Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lýðræðislæk eða flokkur fyrir fullorðna

$
0
0

Ég hef oft gert grín að Viðreisn fyrir að vera ekki annað en stöðutaka í Sjálfstæðisflokknum. Smáflokkur á kantinum sem sér Sjálfstæðisflokkinn vissulega sem réttborinn til valda en hefur ekki burði til að breyta honum innan frá. Ég held reyndar að í fyrstu hafi Viðreisn verið nákvæmlega það. Evrópusinnarnir í Sjálfstæðisflokknum að reyna að sýna stækasta íhaldinu í flokknum að eitthvað væri að missa ef að raðniðurlægingu Evrópusambandssinnaðra hægrimanna færi ekki að linna og að málamiðlun yrði einfaldlega að ná.

bjarni-EvraÞað tókst ekki enda andstaðan við Evrópusambandið innan Sjálfstæðisflokksins trúarbrögð en ekki rökræða. Viðreisn verður því aldrei boðið til baka. Ofstækismennirnir eru glaður að losna við þau og búið er að berja þá til hlýðni sem áður þorðu að íhuga upptöku evru.

Kyngdu stoltinu eða komdu þér burt.

Viðreisn er því fullgildur flokkur og ólíklegt er að þeim verði nokkurn tímann boðið aftur í faðm aflandseyjarbraskaranna. Ég verð að viðurkenna að ég er spenntur fyrir Viðreisn. Með fyrirvara þó. Það þýðir ekki að ég falli fyrir því að í forsvari flokksins verði eingöngu karlar með konuskrauti. Þetta gildir ekki aðeins um Viðreisn heldur alla flokka. Flokkar sem ekki eiga annað fjölbreytileikakrydd en konur í dragt með týpuhálsmen og unga vatnsgreidda stráka eru óaðlaðandi sama hvað þeim gengur til.

… Nei, það er ekki nóg að ein kona sé með vinstrikvennaklippingu. Fjölbreytni snýst um einstaklinga og hugmyndir.

Já, svo nenni ég ekki enn einum flokknum með hópmígreni yfir því hvernig ganga eigi hinn sífellt þrengri gang þriðjuleiðar nýfrjálshyggju og dekurs við ábyrgðarlausa heimtufrekju ‘hófsama fólksins’. Sama hóps og af lotningu kallar sig – ‘hinn þögla meirihluta’ en þá sem þeim eru ósammála – ‘háværan minnihluta’.

Stjórnmál eru stundum átök vegna þess að hagsmunirnir í samfélaginu eru mismunandi. Ég ætla að kjósa flokk sem er tilbúinn að viðurkenna það og skilur það hlutverk sitt að vera samtal hugmynda og hagsmuna.

Hvað heillar mig við Viðreisn? Jú, þau virka fagleg, ígrunduð og ekki helsjúk af dogmatík. Slíkur flokkur gæti komist ansi langt í að vinda ofan af rugludallaræðinu á Íslandi. Og, nei ég er ekki að tala um virka í athugasemdum ég er að tala um reiða í jakkafötum. Hundleiðinlegu valdakarlana og sleikjurnar í kringum þá, sem afgreiða alla gagnrýni sem reiði og dónaskap, almenning sem skríl og mótmæli sem aðför.

Spunameistarana, þrýstihópana og skíthræddu millistéttina sem mun lesa þennan pistil og tala um að ég sé nú svona og hinsegin, sletti og noti jafnvel dónaleg orð.

Yfirborð ekki innihald – það er pólitík fína fólksins og ég nenni henni ekki lengur.

Þetta er ekki stuðningsyfirlýsing til handa Viðreisn, svo því sé nú haldið til haga, flokkurinn er jú ekki stofnaður fyrr en á morgun. Takist Viðreisn það sem engum flokki virðist takast; að halda fast í markmið sín, forðast heilaþvott og hysteríu og taka ígrundaðar ákvarðanir þá er Viðreisn flokkurinn sem ég hef beðið eftir. Hafa skal þó í huga að ég er víst þekktur reiður, ungur kommúnisti og því alls óvíst að nokkuð sé að græða á stuðningi mínum.

Á Íslandi skortir traust, fagmennsku og getuna til að takast á við vandamál en ekki afneita þeim og fela sig bakvið hugmyndafræði. Semsagt flokk sem er tilbúinn að ræða reynslu en ekki ritningu. Mitt atkvæði fær flokkurinn sem sýnir þessu virðingu.

