Yfirmenn BBC í Skotlandi virðast telja skosku þjóðina skipaða ómenntuðu verkafólki og því ekki nægilega snjalla til að skilja grínþætti með menningartilvísunum til sögu og heimspeki. Það á þó ekki við um enska áhorfendur sem að mati stofnunarinnar eru mun veraldarvanari og glöggskyggnari en skoska þjóðin. Þetta kemur fram í færslu skoska grínistans Colin Edwards frá Glasgow. Atvikið sem Edwards lýsir átti sér stað fyrir nokkrum árum. Hann segir í samtali við dagblaðið The National, sem er vilhallt skoska þjóðarflokknum SNP, að hann undrist að málið hafi ekki komið til umfjöllunar áður.
Edwards fór með handrit að gamanþætti til BBC í Skotlandi en fékk höfnun enda væri handriðið „of vitsmunalegt fyrir sjónvarp.“ Handritið mun hafa vitnað til Sókratesar og Plató. Tveimur vikum síðar hafði skoska BBC samband við Edwards og bað um fund með það fyrir augum að bjóða BBC 2 handritið. BBC 2 er mikils metin í Bretlandi og hefur orð af sér fyrir hágæða dagskrárgerð fyrir hugsandi fólk. Stöðin var upphaflega með áherslu á menningu og fræðsluefni og er enn að miklu leiti en hefur víkkað út sjóndeildarhringinn nokkuð.
Handritshöfundurinn furðaði sig þó á að þáttur sem áður hefði ekki talist hæfur til sjónvarps í heimalandi hans, Skotlandi, fengi nú annað tækifæri innan stofnunarinnar. Að hans sögn hefur skoska BBC aðeins áhuga á karllægu efni sem gerist í Glasgow. Sögulega er Skotland menningalega margskipt land með ólíka menningu innbyrðis. Í nútímanum er hugmyndum um sögulega sameinað Skotland alla jafna hampað en slíkt á sér ekki mjög sterka stoð í sögunni. Skoski þjóðarflokkurinn hefur þó séð ástæðu til að hampa þeirri sýn á söguna nokkuð í baráttu fyrir sjálfstæði landsins. Taka skal fram að á hinum enda stjórnmálanna má um leið sjá merki þess að of mikið sé gert úr sögulegum átökum og menningamun með það að leiðarljósi að tala upp málstað sambandsinna. Skotland er í raun ættbálkasamfélag með afar ólíka menningu innbyrðis. Höfuðborgin Edinborg hefur löngum verið auðug menntaborg, Glasgow var mikil iðnaðarborg og einkar mikilvæg breska heimsveldinu og hálöndin hafa sterka sögulega menningu sem er all önnur en borgarnna tveggja, svo dæmi séu nefnd.
Skotar vantreysta BBC mest þjóðanna fjögurra í Bretlandi. Nýleg rannsókn sýnir að Skotar eru afar óánægðir með BBC. Í hvítbók um BBC sem birt var nýlega segir að BBC hafi löngum mistekist að takast á við langvarandi vandamál varðandi fréttaflutning og skoska aðkomu þar. BBC Skotland hefur búið við gríðarlegan niðurskurð sem höggvið hefur mest í fréttastofu stofnunarinnar.
Á fundinum segist Edwards hafa spurt hvað hafi valdið því að handrit sem fyrir tveimur vikum hafi talist of vitsmunalegt fyrir sjónvarp teljist nú boðlegt, og hafi ekki staðið á svari. Áhorfendum sunnan við skosku landamærin sé minna ‘ógnað’ af vitsmunagríni. Edwards segist hafa farið gáttaður af fundi BBC en þó ef til vill létt. Sorglegt sé að segja frá því en honum finnist það uppreisn æru eftir atvikið, enda hafi hann lengi grunað að innan stofnunarinnar væri svona þankagangur ríkjandi.
Ewan Angus, ritstjóri aðkeypts efnis hjá BBC Skotland, hefur harðneitað ásökunum. Hann segir BBC vera stofnun sem opin sé fyrir nýjum og fjölbreyttum hugmyndum. Þá segir hann að ekki þurfi annað en að skoða dagskrá BBC Skotland til að átta sig á að hugmyndir um annað séu rangar. Þó verður að segjast að Angus er að fegra nokkuð hlut BBC Skotands, sem er vantreyst mjög eftir að hafa meðhöndlað umræðu um kosningu um sjálfstæði Skotlands með afar undarlegum hætti. Stofnunin átti erfitt með að taka sér stöðu í málinu og fjalla um það með fjöbreyttum hætti. Vantraust á stofnunina er mikið bæði frá þeim sem vildu sjálfstæði og þeim sem það vildu ekki.
Skoska áhorfendaráð BBC sagði í janúar að stofnunin yrði að taka sig á í áherslum og birtast skosku samfélagi af meiri fjölbreytni og virðingu fyrir þeirri endurvakningu skoskrar menningar sem átt hafi sér stað undanfarið. Þá sagði Fiona Hyslop, menningamálaráðherra skosku ríkisstjórnarinnar, í síðustu viku að BBC yrði að fara að standa sig betur í að fjalla um skoskan raunveruleika og almenning.
Aðalmynd: Jim Barton / CC BY-SA 2.0