Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Á alltaf að svara þegar síminn hringir?

$
0
0

Nína situr á kaffihúsi og lætur hringingu í síma á næsta borði fara í taugarnar á sér. Á endanum getur hún ekki á sér setið, hún rýkur til og biður mannkertið sem situr við borðið að svara í símann sinn, en hann reynist þá vera dauður. Úps.

Síminn heldur áfram að hringja og nú ákveður Nína að svara. Og þá fer af stað atburðarás, sem sem ekki verður séð fyrir endann á – en því verður ekki neitað, að þessi útgangspunktur er óneitanlega spennandi.

Í leikskrá er greint frá því að Sími látins manns fjalli um “einsemdina innan fjöldans, firringu og hið mikla rof sem hefur myndast manna á milli í samfélagi tækninnar”. Sími látins manns er fyrsta verk Söruh Ruhl sem sýnt er hér á landi, en hún hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir verk sín, þau hafa verið þýdd á fjölda tungumála og sett upp í New York, London og víða um Evrópu. Stíll hennar er sagður lifandi og ævintýralegur og hún er sögð tefla saman “litlausum hliðum hversdagsleikans” og “goðsagnakenndum þemum stríðs og ásta”.

Nína, leikin af Maríu Dalberg, er ósköp geðþekk stúlka, sem hálfpartin dregur sig sjálfa inn í þá rás atburða sem hlýst af því að hún svarar í síma hins látna manns. Hún kynnist honum smám saman og kemst að því að hann heitir Hjörtur, á sér fjölskyldu, ástkonu og bróður og flest af þessu fólki eru hans betri helmingar hvernig sem á það er litið, því Hjörtur er – afsakið, var! – eins konar ógeðfelldur útrásarvíkingur sem fékkst við sölu á líkamspörtum á svörtum markaði.

Það er ýmislegt aðfinnsluvert við þennan söguþráð. Ef hann á að ganga upp þarf drifkraftur karaktera að vera sterkari en söguþráðurinn. Að öðrum kosti skapast engin spenna, hversu sniðug sem þau eru, atvikin sem mynda þennan þráð. Það er afskaplega einkennilegt að horfa upp á alltof veikar forsendur verða til þess að heill hópur einstaklinga verður eins og leiksoppur örlaga sinna, eins og enginn sé sinnar gæfu smiður og hafi hvorki vilja né burði til að vera það. Þetta er veikleiki sem býr undir niðri í handritinu, höfundarverkinu, og það er einfaldlega stærri veikleiki en svo að leikstjóri og leikarar fái við ráðið. Svo látið sé nægja að nefna eitt atriði: hvað er það eiginlega sem rekur Nínu til að svara í síma manns, sem augljóslega vill ekki svara í símann sinn þótt hann hringi án afláts? Pirringur? Það er bara ekki nægilegur drifkraftur, nema við vitum hvað valdi pirringnum. Og þegar hún svo uppgötvar að maðurinn er dauður, þá svarar hún aftur í símann hans!! Og það á kaffihúsi!

Kaffihúsið er í raun opið rými en til þess að hægt sé að loka atburðarásina af í sínum eigin heimi er kaffihúsið afgreitt með einni setningu: “það er eins og enginn sé að vinna í þessu kaffihúsi.” Slík lausn gæti gengið ef síðan væri unnið með hið lokaða rými – kaffihúsið er þá eitthvað annað en bara kaffihús – en hér er það ekki gert. Aðkallandi mál í nútíma, ólögleg verslun með líffæri, verður allt í einu mikilvægur hluti sögunnar og þá er búið að rjúfa vegginn milli sviðs og samfélags.

Það væri vitaskuld hægt að gera úr þessu upphafi hina snotrustu sögu, en það læðist að manni sú hugsun að þarna hafi kviknað sniðug hugmynd sem síðan var reynt að bródera við heilt leikverk sem átti að sameina gaman og gagnrýni. Það átti að henda gaman að tengslaleysi fólks – sem lýsir sér vel í setningu Nínu: “Það er eins og þegar allir eru með kveikt á símanum, sé enginn í sambandi. Eins og við séum öll að hverfa því meira sem við tengjumst”. Gagnrýnin bendir svo í tvær áttir, annars vegar að þessu tengslaleysi og hins vegar þeirri siðferðislegu hugmynd sem lýtur að ólöglegum viðskiptum með líffæri og gengur hreinlega engan veginn upp í augum þess er hér ritar. Það verður þvælin saga og þegar þess er gætt að handritið fer aldrei verulega langt frá klassískum farsa að byggingu þá tekst ekki heldur að lenda sögunni farsællega. Hún endar á því að Nína – sem hefur óneitanlega vaxið í því hlutverki sem hún stelur sér í upphafi, að vera talsmaður Hjartar – lýsir því yfir að Hjörtur er kominn á sinn stað, plánetu frú Gottlieb sem elskaði hann mest og frú Gottlieb segir frá uppgötvun sinni, að rödd Hjartar heyrist ekki lengur í símsvaranum. Aftur er komin á röð og regla og nú er bara að leita ástarinnar og halda lífinu áfram.