Landlausir hægrimenn

Íslensk stjórnmál eru sérstök að því leyti að sögulega eigum við hvorki sterkan frjálslyndan flokk né jafnaðarmannaflokk. Þess í stað hafa aðrir flokkar í raun skreytt sig stolnum fjöðrum frjálslyndis og jafnaðarhugsjónar. Það þarf ekki annað en að lesa frábæra bók Guðna Th. Jóhannessonar um ævi Gunnars Thoroddsen til að sjá hvernig íhaldið hefur alla tíð skreytt sig fallegri jafnaðarhugsjón í einni andránni en barið svo á fólki sem boðar slíkar hugmyndir í næstu andrá. Þá á öllum að vera löngu ljóst að sama gildir um viðskiptafrelsi. Orð eru eitt en gjörðir Sjálfstæðisflokksins eru alltaf í þágu innvígðra og innmúraða, helst blóðskyldra.

Flokkurinn er semsagt frumkvöðull í þeirri list nútímans að standa ekki fyrir það sem hann segist standa fyrir, heldur að borga fyrir ímyndavinnu til að sannfæra alla um að það sem hann segist standa fyrir – sé það sem hann stendur fyrir.

Þess vegna leiðist mér þetta endalausa smjaður við hófsama hægrimenn sem eiga víst aldrei að finna sér neinn stað í tilverunni. Viðreisn sé ég satt að segja sem enn eina tilraunina til þess að tala inn í þessa mýtu og er ekkert ofsalega sannfærður. Mín von er að þau hætti að smjatta á þessari mýtu meðfram því að sjálfstraustið eykst.

Borgarahreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn, Íslandshreyfingin, Björt framtíð og Samfylking Árna Páls Árnasonar áttu öll að standa fyrir hugmyndir um landlausa hægrið en segjast verður að ekki hefur þeim orðið mikið ágengt. Það er nefnilega enginn sérstakur sigur að mælast vel í skoðanakönnunum eða sigra eina kosningu.

Rétt hægra megin við miðju er pakkaðasta pláss íslenskra stjórnmála og það án þess að virka nokkurn tímann nema eina kosningu. Viðreisn verður því að bjóða upp á eitthvað betra en hægrilotningu og afneitun á hugtökum ef flokkurinn ætlar að vinna kosningar. (Píratar geta tekið þetta til sín líka.) Það að skora hátt í skoðanakönnun er ekki merkilegra en læk á Facebook. Til þess að það hafi einhverja meiningu þarf lækið að verða atkvæði en ekki bara leið til að ögra flokknum sem þú ætlar hvort sem er að kjósa, eins og þú gerðir síðast og þar síðast…

Sé einhver kjósendahópur landlaus á Íslandi þá er það vinnandi og hugsandi fólk. Vissulega getur vinnandi fólk fundið sér grið víða og sama á við um þá hugsandi. Það er samt ekki fyrr en þú vinnur og hugsar sem vandinn verður því sem næst óyfirstíganlegur.

Lötum stjórnmálagreiningum linni

Ruglið um hinn hófsama hægrimann sem hvergi finnur sér stað á Íslandi er að mínu viti ekki annað en liður í letinni og hugmyndafátæktinni sem einkennir íslenska stjórnmálaumræðu. Varðandi letina þá á ég sérstaklega við þá sem ganga með álitsgjafa í maganum. Þeir, já þeir, en ekki þær, eru verstir.

Hinn landlausi hægrimaður er auraspeki á við síendurteknar hugmyndir um að eftirspurn sé eftir Alþýðuflokknum, að Össur Skarphéðinsson sé de facto formaður Samfylkingarinnar, að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur viðskiptafrelsis og já, þeirri hugmynd að Davíð Oddsson sé sigurvegari.

Sú mýta er reyndar alveg sérstaklega letileg þar sem Davíð hefur ekki bara verið lúser, heldur algjör lúser, í áratug. (Gjörið svo vel dannaða fólk. Hér er ykkar fjarvistasönnun. „Hann notaði orðið lúser, óttalegur dóni þessi reiði ungi maður“ Verði ykkur að góðu.) Flokkurinn í molum, Seðlabankinn í rúst, hrun í lestri Morgunblaðsins og eyðilegging á stofnun í íslenskri blaðamennsku sem staðið hefur af sér heimskreppu, spænsku veikina, pappírsskort og heimstyrjaldir en varð að beiskleikabloggi Davíðs og sérhagsmunanna sem hann hefur alltaf unnið fyrir. Þessi maður er augljóslega winner!

