Guðni Th. Jóhannesson sagði við stuðningsfólk sitt rétt í þessu að sigurinn væri væntanlega í höfn. „Ég held að sigurinn sé í höfn,“ sagði hann við fagnaðarlæti stuðningsfólks.
Guðni fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968. Hann á því afmæli í dag og tóku stuðningsmenn hans sig til og sungu afmælissönginn á meðan hann ræddi við fólkið.
Hann er sonur hjónanna Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og landsliðsþjálfara, sem lést árið 1983. Guðni ólst upp í Garðabæ og á tvo bræður, Patrek, íþróttafræðing og handboltaþjálfara, og Jóhannes kerfisfræðing.
Guðni er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Guðni hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um sögu þorskastríðanna og forsetaembættið. Þá hefur Guðni skrifað fjölda bóka og fræðigreina um sögu Íslands og samtíð. Má þar nefna ævisögu Gunnars Thoroddsen og bókina Óvinir ríkisins en þær voru báðar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá skrifaði Guðni bókina Völundarhús valdsins um embættistíð Kristjáns Eldjárns og metsöluritið Hrunið.