Leikur Portúgal og Íslands var stórskemmtilegur og það var magnað að sjá landsliðsmennina standa hnarreista hlið við hlið undir dynjandi þjóðsöngnum þótt þeir gerðu varla tilraun til að bæra varirnar enda lagið ósönghæft með öllu – en það kom ekki að sök – stúkan söng fyrir alla þjóðina!
Twitter flutti heldur misvísandi fréttir af fjölda viðstaddra Íslendinga í Saint-Etienne en fréttirnar voru margar á þá leið að 40.000 Íslendingar hefðu lagt land undir fót til að fylgja mönnum sínum eftir. Meira að segja BBC sport flutti þetta bull sem staðreynd um meintan fótboltaáhuga Íslendinga.
Portúgalir voru að vanda með tuddaskap og meiddu Gylfa í fyrri hálfleik en eitt dómarafíflið gerði ekkert úr því enda örugglega mútuþegi hjá UEFA.
Hannes varði og varði og varði og við spáum því að Hannes verði vinsælasta drengjanafn þeirra sem fæðast það sem eftir er af 2016 og eitthvað fram á 2017.
Það var svo rétt fyrir lok fyrri hálfleiks að Nani sigraði fyrsta mark leiksins fyrir hönd Portúgala. Klippt var í nærmyndir af Ronaldo sem er með ljótan munnsvip – eitthvað gómdæmi í gangi.
Það var svo í byrjun síðari hálfleiks sem Birkir skoraði glæsilegt mark fyrir Íslendinga og það var ómótstæðilegt að sjá íslenska liðið knúsa sinn mann sem var með Björn-Borg-hárgreiðslu við þetta tilefni.
Portúgalir voru ekki glaðir með íslensku stúkuna fyrir aftan sig í seinni hálfleik. Stúkan söng og klappaði eins og Þorgerður Ingólfs hefði þjálfað hana í 50 ár – án hvíldar.
Portúgalir voru ekki hressir með mark Íslendinga og virtust utan við sig og byrjuðu að tefja og þreyta. Við hlupum allt of mikið.
Óþverrinn Pepe sparkaði í Jónda frá Selfossi en dómarafíflið gerði ekki baun.
Nani datt um koll eða um sjálfan sig að því er virtist. Allt til að grenja út aukaspyrnu.
Sýnt var í stúku Portúgala þar sem fullvaxta menn fóru með bænir, kölluðu á mæður sínar og fólu höfuð í höndum sér.
„Kolbeinn var eins og kóngur í ríki sínu í loftinu,“ sagði Gummi Ben sem lýsti leiknum af stakri snilld þótt maður hefði mjög miklar áhyggjur af því að hann fengi hnúta á raddböndin.
Þegar fimmtán mínútur voru eftir að leiknum var spennan nánast áþreifanleg – dvergríkið Ísland að gera Portúgölum mjög erfitt fyrir. 1– 1 og Hannes varði glatað spark frá Gomez.
„Andskotinn,“ gall við í heimilismanninum! Hvað? spurði ég? „Ég var að vona að hann hefði rófubeinsbrotnað,“ – um ónefndan leikmann Portúgala.
Kolbeinn Sigþórsson fór af velli og Alfreð Finnbogason tók hans stöðu. Hannes varði snilldarlega spark frá lúsernum Ronaldo sem var með væl og aumingjaskap allan leikinn. Frekari leikmannaskipti hjá Íslendingum voru á síðustu þremur mínútunum. Aðstoðardómarinn tók ákvörðun um aukaspyrnu og það varð markspyrna!
Strákarnir léku lokamínúturnar eins og englar – þar til dæmd var á þá aukaspyrna og Ronaldo fékk annað tækifæri til að skora og það fór í vegginn og dómarinn dæmdi hendi og Portúgalir fengu enn eina aukaspyrnu… og aftur í vegginn!
En við gerðum jafntefli og það þrátt fyrir að UEFA sökkar og hafa örugglega borgað dómurunum vænar summur fyrir þessa vítaverðu leiðinda framkomu við Íslendinga í þessum leik. Myndavélarnar sýndi vælukjóann Ronaldo með skeifu þegar úrslitin voru ljós.
Og við erum í 2. Sæti í F-riðli!
„Það verður ekkert sofið í Saint-Etienne eða næsta nágrenni í kvöld og næstu kvöld,“ sagði Gummi Ben þegar hann kvaddi áhorfendur nánast raddlaus af kæti.