Þingmál Bjartrar framtíðar um lýðháskóla var samþykkt einróma á Alþingi nú á dögunum. Fyrsti flutningsmaður er Brynhildur Pétursdóttir en þingsályktunin snýr að því að lýðháskólar verði viðurkenndur valkostur í menntun á Íslandi. Engin lög eru um slíka starfssemi í dag en með samþykkt þingsályktunarinnar verður menntamálaráðherra gert að hefja vinnu við löggjöf um lýðháskóla. „Markmið löggjafarinnar verður að gera rekstrarumhverfi lýðháskóla sambærilegt því sem er annars staðar á Norðurlöndum,“ segir í tilkynningu Bjartrar framtíðar.
„Fjölbreytni er styrkur lýðháskólanna og þar gefst ungmennum kostur á fjölbreyttu námi með aðrar áherslur og önnur markmið en í hefðbundnum bók- eða verknámsskólum. Um yrði að ræða nánast hreina viðbót við íslenska skólaflóru” segir Brynhildur Pétursdóttir. „Nú þegar er starfandi einn lýðháskóli hér á landi sem er LungA á Seyðisfirði. Þar hefur verið unnið frábært starf og við viljum tryggja að þessi skóli sem og aðrir búi við eðlilegt starfsumhverfi eins og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.“
Myndin er af þingflokki Bjartrar framtíðar fyrir utan Lunga, eina starfandi lýðháskólann á Íslandi.
Með þeim er stofnandi skólans, Björt Sigfinnsdóttir.