Er ekki annars kominn tími á að endurvekja Alþýðuflokkinn og þurfum við ekki forseta eins og Vigdísi Finnbogadóttur? Og meðan ég man þá er Samfylkingin í leiðtogakrísu vegna þess að hún er allt, allt, allt of vinstrisinnuð. Kratarnir eru líka bara of vondir við Árna Pál og galopin prófkjör eru hin fullkomna birtingamynd lýðræðis – lýðræðisveisla!

Framsókn er reyndar í sömu stærð og formaður þessa flokks er helsjúkur lygari með auð sinn í skattaskjóli. Sá hinn sami er auðvitað búinn að hreinsa flokkinn af gagnrýnni hugsun og raða í kringum sig já-fólki, eins og konungurinn Davíð gerði forðum. Forheimskunar Davíð sigraði Golíat menningarelítunnar og vinstrivillu.

Framsókn er því á hraðleið í leiðtogakreppu sem felst í því að flokkurinn getur ekki losað sig við manninn. Sigmundur Davíð verður væntanlega áfram leiðtogi. Annað er ekki í stöðunni, Framsókn hefur tæmt þrjár kynslóðir af fólki á skömmum tíma og yngsta fólkið þar er vægast sagt í b-klassa. Nei annars, Samfylkingin er í krísu og um hana skal fjalla af þráhyggju daginn út og inn en þó aldrei inntak eða sögu krísunnar. Nei, hvað ætli Össuri, Ingibjörgu eða Margréti Frímannsdóttur finnist um málið?

Það er ekki erfitt að skilja hvers vegna svona frasar fljúga endalaust út í kosmósið. Það þarf enga ígrundun eða heimildir. Þetta eru bara faktar, allavega hefur þetta verið endurtekið svo oft í sinni einföldustu mynd og án flækjustigs að ekki er gerð nein sérstök krafa um röksemdafærslu. Svona neglir maður inn sannleika og Icesave verður vinstristjórninni að kenna, forsetinn kom bjargaði okkur og Sjálfstæðisflokkurinn barðist gegn því að íslensk þjóð væri hneppt í ánauð. Já og meðan ég man þá hefur Davíð alltaf unnið kosningar. Vont gengi Sjálfstæðisflokksins 2003 þar sem hann varð að láta Framsókn í té forsætisráðuneytið var auðvitað sigur Davíðs. Það vita allir. Á þessu er sko skýring og nú má draga fram allskonar afsakanir þar til flækjustigið er óendanlegt og raunar vann Davíð.

Einfaldar hugmyndir, frasar og ekkert flækjustig. Davíð er sigurvegari. Jafn mikill í dag og hann var árið 2003.

Komdu þér að efninu

Hvert er ég eiginlega að fara með þessu öllu? Ég er að segja að pólitískt trúarofstæki og fylgispekt við ófrumlegar og órökstuddar hugmyndir séu það sem er að íslensku samfélagi. Ofur einfaldir frasar og hálfsannleikur verður að óumdeilanlegum sannleik. Um leið eru gildi sem hingað til hefur ríkt sátt um rofin og um þau er sköpuð togstreita.

Skattlagning verður ánauð, skattaskjól verður ekki-skattaskjól og kannski ætti Ísland bara að verða skattaskjól?

Gagnrýnin umræða verður reiði og rökræður árásir.

Viðbrögðin eru smáar en óskipulagðar hreyfingar sem föndra við lýðræðisbreytingar. Þær ræða bitcoin, crowdfunding, Alþingi á twitter, tilfærslu á klukkunni og rafræn kosningakerfi en þegar kemur að stóru málunum þá skila þær auðu.

En hvað með stjórnarskrána? Vissulega stórt mál og mikilvægt en hvað á ný stjórnarskrá að áorka ef umbótahreyfingarnar að baki eru í molum og uppgjöf eftir áralanga baráttu sem einblínir á það eitt að skipta um stjórnarskrá? Þarf ekki að svara því hvers vegna það að enginn hlýði boðorðunum tíu kallar eftir boðorðunum 20?

