Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hvað skiptir mestu máli í stóra samhenginu?

$
0
0

Gerðu það sem þú nýtur að gera. Það skiptir engu máli hvað það er svo lengi sem það veitir þér vellíðan og hefur ekki slæm áhrif á aðra í kringum þig. Gerðu eitthvað sem þér finnst skemmtilegt á hverjum degi.

Taktu lífinu ekki of alvarlega, finndu húmorinn í sjálfum þér, aðstæðum og öðru fólki. Reyndu að njóta og fjölga samverustundum með mikilvægustu manneskjunum þínum. Mundu að tíminn með ástvinum þínum er takmarkaður, óendanlega dýrmætur en að sama skapi líka óútreiknanlegur.

Skipuleggðu dagana þína vel og forgangsraðaðu í lífinu, bæði eftir mikilvægi fólksins í kringum þig og þess sem þú nýtur að gera. Hvað fær þig til að brosa? Hvað fær þig til að njóta augnabliksins? Hvað kveikir á gleðinni? Hver dagur er dýrmætur og einstakur.

Vertu heiðarlegur við sjálfan þig og aðra. Finndu kjarnann þinn og vertu honum trúr.

Finndu þinn eigin takt í lífinu og nýttu hvert tækifæri sem gefst til þess að vera í flæðinu. Reyndu að hafa jafnvægi á milli athafna eins og vinnu og frítíma, einveru og samverustunda, hreyfingar og hvíldar, matar og föstu. Gott er að sjá þetta myndrænt fyrir sér eins og flóð og fjöru eða eins og hjartslátt á hjartsláttarlínuriti.

Taktu til í hausnum á þér, losaðu þig við óþarfa flækjur og hentu jafnt og þétt út neikvæðri orku. Talaðu upphátt við aðra um hluti sem trufla þig.

stay-positive-8b

Lifðu lífinu á eigin forsendum burtséð hvað öðrum kann að finnast um hitt og þetta. Gefðu sjálfum þér leyfi til að vera þú hvernig sem útkoman verður.

Komdu því á framfæri sem þér brennur í brjósti. Gefðu sjálfum þér skýra rödd. Það eru engin tabú og nóg pláss fyrir allar skoðanir.

Finndu hvernig nýjar upplifanir og aðstæður geta kveikt á fleiri hugmyndum og vertu opinn fyrir því að skipta um skoðun ef það verður niðurstaðan. Það er eðlinu samkvæmt að endurnýja sig stöðugt.

Vertu meðvitaður um hvenær það er viðeigandi að nota gagnrýna hugsun og hvenær þú ættir að tileinka þér meira fordómaleysi gagnvart fólki og aðstæðum.

Mundu að samanburður við annað fólk getur aldrei gefið rétta útkomu. Við ferðumst á mismunandi hátt og á mismunandi hraða í gegnum lífið, fáum öll misjafnlega gefið, erum öll ólík og einstök. Að bera sig saman við aðra í kringum okkur getur því aldrei verið neitt annað en ein stór ranghugmynd.

Ef andinn er þungur og þér líður eins og ekkert geti hjálpað er gott að byrja bara einhvers staðar á einhverju sem þú veist að veitir þér meiri vellíðan. Prófaðu þig áfram með nýja hluti og gerðu það að forgangsatriði að vinna að því að láta þér líða betur á sál og líkama. Ef ekkert hjálpar er eina vitið að leita sér aðstoðar, taka leiðsögn og fyrir alla muni EKKI gera það sem þú veist að hefur slæm áhrif á sálartetrið.

Spurðu sjálfan þig reglulega: Hvað gerir mig að mér? Hver er aðaltilgangur minn? Hverju vil ég koma á framfæri? Hvað langar mig mest til þess að gera og hvað er raunhæft?

Æfðu þig í að þakka fyrir allt sem þú hefur og BROSTU :)


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283