Kynferðisofbeldi á börnum í Hollywood er að mati leikarans Elijah Wood orðið slíkt vandamál að rétt sé að tala um faraldur. Ítarlegt viðtal er að finna við Wood í nýjasta tölublaðið Sunday Times þar sem hann segir ríka og valdamikla menn hafa komið sér fyrir í Hollywood og að í krafti stöðu sinnar séu þeir allt að því ósnertanlegir. Það sé í því umhverfi sem þeir misnoti þeir börn.
Wood segir að hann hafi sjálfur notið verndar móður sinnar sem barn. Hún hafi komið í veg fyrir að hann tæki þátt í drykkju og veisluhöldum sem barn. Hann segir slíkar samkomur ýta undir misnotkun enda séu þær fullar af ‘eiturnöðrum’ sem leiti uppi börn og misnoti þau. Wood segir sorglegt að fórnarlömb misnotkunar séu beitt þöggun. Þeirra rödd heyrist einfaldlega ekki jafn hátt og ríkra og valdamikilla aðila í skemmtanaiðnaðinum. Raunveruleikinn sé sá að börn sem segi frá misnotkun séu útilokuð, þögguð og að þau verði fyrir óbætanlegu tjóni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ásakanir um stórfellt og jafnvel skipulagt barnaníð kemur upp í Hollywood. Kvikmyndaiðnaðurinn hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir að takast ekki á við ofbeldi sem tíðkast gegn börnum.
Annie Henry hjá BizParentz, samtök sem stofnuð eru til að aðstoða og vernda unga leikara í Hollywood, segir við Times að samtökin telji um 100 virka níðinga í Hollywood. Þögn iðnaðarins verndi þá og stöðvi framgöngu réttlætis.
Árið 2015 kom heimildamyndin Open Secret út. Myndin fjallar um kynferðisofbeldi gegn börnum í Hollywood og skort á vernd fyrir fórnarlömb. Myndin hefur fengið afar góða dóma og vakið talsverða athygli í fjölmiðlum en ekkert hefur gengið að tryggja myndinni dreifingaraðila.