Ég er ekki frá því að leikstjórinn Charlotte Bøving og leikhópur hennar hafi þrátt fyrir allt valið farsælustu leiðina að því að setja þessa sögu á svið með öllum hennar kostum og göllum. Hér er fært í stílinn og búin til eins konar blanda af klassískum farsa og nútímalegum trúðleik og það verður ágætlega fyndið á köflum. Það er fagmannlega unnið og þessi lögn á verkinu er vel studd með leikmynd, búningum og lýsingu en mætti þó vera ívið hraðari fyrst þessi leið er á annað borð valin. En vissulega hefði verið gaman að sjá dýpra farið í þær spurningar sem varpað er fram og varða tilvist okkar á þessari jörð og hvernig við tengjumst hvert öðru – það er ankannalegt að leggja það allt á einn farsíma, sem þar að auki er meðhöndlaður eins og hver annar leikmunur – hefði ekki þurft að fara með þennan farsíma eins og karakter í sögunni, nánast af holdi, blóði, sál og sinni?

Similatinsmanns_Oli.Magg2_fjolmidlar

Það verður ekki svo um Síma látins manns fjallað að ekki sé nefndur þáttur Ragnhildar Gísladóttur, sem skapar tónlist sýningarinnar. Tónlist hennar magnar sýninguna svo um munar og á sinn þátt í að stílfærslan nær fram að ganga.

María Dalberg kemur þekkilega fyrir í hlutverki Nínu, en eins og fyrr segir er erfitt að átta sig á því hver hún er og hvað rekur hana áfram. Nína tekur sér ákveðið vald í upphafi verksins með því að taka síma Hjartar traustataki og heldur því valdi eins og hver annar guð til enda, þar til hún sameinast betri bróðurnum, Bolla. Hún hefur í leiðinni reynt að skapa fallegar minningar handa öllum sem þekktu Hjört og þannig sætta fólk við að hann sé horfinn. Hún vill hugga – en af hverju? Það er því miður óskiljanlegt.

Kolbeinn Arnbjörnsson leikur bæði Hjört og Bolla bróður Hjartar og ferst það í sjálfu sér vel úr hendi, hann er tæknilega öruggur leikari; en einnig hér berst leikarinn við fremur flatneskjulega persónusköpun af hálfu höfundar. Hjörtur verður því miður æ minna áhugaverður eftir því sem líður á sýninguna, en það er ekki við leikarann að sakast, heldur höfundinn, sem hreinlega virðist ekki vita hvað hann vill segja með verkinu.

Halldóra Rut Baldursdóttir er kraftmikil leikkona sem hefur prýðilega nærveru á sviði, það er alveg ljóst og það verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni. En hér berst hún við ofurefli, báðar konurnar sem hún leikur, eiginkona og ástkona Hjartar, eru ekki bara flatneskjulegar heldur einnig klisjukenndar og hvorug til þess fallin að bera söguna áfram.

Eins og Elva Ósk Ólafsdóttir er að sönnu frábær leikkona sem iðulega hefur sýnt getu til að takast á við flókin hlutverk, fær hún hér harla lítinn bita að naga. Frú Gottlieb er af hálfu höfundar einsleitur karakter sem þróast ekki fremur en aðrir karakterar verksins. Nafnið er þó ákveðin vísbending um hvernig frú Gottlieb gæti verið andstæða höfuðpersónu verksins, en búningurinn ber alla slíka vísun ofurliði og úr verður eins konar farsakarakter sem í raun stangast á við það sem þó má greina sem eins konar boðskap höfundar: að manneskjan er heillum horfin þegar hún er farin að lifa gerfilífi um símann sinn.

Sá leikhópur, sem hér stígur fjalir er vel valinn og það val hlýtur að skrifast á leikstjórann, Charlotte Bøving. Hún hefur sett saman hóp sem virkar vel og sýningin er hvað sem öðru líður hin ágætasta skemmtun. Það er sem fyrr segir stílfærslan sem heldur henni uppi og í stílfærslunni er að finna áhugaverðustu þætti hennar. En það er líka stílfærslan sem afhjúpar hversu veik sagan er í raun.

Sem áhorfandi velur maður auðvitað hvort það truflar mann eða ekki. Ef maður kýs að horfa framhjá veikleikum sýningarinnar er hægt að hafa heilmikið gaman af Síma látins manns. Hann gæti jafnvel fundið upp á því að hringja í vasa manns sjálfs …

Leikhópurinn BLINK: Sími látins manns
Handrit: Sarah Ruhl
Þýðing: Ingólfur Eiríksson og Matthías Tryggvi Haraldsson
Leikstjóri: Charlotte Bøving
Leikmynd og búningahönnun: Fanney Sizemore
Ljósahönnun: Arnar Ingólfsson
Tónlist: Ragnhildur Gísladóttir
Leikarar: María Dalberg, Kolbeinn Arnbjörnsson, Halldóra Rut Baldursdóttir, Elva Ósk Ólafsdóttir.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283