Heimilisbankinn, nýr samfélagsbanki, er í undirbúningi. Fréttastofa RÚV greinir frá.
„Í kjölfar hrunsins kviknaði umræða innan Hagsmunasamtaka heimilanna um nauðsyn þess að koma á fót íslenskum samfélagsbanka að erlendri fyrirmynd. Stofnun samfélagsbanka var rædd á stjórnarfundi samtakanna í ágúst 2009,“ segir á vef RÚV.
Þá kemur fram að hugmyndin hafi legið í dvala um nokkra tíð en nú hafi vefsvæðið heimilisbankinn.is opnað og unnið sé að stofnun.
RÚV hefur í óbeinni ræðu eftir Hólmsteini Brekkan, framkvæmdastjóra Samtaka leigjenda á Íslandi, sem á sæti í undirbúningshópi verkefnisins að efnahagskrísan hafi haft lítil sem engin áhrif á samfélagsbanka víða í Evrópu.
„Samfélagsbankar eru náttúrulega aldrei fjárfestingabankar eða það er að segja spilavíti,“ segir Hólmsteinn í samtali við fréttastofu. „Þar er einungis um viðskiptabankaþjónustu að ræða, inn- og útlán, og sá starfsgrundvöllur sem samfélagsbankar byggja á er sá að aðaláherslan er lögð á að þjóna félögunum og þá með hóflegum þjónustugjöldum og hóflegum vöxtum. Svo rennur arðurinn, sem myndast af bankanum eða starfseminni, aðallega í að byggja upp nærsamfélagið.“
Undirbúningsfundur um stofnun Heimilisbankans verður boðaður á næstunni.
Lesið meira um Samfélagsbanka hér. Hvað er Samfélagsbanki.