„Mistök hjá fasteignasölunni, sem hafði umsjón með sölu Ásmundarsalar þar sem listasafn ASÍ var til húsa, urðu til þess að hæsta tilboðinu í húsið var ekki tekið.“ Frá þessu greinir Morgunblaðið í dag. Húsið var selt í upphafi mánaðarins en talsverða athygli vakti hve hratt salan gekk í garð. Ásmundarsalur er sögufrægt hús og eitt af fáum húsum á landinu sem byggt var sérstaklega til myndlistastarfsemi.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ákvað um miðjan apríl að selja Ásmundarsal, húseign í eigu Listasafns ASÍ. Ástæðan sem upp var gefin er rekstrarörðuleikar en verulega hefur hallað undan rekstri safnsins undanfarin ár. Ásmundarsalur, að Freyjugötu 41, var byggt árið 1933. Húsið lét Ásmundur Sveinsson myndhöggvari reisa og bjó hann þar og hafði vinnustofu þar til hann flutti í Sigtún en Arkitektafélagið keypti húsið af ættingjum hans árið 1978. ASÍ keypti húsnæðið árið 1995 og fékk safnið aðstöðu í húsinu í kjölfarið.
Árið 1961 gaf Ragnar Jónsson, iðnrekandi og betur þekktur sem Ragnar í Smára, Alþýðusambandi Íslands stórt listasafn að gjöf. Ragnar gaf sambandinu 120 listaverk fyrir hönd „íslenskra erfiðismanna“ eins og hann orðaði það. Auk verkanna gaf hann ASÍ 5000 eintaka upplag af Íslenskri myndlist á 19. og 20. Öld. „Ágóðinn af sölu þessara bóka átti að renna, að hans ósk, til byggingar á húsnæði fyrir listasafnið.“ segir í umfjöllun um Listasafn ASÍ, í sérstöku afmælisriti Þjóðviljans vegna 70 ára aldurs Alþýðusambands Íslands.
Í samtali við Morgunblaðið ítrekaði Gylfi að kaupsamningur við hjónin Aðalheiði Magnúsdóttur og Sigurbjörn Þorkelsson, sem keyptu húsið, muni standa. „Það hefur komið í ljós að það urðu mistök hjá fasteignasölunni sem leiddi til þess að okkur bárust ekki upplýsingar um þau tilboð sem voru gerð með réttum hætti. Þetta mál er til skoðunar en við teljum að þetta sé mjög alvarlegt,“ segir Gylfi. „Okkur bárust ekki réttar upplýsingar til að taka réttar ákvarðanir,“ bætti Gylfi við.
Það vakti athygli hve hratt salan gekk í gegn á sínum tíma. Ásmundarsalur var seldur aðeins viku eftir að ASÍ tilkynnti um söluna. Samband íslenskra myndlistamanna mótmælti sölunni og stóð fyrir undirskriftasöfnun vegna málsins. Alls skrifuðu rúmlega 1500 manns undir áskorun SÍM til ASÍ um að endurskoða ákvörðun um að selja Ásmundarsal.
Þá greindi Fréttatíminn frá því í síðustu viku að Fjallamjólk Kjarvals, væri nú á skrifstofu Gylfa Arnbjörssonar. Verkið var fært á skrifstofu Gylfa daginn áður en húsið var selt. Í samtali við Fréttatímann segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, engin tengsl á milli þess hvenær verkið var futt á skrifstofu Gylfa og sölu á húsinu. „Verkið er alveg tryggt og ekki á neinum vergangi,“ sagði Guðrún Ágústa við Fréttatímann og bætti við að mikilvægt sé að verkin úr safnaeigninni séu sýnileg. Það sé þó ekki hægt að sýna þau á söfnum öllum stundum og þá séu þau í geymslu eða sýnileg til að mynda á skrifstofu ASÍ.