Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Grunnskólakennarar fella samninga vegna vantrausts gagnvart sveitarfélögum

$
0
0

„Það sem sveitarfélögin voru að bjóða var ekki nóg til að félagsmenn okkar samþykktu,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. Félagsmenn ákváðu með afgerandi hætti að hafna kjarasamningstilboði sveitarfélaganna. Samningarnir voru felldir með sjö af tíu atkvæðum félagsmanna í rafrænni kosningu.

Ólafur bendir á að félagsmenn vantreysti sveitarfélögum nokkuð eftir síðustu samninga. „Við gerðum samning 2014 og í þeim samningi var verið að auka sveigjanleika og annað slíkt. Í framhaldinu er það upplifun félagsmanna að sumt í þeim samningi er varðaði sveigjanleika og gæslu hafi sveitarfélögin nánast misnotað. Það var gengið mjög langt í framkvæmd í ýmsum þáttum til dæmis í gæslumálum.“

Auglýsing

Olafur LoftssonÞessi upplifun leiði af sér að vantraust sé nokkuð og samningar erfiðari. „Nú þegar kemur að nýjum samningum þá er traustið bara miklu minna en það var og ýmis atriði sem lúta að vinnuumhverfinu okkar, vinnutíma og öðrum þáttum, sem félagsmönnum okkar þykja bara ekki nægilega skýrir og ekki nægilega afgerandi vegna þess að félagsmenn okkar treysta bara ekki sveitarfélögunum í kjölfar framkvæmdinni á samningnum 2014.“

– Er þá einfaldlega búið að ganga á traustið um of? „Já.“

Ólafur segir að mikið skilningsleysi á starfi kennara sé ríkjandi og tilhneiging til að horfa framhjá þeim miklu breytingum sem orðið hafa á starfi þeirra.

„Frá því 2004 hefur skólastarf algjörlega breyst hvað varðar áherslur á einstaklingsmiðað nám, skóla fyrir alla og svo framvegis. Það hafa verið gerðar stórar breytingar. Ég er ekki að segja að þessar breytingar geti ekki verið til góðs eða eftirsóknarverðar en aftur á móti hefur ekkert verið gert í umhverfi kennarans. Hann kennir jafn mikið og hefur jafn mikinn tíma til að undirbúa sig og þegar hinum verkefnunum fjölgar jafnt og þétt þá er bara alltaf verið að nýta kennara í önnur verkefni.“

Auglýsing

Aðspurður hvort einskonar blinda eða afneitun sé í gangi gagnvart því að breytingum þurfi að fylgja fjármagn og aukið mannafl jánkar Ólafur. Hann bendir á að skólabekkir séu að stækka og séu nú fjölbreyttari. Það verði að horfast í augu við að því fylgi auðvitað verkefni og þörf á auknu mannafli og meiri tíma til að veita betri þjónustu.

„Það er bara þannig núna að bekkirnir eru að verða stærri og nemendahópurinn er alltaf að verða fjölbreyttari. Það er í sjálfu sér jákvætt og æskilegt en því þarf að bregðast við. Starf kennara er bara orðið fullt af öðrum hlutum en bein kennsla. Þetta eru orðnir mikið að þáttum sem hefðu áður kannski bara flokkast sem heilbrigðismál eða félagsmál. Það getur vel verið að þessum málum sé best fyrirkomið í skólanum og ef menn komast að þeirri niðurstöðu þá verður að hugsa þau mál til enda og laga strúktúr skólanna að þeim veruleika.

Við þurfum að horfast í augu við að við erum með erlenda nemendur sem þurfa sértæka kennslu, fatlaða nemendur sem þurfa sína kennslu, svo nemendur með námsörðugleika og jafnvel bara krakka sem eru bráðgáfaðir og þurfa einnig sértæka þjónustu. Menn verða bara að horfast í augu við þetta. Það er búið að setja alla þessa nemendur í einn bekk en ekkert er gert í umhverfi kennarans.“

Hann segir afneitun og skilningsleysi trufla umræðuna. „Það er voðalega auðvelt fyrir menn út í bæ að kalla þetta bara tuð í kennurum en svona bara er veruleikinn,“ segir hann og bætir við að þetta sé kjarninn í óánægju kennara. Hann segist ekki skilja þá sýn sveitarfélaganna að óþarft sé að hlusta á kennara við lausn á þessum málum. „Það er bara ótrúlegt að sveitarfélögin eru ekki að hlusta á kennara með þessa hluti. Kennarar eru í skólunum og þekkja þetta starf.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283