Skortur á fagmennsku

Það er áhugavert að bera saman Pírata og Viðreisn í þessu samhengi. Viðreisn hefur í hljóði unnið faglega og skipulega að mótun flokksins. Þar kemur einmitt ‘hægri-vinnusemin’ úr Sjálfstæðisflokknum.

Að stofna flokk er vinna. Það þarf plan, stofnanir, peninga og mikla kunnáttu. Einfeldningslegar hugmyndir um sjálfsprottnar hreyfingar með flatan strúktúr og leiðtogaleysi eru bull. Þetta eru hugmyndir sem seldar hafa verið almenningi á meðan valdið hefur enn sínar stofnanir og vinnur skipulega og samkvæmt innri ábyrgðarkeðju. Umbætur falla ekki af himnum. Þær reddast ekki bara heldur redduðu einhverjir þeim.

Í nýlegu viðtali kom fram að um 100 manns vinni nú í málefnahópum Viðreisnar. Ástæðulaust er að taka fyllilega mark á þessari tölu enda er löng hefð fyrir því að ýkja og blása upp fjölda þeirra sem taka þátt í starfi íslenskra stjórnmálaflokka. Gefum okkur samt að 40 manns séu að vinna í flokknum og hafi gert síðustu mánuði. Það er grunnur að stjórnmálahreyfingu sem hefur virði langt umfram þúsundir læka á Facebook. Ekkert Pírataspjall kemur í staðinn fyrir svona vinnu.

Á hinum endanum eru svo Píratar. Flokkur sem mánuðum saman hefur mælst stærsti flokkur landsins, er með þrjá þingmenn og ágætis grasrót en losaralega. Þar hefur allt logað í innanflokksátökum mánuðum saman. Svar flokksins er að nöldra yfir hugtökum og væla að enginn skilji flokkinn. Þingflokkurinn þurfti vinnustaðasálfræðing til að leysa úr samstarfsvanda einyrkjanna þriggja á þingi. Samt er það víst bara þvættingur ópíratalegra óvildarmanna að segja að ekki sé allt í ljómandi sómanum. Meira að segja Pírataspjallið sem á að vera óformlegur vettvangur flokksins er endalaust deiluefni. Það var ekki hægt að ráða framkvæmdastjóra fyrr en nýlega – eftir miklar deilur og enn virðist flokkurinn ekki geta lagt fram neitt haldbært plan um neitt. Ég er ekki að tala hér um að hann sé ekki með stefnu og jú, ég hef lesið grunngildin og Píratakóðann, heldur að flokksfélagar fylgi henni ekki og finnist þeir reyndar ekkert þurfa þess. Píratar eru jú ný tegund af stjórnmálum, svo ný að enginn skilur þá og þeir sjálfir þurfa ekkert að skilja stefnuna enda er flokkurinn í raun póst-módernískt fyrirbæri.

Ég veit um annan flokk sem hefur sannfært sig um þetta. Sá heitir Samfylkingin og er að hverfa. Um flokk sem endalaust skapar tortryggni um hugtök og sakar þá sem gagnrýna um svik, skilningsleysi og loftárásir er það að segja að Framsókn er bara hjartaáfalli frá því að vera leiðtogalaus. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjaldan eða aldrei staðið veikari en heldur þó um alla þræði samfélagsins. Það ætti nú að segja fólki við hvað er að etja.

Að stofna hreyfingu og breyta samfélaginu kostar orku og mikla vinnu. Það er ástæða fyrir því að Occupy Wall Street er á haugunum en brjálæðingarnir í Tepokahreyfingunni er að breyta bandarískum stjórnmálum. Vegna þess að bakvið geðveikina eru stofnanir skipulagðar, ríkar og grimmar. Þótt grimmdinni megi sleppa þá þarf hitt.

Semsagt Viðreisn hefur enn sem komið er ásýnd fagmennsku og vinnuþreks. Sá flokkur er vissulega minna á netinu en flest sem þaðan kemur fjallar um stóra samhengið ekki rifrildi um hugtök eða endalausar tilraunir til að segja fólki að það skilji ekki, kunni ekki og fatti ekki.

Hinn flokkurinn er að setja Facebook-spjallinu sínu reglur og deila um hvers flatur flati strúktúrinn þeirra er í raun.

Hvor flokkurinn ætli nái svo að færa ‘læk’ yfir í raunveruleg atkvæði í næstu kosningum?

Ég veit allavega hvorn er líklegra að ég kjósi.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283