Heiðar Jónsson, betur þekktur sem Heiðar snyrtir þarf vart að kynna. Hann og íslenski tískuheimurinn hafa verið óaðskiljanlegir félagar um áratuga skeið en Heiðar hefur leiðbeint konum og körlum hvað klæðaburð snertir eins og flestir vita og Heiðar er kannski fyrsti starfandi stílisti landsins. Færri vita að Heiðar er með diplóma gráðu í litafræðum frá L‘Oréal París…
Heiðar mun á næstunni veita ráðgjöf varðandi val á hárlitum á útsölustöðum L’oréal og er mikill fengur að því. Við heyrðum í Heiðari og spurðum hann út í það í hverju hárlitaráðgjöf felst.
„L‘Oréal snyrtivöruframleiðandinn er einn stærsti framleiðandi í háralitum á markaðinum í dag, bæði inn á fagmarkaðinn og þeir framleiða líka háraliti til heimanotkunar. Margar konur nota nú þegar litina frá L‘Oréal því vörurnar eru sérlega notendavænar og þeim fylgja öllum leiðbeiningar á íslensku. Þó eru margar konur sem vilja fá enn nánari upplýsingar þegar kemur að hárlitun enda hárlitun vandmeðfarin og því verð ég til staðar til að svara spurningum sem eru algengar eins og til dæmis hver munurinn er á hárskoli og föstum háralit? Hvernig á ég að lýsa á mér hárið? Hvernig tekur grátt hár við lit? Get ég sjálf litað hárið á mér svo sé hreyfing í því eða strípur?“
En hvernig á að fara með grátt hár Heiðar? Sumar konur taka hárunum fagnandi en enn aðrar mega ekki grátt hár sjá, þá vilja þær hylja það.
Mjög margir lita hárið til að hylja grátt hár, aðrir heillita hárið í annan lit eða tón en þeir hafa frá náttúrunnar hendi og aðrir vilja einungis smá hreyfingu í hárið. Einnig er alltaf að verða algengara að fólk liti hárið og rótina á milli þess sem það heimsækir fagfólk á stofu. Þegar við litum grátt hár þá skiptir máli hversu mikið grátt hár við erum að dekka. Einnig þarf að gera sér grein fyrir að í norrænu hári er mikið af náttúrulegum gulum/rauðum litatónum.
Þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á hvernig endanleg útkoma háralitunar verður og þarf að hafa í huga er háralitur er valinn. Ef hárið hefur aldrei verið litað þá er okkur ákveðinn vandi á höndum, því þá vitum við ekki hvernig hárið tekur við litnum. Einfaldir hlutir eins og sólarljós hafa áhrif því sólarljós opnar hárið, svo hárið tekur betur við lit. Sömuleiðis vitum við að hárið lýsist upp í mikilli sól.
Heiðar, er nóg ef maður ætlar að lita hárið sjálfur að velja bara lit eftir myndinni á pakkanum?
„Nei, það er ekki rétta leiðin. Hárliturinn á myndinni á pakkningunni er miðaður við að viðkomandi hafi náttúrulegt ólitað hár. Því þarf að vinna út frá þeirri staðreynd að í háralitum er litur nr. 10 hvítur og litur nr. 1 er svartur. Eigin hárlitur viðkomandi einstaklings hefur svo áhrif á útkomuna. Því það er mjög takmarkað hvað er hægt að lýsa hár með hárlit án þess að aflita fyrst, auðveldara er að dekkja hár en þó er einungis hægt að dekkja um 4-5 tóna nema að þú takir litunina í þrepum. Liturinn sem sýndur er framan á pakkningunni bætist við eigin lit viðkomandi og það er ekki hægt að lýsa litað hár nema að aflita það fyrst.”
Heiðar hefur komið víða við og því að endingu rétt að spyrja hann hvort hann sé komin í nýtt framtíðarstarf. Heiðar svarar því til að það sé gífurlega skemmtilegt að tækla enn einn þátt snyrtivöruheimsins.
“Ég lærði fyrst á háraliti hjá L‘Oréal fyrir fjölmörgum árum og starfaði við það í nokkur ár, fór í endurmenntun hjá þeim núna og því má segja að ég sé kominn hringinn.”