Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lögreglustjórafélagið vill ekki innra eftirlit

$
0
0

Lögreglustjórafélag Íslands hefur ekki áhuga á því að ríkislögreglustjóri starfræki innra eftirlit með störfum lögreglunnar líkt og lagt er til í nýju frumvarpi Ólafar Nordal innanríkisráðherra. Það er að frumvarpið gerir ráð fyrir að slíkt eftirlit sé hjá ríkislögreglustjóra. Þá segir félagið að ráðherra hafi komið aftan að lögreglustjórum en í því frumvarpi sem kynnt hafi verið í febrúar hafi þetta hlutverk ríkislögreglustjóra ekki verið til staðar.

Sjá einnig: Er lögreglan staðráðin í að sanna morð á Annþór og Börk?

Formlega fellur eftirlit með störfum lögreglu í dag á hendur fjölda stofnana en raunin er sú að það er því sem næst ekki til staðar. Svo veikt, dreift og flókið er eftirlitið að í mörgum tilvikum vita þeir sem fara með eftirlit með lögreglu ekki af því. Fjallað var um eftirlitsnet lögreglu í tímaritinu Skástrik árið 2013.

„Skástrik leitaði svara um hvernig eftirliti með lögreglunni væri háttað. Athugun okkar leiddi í ljós afar flókið eftirlitsnet sem er á höndum margra stofnana. Eftirlit með lögreglunni fellur þannig undir starfsemi umboðsmanns Alþingis, Ríkisendurskoðunar, Ríkissaksóknara, Alþingis og lögregluembættanna sjálfra.“

Í september 2015 lögðu Píratar fram þingsályktunartillögu um að forsætisnefnd yrði falið að undirbúa stofnun sjálfstæðrar stofnunar á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Þingsályktunartillagan var ekki samþykkt.

Sjá einnig: 22 skammbyssur í eigu sérsveitarinnar fóru á almennan markað árið 1991

Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í ársbyrjun 2015 um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu skilaði niðurstöðu sinni í lok nóvember. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram sú tillaga að ráðherra skipi þriggja manna eftirlitsnefnd með störfum lögreglu sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, yfirfara þau og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglu, og komi erindum í viðeigandi farveg. Það er á vinnu þessarar nefndar sem frumvarp ráðherra um lögreglulög er byggt.

„Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót þriggja manna stjórnsýslunefnd sem hafi eftirlit með störfum lögreglu og að við embætti ríkislögreglustjóra verði starfrækt innra eftirlit með störfum lögreglunnar,“ sagði Ólöf við kynningu frumvarpsins á Alþingi fyrr í mánuðinum.

Lögreglan er meðal þeirra stofnana sem falið er mikið vald og mikið traust í samfélagi okkar. Að sama skapi virðist eftirlit með störfum lögreglu vera afar veikt. Því er dreift á fjölda stofnana og óljóst er hver eigi að grípa inn við hvaða tækifæri. Við þetta bætist svo að kjörnir fulltrúar sem virkastir eiga að vera þegar kemur að eftirliti virðast einfaldlega ekki sjá það sem hlutverk sitt að þvælast fyrir með eftirliti og eftirgengni. Nema þegar fella má pólitískar keilur og sparka í andstæðinginn; þá sameinast heilu þingflokkarnir og kalla eftir rannsóknarnefnd um hugðarefni sín.

Sjá einnig: Nokkur atriði um skotvopnavæðingu lögreglu

Ríkissaksóknara er falin eftirlitsskylda með lögreglu og sá meðal annars um rannsókn á andláti Sævars Rafns Jónassonar sem drepinn var af lögreglu. Ríkissaksóknari telur að stofnunin geti ekki með virkum hætti haft eftirlit með lögreglu. Þetta kemur fram í bréfi Sigríðar Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, til innanríkisráðherra í júní árið 2014.

„Ríkissaksóknari telur mjög brýnt að taka til skoðunar hvernig komið verði á virku eftirliti með störfum lögreglu og fyrirkomulagi málsmeðferðar þegar borgararnir telja að lögreglan hafi ekki fylgt réttum reglum í störfum sínum og samskiptum.“

Í bréfinu bendir Ríkissaksóknari á að embættið njóti aðstoðar lögreglu. Það sé því ekki endilega til að vekja traust borgara sem telja á sér brotið að embætti ríkissaksóknara rannsaki slík mál. Þá er einnig bent á að í lögum sé ekki kveðið á um virkt eftirlit.

Sjá einnig: Byssur, ofbeldi, ótti og óhlýðni

Umboðsmaður Alþingis getur tekið málefni lögreglunnar til athugunar berist embættinu kvörtun. Meginreglan er þó sú að umboðsmaður tekur aðeins kvartanir til meðferðar hafi önnur stjórnsýsluúrræði verið reynd. Það þýðir í raun að umboðsmaður metur aðeins hvort hefðbundnar leiðir sem borgarar geta farið til að leita réttlátrar málsmeðferðar hafi dugað til að fá sanngjarna úrlausn. Umboðsmaður Alþingis hefur hins vegar ríka heimild til upptöku frumkvæðismála. Þannig getur umboðsmaður ákveðið að eigin frumkvæði að taka mál til meðferðar án sérstakrar kvörtunar.

Í slíkum tilvikum getur umboðsmaður tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds, í þessu tilviki lögreglu, til almennrar athugunar. Sá böggull fylgir skammrifi að umboðsmanni Alþingis skortir fjárheimildir til að geta sinnt frumkvæðisskyldu sinni.

„Eins og fjárveitingum til embættisins [hefur] verið háttað síðustu ár [hefur] ekki verið kostur á að ráða sérstaklega starfsmenn til að sinna þessum verkefnum. Þá tók ég fram að með óbreyttum fjárveitingum yrði m.a. ekki kostur á að sinna frumkvæðismálum að ráði. Á árinu 2012 hóf ég því aðeins athugun á tveimur málum að eigin frumkvæði þrátt fyrir að ég telji slíkar athugunir mikilvægan þátt í starfi umboðsmanns,“ segir í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012. Þess ber að geta að sams konar fyrirvara er að finna í skýrslu ársins 2011 og svo auðvitað áranna sem á eftir fylgja.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283