Elísabet Kristín Jökulsdóttir forsetaframbjóðandi skrifar:
Ástæðan fyrir því að Ólafur hefur fengið að sitja svona lengi og er á góðri leið með að rísa ekki upp aftur úr stólnum er sú að við álpuðumst til að kjósa konu sem forseta.
Það þurfti að breiða yfir það, láta það falla í gleymsku. Konan hafði verið ljúf og góð, dugleg, gáfuð og tignarleg, brosti og hló, stundum hvöss, orðheppin, hafði verið í skóla, en hún var kona, það þýddi að hún riðlaði öllu systeminu, hún fór að rækta eitthvað, setti niður tré, hún ræktaði kannski of mikið en það er einsog þegar ég kemst á Feisbúkk, þá skrifa ég of mikið, en það er allt í lagi, en hún var semsagt kona og riðlaði systemi sem hér hafði ríkt í þúsund ár, það voru strákar sem ólust upp við hennar tíma, ekki undir hennar verndarvæng og ekki við hennar fótskör, heldur hittu hana út í búð að versla í matinn, einsog drengirnir mínir sem eru snillingar í að vera pabbar fyrir dætur sínar, einsog Andri Snær sem nefnir hana sem áhrifavald númer eitt, konu!! Og ömmur sínar. Og þessir strákar hugsa öðruvísi.
En konur eru hættulegar, þær riðla systeminu, þær hugsa öðru vísi, það þarf að hugsa allt uppá nýtt, það þarf að stofna Mæðraveldi, ég stofnaði Mæðraveldi um daginn, fáir mættu, blaðamenn sýndu engan áhuga, enginn þeirra mætti, Mæðraveldið var ekki stofnað til höfuðs Feðraveldinu en til að hér gætu fleiri setið á bekknum, til að koma á jafnvægi þegar stúlkur geta ekki labbað einar heim, eiga eitt prósent af eignum heimsins, mega varla gefa brjóst á almannafæri, en það var þetta sem ég ætlaði að segja, nú er hálf þjóðin að láta kosningar snúast um fortíðina þegar þær eiga snúast um framtíðina, og hitt sem ég ætlaði að segja, þjóðin er líka ábyrg, ástæðan fyrir því að Ólafur situr svona lengi er sú að það þurfti að koma á jafnvægi aftur, það þurfti að stimpla pólitíkina inn aftur, gamla stjórntækið, því kona hafði komið hér öllu uppí loft, stjórnleysi, með því að vera kona. Og ekki fleiri konur, nú eru þrír karlar sem blokkera embættið.
Og hvaða tilgangi þjóna þeirra konur.
Mér sýnist ekkert hafa gerst.
Ekki komu þær á Mæðraveldið.
Ælta þær bara að standa við hlið manna sinna, brosa og vera fínar, sinna góðgerðamálum.
Það er nefnilega komið árið 2016.
Og golfstraumurinn er að hægja á sér.
Kirsuberjatréð blómgast í Hljómskálagarðinum.
Gætum þess að kjósa ekki aftur konu.
Kona riðlar kerfinu.