Í apríl kynntist ég hópi af konum gegnum námskeið sem ég tók þátt í og úr urðu nokkur ný vinasambönd. Í framhaldi námskeiðsins mæltist mér til við eina af þessum konum að gaman gæti verið að hittast á kaffihúsi einhvern daginn. Mér datt strax í hug af gömlum vana að velja einhvern stað á Laugaveginum. Margir indælir staðir þar í boði og hægt að finna eitthvað sem báðum líkaði.
Það var þá sem ég áttaði mig á því sem ég hafði verið blind fyrir alla mína æfi. Að konur eru ekki velkomnar á Laugaveginn.
Mörgum finnst þetta líklega furðuleg fullyrðing. Ég átti nefnilega eftir að segja ykkur að það eru bara sumar konur sem titillinn og fullyrðingin eiga við. Og reyndar fullt af körlum líka, og börnum. Þótt einhver möguleiki sé á því að ég hafi misst af einum eða tveim stöðum þar sem ég og nýja vinkona mín hefðum getað hist þá gátum við í sameiningu ekki munað eftir neinum stað þar sem hún í hjólastólnum sínum ætti vandræðalausan aðgang að. Og ég átti erfitt með að muna eftir stað sem væri nógu stutt frá bílastæði fyrir fatlaða til að ég treysti mér að ganga þangað með lokanirnar á Laugarveginum að sumri til. Hvað þá að við gætum fundið stað sem við saman værum velkomnar á.
Ég sá þetta ekki fyrr en ég nýlega veiktist og rak mig á þetta sjálf. Ég held ég sé ekki ein um það. Og ég vona að ég sé ekki ein um að finnast það nokkuð skítt að stór hluti kvenna, manna og barna séu bara velkomin á sérstaka staði. Svona eins og svarta fólkið sem átti að sætta sig við að vera aftast í strætó.
Árið 2016 í hámenntuðu nútímasamfélagi þar sem almennt mætti búast við að aðskilnaður væri ekki ríkjandi samfélagsgildi.
Kannski er fólki almennt sama um svona tittlingaskít og frekju frá fólki sem ætti kannski bara að vera þakklátt fyrir að eitthvað aðgengi sé almennt til. Kannski. Ég vona ekki. Ef ekki þá er kannski ágætt að nefna það að þetta er bara snjókorn efst á ísjaka sem felur mannréttindabrot, misnotkun og ofbeldi sem flestir sjá ekki.
Í þeim sönduga haug er hrúga af fólki sem á hverjum degi alla sína æfi situr undir mannskemmandi niðurlægingu og hlutgervingu sem við flest höfum ekki hugmynd um eða höfum leitt framhjá okkur hingað til eins og nekt keisarans í frægri barnasögu.
Ef sú hugmynd að konur eru ekki velkomnar á Laugaveginum veldur ykkur óhug þá vona ég að það valdi ykkur sama óhug að stór hópur Íslendinga hefur þar og annars staðar ekki aðgang. Og að það er bara lítil birtingarmynd þess sem þessi grein fjallar í raun um.
Mannréttindabrot á heilum hópi Íslendinga.