Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Er heilun eitthvað að óttast?

$
0
0


Hildur Þórðardóttir forsetaframbjóðandi skrifar:

Ég skrifa bækur um tilfinningar og hugsanir, æðra sjálfið og lægra sjálfið. Freud kallaði lægra sjálfið undirmeðvitundina og æðra sjálfið dulvitundina, svo þetta er ekkert sem ég er að búa til. Ég skrifa líka um meðvirkni, hjálparleysi, áföll og mögulegar ástæður fyrir því að sumir hunsa eigin líðan og einbeita sér frekar að því að öðrum líði vel. Ég skrifa ekkert um krabbamein.

Ef maður sem héldi úti bloggi um golf, skrifaði eitt sinn færslu þar sem hann gagnrýndi bílastæðin við einn golfvöllinn og sagði að þau væru svo holótt að bílar eyðileggðust við að keyra þar inn. Það myndi varla þýða að hann væri á móti öllum bílastæðum alls staðar og alltaf. Eða hvað?

Samt dæmir almenningur mig þannig að ég sé á móti öllum vísindum af því ég leyfði mér að gagnrýna þau í einni færslu á blogginu mínu. Þar var ég að gagnrýna að konur væru hvattar til að láta fjarlægja heilbrigð brjóst og setja sílíkon í staðinn, sem fyrirbyggjandi aðgerð gegn krabbameini.

Í fyrsta lagi er sílíkon aðskotaefni sem líkaminn á það til að hafna og búa til grjótharðan bandvef í kringum púðann til að verja sig. Þetta gerir brjóstin grjóthöfð og skapar óþægindi fyrir konur. Við vitum líka að púðar hafa lekið og gert konum mikinn skaða.

Í öðru lagi spyr ég, þegar búið verður að finna genið sem „veldur“ blöðruhálskirtilskrabbameini, á þá að hvetja karlmenn til að láta fjarlægja blöðruhálskirtilinn þótt hann sé í fínu lagi og setja sílíkon í staðinn? Eða er bara í lagi að láta konur fjarlægja líkamshluta en ekki karlmenn? Og þegar búið verður að finna genið fyrir krabbameini í heila, eigum við þá að láta fjarlægja heilann og setja tölvu í staðinn? Hvar endar þetta?

Að sjálfsögðu hvet ég konur til að fara í brjóstaskoðun og láta fylgjast með heilsunni, en þegar við erum farin að fjarlægja heilbrigða líkamshluta í þágu vísinda, held ég að við ættum aðeins að bakka.

Dómharka bendir til þess að einstaklingur geymi mikið af óútkljáðum tilfinningum innra með sér. Við glímum öll við einhverja erfiðleika í æsku, lendum í áföllum á fullorðinsárum og byrgjum inni tilfinningar eins og ótta, sektarkennd, skömm og minnimáttarkennd.

Sem betur fer eru alls kyns úrræði, námskeið og sjálfstyrkingarbækur sem hjálpa fólki við að takast á við þessar tilfinningar. Heilun er til dæmis frábær og mild leið til þess. En margir þora ekki að takast á við fortíðina, því þeir halda að það sé svo sársaukafullt. Það er nefnilega miklu auðveldara að dæma náungann heldur en að horfa í eigin barm.

Ótti við útskúfun er það sem lægra sjálfið hræðist mest. Þess vegna er fólk svo fljótt að útskúfa aðra og dæma þá. Með því að benda á aðra eru þeir að beina athyglinni frá sjálfum sér og þannig minnka líkurnar á að þeim sjálfum verði útskúfað.

Heilun er bara eins og innsæi. Við erum öll með þetta í okkur. Sumir hafa þjálfað innsæið og eru frábærir í að lesa fólk eins og sölumenn og sálfræðingar. Við getum öll heilað, en sumir nýta þessa hæfileika betur en aðrir, eins og hárgreiðslukonan sem gefur þér svo himneskt nudd að þú ert í skýjunum. Allir geta þjálfað hæfileika sína til að heila sjálfan sig og aðra.

Það þarf ekki að útskúfa neinum. Það er pláss fyrir alla. Þegar meirihluti samfélags er orðinn sáttur við sjálfan sig og búinn að hreinsa út skömm og ótta, getum við betur metið aðra af víðsýni og umburðarlyndi.

Höfundur er þjóðfræðingur, rithöfundur og forsetaframbjóðandi

 

Lesið greinar í NY Times og grein í TIME um það hversvegna læknar eru að endurskoða meðferðir við brjóstakrabbameini.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283