Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Nýja [Íhald] Ísland

Hákon Helgi Leifsson Pírati skrifar:

Fyrir tæpu ári síðan ómuðu bjartsýnisraddir úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins fallegan boðskap eftir Landsfund. „Loksins, loksins stígur Sjálfstæðisflokkurinn inn í 21. öldina.“ Unga fólkið og frelsissinnar fengu loks rödd. 89% tillaga þeirra voru samþykktar.

Eftir margra mánaða farsakennt brölt, þar sem einhverju peði var fórnað, kastaði hin „göfuglega“ hátign, Hanna Birna valdasprota sínum. Fornaldar hugsunarhætti Gústafs Níelssonar var tekið púandi og Guðlaugur Þór vék úr embætti til að rýma fyrir nýrri frelsis-prinsessu með eftirminnilegum hætti.

SUS sendi eftirfarandi frá sér í tilkynningu:

,,Sjálfstæðisflokkurinn gekk í endurnýjun lífdaga um helgina, ef áfram er haldið á þessari braut, er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn verður raunhæfur kostur fyrir ungt fólk í næstu kosningum!“

Hinn nýi Sjálfstæðisflokkur hafði risið, eins og Fönix úr ösku hins gamla. Íhaldið burt. Frelsið inn. En auðvitað voru einhverjar efasemdarraddir.

Frjálslyndi flokkurinn sem hvarf

Nokkrum mánuðum síðar virtist þessi nýi flokkur alveg horfinn. Nú liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn eigi heimsmet í ráðherrum með tengsl við skattaskjól. Að minnsta met á meðal Evrópuríkja, ráðherrann sem sagði af sér á Spáni hafði átt aflandsfélagið áratug áður en hann fór í pólitík. Kenningar um eiginhagsmuni þeirra, án þess að fullyrða nokkuð, eru vægast sagt líklegar. [Innskot, fylgist með fréttum eftir klukkan sex í dag]

Tónninn í þessum aflandsflokki er núna allt annar en á landsfundinum. Farin er bjartsýni margra um „nýjan Sjálfstæðisflokk“. Horfinn eins og dögg fyrir sólu. Enda lítið annað en herbragð ef maður íhugar málið.

Fönixinn fæðist grár og hrapar

Okkur var lofað fönix, nýjum frjálslyndum flokk sem myndi rísa úr grárri ösku gamalla stjórnmála en þess í stað fáum við grameðlu í forsetaframboð. Eins og í vísindaskáldsögu.

Forkólfar flokksins ásamt ríkishatandi ríkisstarfsmanni kokkuðu upp í tilraunastofu úr Hádegismóum, 65 milljón ára, útdauða, risaeðlutegund Tyrannosaurus Oddsson og slepptu út í samfélagið. Allt samfélagið logar, hlær, grætur, reiðist og gleðst. En í öllum slíkum sögum breytast slíkar gjörðir sem þessi iðulega í martröð. Það vitum við sem höfum séð Jurassic Park eitt, tvö og þrjú, eða Jurassic World.

Samhliða sköpunarverki sínu, stígur Bjarni Ben fram og hamrar nýja boðskapinn.

Sjálfstæðisflokkurinn myndi í fyrsta lagi beita sér fyrir áframhaldandi stöðugleika í landinu og að ríkið verði rekið með ábyrgum hætti. Að passað yrði upp á að kerfum verði ekki kollvarpað og að ekki verði tekin upp ný stjórnarskrá.“

Með öðrum orðum: Engar kerfisbreytingar, engin stjórnarskrá, ekkert nýtt, aldrei!… Það hentar illa eiginhagsmunum flokksmeðlima.“ Og skiljanlegt að flokkurinn sé á móti stjórnarskrárbundinni hagsmunaskráningu, menn eru sennilega að vona að gegnsæi sé bara bóla eins og internetið.

Bjarni, mig langar að spyrja þig.

Gerir þú þér grein fyrir, að ef flokkurinn kemst ekki í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, þá ertu viljandi að draga úr möguleikum þínum, flokksins og stuðningsmanna að hafa áhrif í stjórnmálum?

Gerir þú þér grein fyrir að þá ertu viljandi að halda í eina möguleikann, sem þú fordæmir sjálfur, iðulega, málþóf?

Ég á erfitt með að meðtaka slíka rökleysu. Einhverjar aðrar hvatir hljóta að liggja á bakvið.

Ég er með spurningu til SUS.
Er Sjálfstæðisflokkurinn ennþá raunhæfur kostur fyrir ungt fólk í næstu kosningum?

Hér er tilvitnun í hina ungu og efnilegu [engin kaldhæðni] ritara flokksins, sem sagði stuttu eftir landsfund í viðtali í Harmageddon.

„En varðandi það hvort þessu verður fylgt eftir? Auðvitað samþykkir landsfundur ýmislegt og það eins og þið vitið stórar ályktanir undir hverri og einustu nefnd….“

Þetta lofar ekki góðu hjá flokk sem lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu en stóð svo ekki við það þegar á hólminn var komið. Þjóðaratkvæðagreiðslur virðast almennt ekki eiga upp á pallborðið hjá þeim, enda auðveldar nýja stjórnarskráin þjóðinni og þingi að kalla eftir þeim. Sem er skrítið því lýðræðið gengur út á að framkvæma vilja þjóðarinnar en ekki tefja hann.

Þjóðin vill svo margt sem Sjálfstæðisflokkurinn beitir sér gegn, t.d. kaus hann með Icesave þvert á vilja þjóðarinnar í seinni umferð, og sumir vilja meina að það sé af því vinstristjórnin lofaði að reyna ekki að breyta kvótakerfinu frekar.

Hvort það síðasta sé satt og rétt get ég ekki fullyrt, því hrossakaup á Alþingi eru sjaldan opinber, einungis að engar breytingar voru gerðar á kvótakerfinu eftir að sjálfstæðisflokkurinn kaus með Icesave.

Að lokum spurning til okkar allra:
Fyrir hvern eru þessi kjörorð Sjálfstæðisflokksins „Gjör rétt, þol ei órétt.“ Eru þau fyrir landsmenn alla eða eingöngu innanbúðar fólk Sjálfstæðisflokksins?

Það, gott fólk, mun koma í ljós á eftir.
#Panamapapers

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283