkra athygli sökum þess að Píratar eru að forminu til flokkur með flata uppröðun valds. Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að þingkona smætti sjálfboðaliða og trúnaðarmann flokksins svo að henni sé aðeins ætlað að halda heimilið þrifalegt en hafa sig að öðru leyti hljóða.

Þingflokkur Pírata Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir
Mikil átök um stefnuna í stjórnarskrármálum
Stjórnarskrármálið og hvernig best sé að ná fram nýrri lýðræðisumbótum og nýrri stjórnarskrá hefur verið erfitt mál fyrir Pírata. Klofningur varð innan þingflokks Pírata vegna stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra sem skilaði tillögum sínum í lok febrúar. Píratar höfðu, eins og aðrir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi, átt fulltrúa í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra sem skipuð var í lok árs árið 2013, eftir stjórnarskipti. Gríðarlegt púður fór í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á síðasta kjörtímabili. Almenningur var kallaður til þátttöku á Þjóðfundi, í stjórnlagaþingskosningum og þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrátt fyrir það var endurskoðun færð úr því ferli inn í lokaða flokkspólitíska nefnd.
Innan Pírata var deilt um þátttöku flokksins í nefndinni í ljósi skorts á gegnsæi í störfum nefndarinnar. „Birgitta Jónsdóttir, þingkona flokksins, sagði á félagsfundi flokksins snemma í janúar að hún væri afar ósátt við nefndina, drög að tillögum hennar og skort á upplýsingum. Þau Helgi Hrafn Gunnarsson og Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmenn flokksins, eru hinsvegar þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að taka þátt í starfi nefndarinnar og reyna þannig að ná fram þeim lýðræðisumbótum sem þó standa til boða,“ segir í umfjöllun Fréttatímans af málinu.
Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur og starfsmaður þingflokksins, var fulltrúi Pírata í nefndinni. Hún talaði fyrir því að stíga varlega til jarðar og varaði Pírata við því að slíta sig úr starfi stjórnlaganefndar sökum óánægju. „Ég upplifi að menn vilji ólmir að aðrir sprengi og helst springi í loft upp sjálfir á meðan þeir eru að því,“ sagði Aðalheiður á félagsfundi Pírata 19. janúar síðastliðinn eftir að fundarstjóri óskaði hennar mats á starfi nefndarinnar. „Það verður enginn jafn glaður og forsætisráðherra ef við kljúfum flokkinn í herðar niður,“ sagði Aðalheiður á fundi Pírata um stjórnarskrármál.
Í kjölfar óánægjunnar kusu Píratar um það hvort taka ætti afstöðu til tillaga stjórnarskrárnefndar áður en þær væru formlega lagðar fram. Sú kosning var að áeggjan Birgittu sem var afar gagnrýnin á störf nefndarinnar og óskaði eftir umboði og afstöðu grasrótar flokksins í málinu enda væri þingflokkur Pírata í raun klofinn í málinu. Gagntillaga um að áfram yrði starfað í nefndinni og „leitast verði við að gera stjórnarskrárnefnd kleift að ljúka störfum sínum og skila niðurstöðu“ var samþykkt. Síðan þá hafa tillögur stjórnarskrárnefndarinnar verið tættar í sundur.
„Öfgar og oftúlkanir“
„Rík þörf er á endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins en það er óráð að breyta öllu á einu þingi þar sem áhættan fyrir íslenskt þjóðfélag næði áður óþekktum hæðum,“ skrifar Erna í Fréttablaðinu í dag. „Einnig skal hafa í huga að slík umbylting hefur þegar verið reynd eftir hrun þegar jafnvel viðraði enn betur til breytinga en hún gekk ekki eftir. Það er ekki góð stefna að þrjóskast áfram og endurtaka sömu mistök og áður, með sömu aðferðum, og búast við annarri niðurstöðu. Stefna Pírata er að vera skynsöm og láta gagnrýna umræðu varða veginn en ekki reisa hús með einu hamarshöggi.“ Hún segir sorglegt að Píratar séu nú talsmenn þeira sem krefjist þess að af eða á um öll 114 ákvæði stjórnarskrártillagna Stjórnlagaráðs. „Það er ekki í samræmi við grunngildi Pírata um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu. Þau hafa verið hunsuð.“ Erna segir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá ítrekað hafa verið oftúlkaða. „Því miður er jáyrði hinnar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fram fór 2012, iðulega oftúlkað. Fullyrt er að ‘þjóðin hafi samþykkt nýja stjórnarskrá’ á meðan hið rétta er að ‘samþykkt var að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá’.“
Erna segir í greininni að aðalfundur Pírata hafi verið vélaður til að samþykkja stjórnarskrárályktun um stutt þing. Það segir hún hafa snúið mörgum grunlausum Pírötum á sveif með þeim sem hafa notað þessa viðburði til að kljúfa menn og málefni í fylkingar, stuðlað að ósætti, sundrungu og gamaldags skotgrafahernaði.
„Ég átti þann kost einan að segja mig frá trúnaðarstörfum innan flokksins. Ég vona um leið að flokkurinn beri dag einn til þess gæfu að nálgast hinar fyrirhuguðu og nauðsynlegu lýðræðisumbætur á stjórnarskrá eins og Píratar myndu gera, af ábyrgð og yfirvegun, landi og þjóð til heilla.“