Menningarmálaráðherra Rúmeníu vill fá menningu í stað alnæmisvarna. Formaður fjárlaganefndar Íslands vill fá heilbrigðisþjónustu í stað þróunaraðstoðar og barnabóta. Þeir sem vilja auka framlög hins opinbera til menningar eru ýmist sagðir dragbítar á heilbrigðisþjónustu eða gefið í skyn að þeir beri ábyrgð á lágum launum lögreglukvenna. Eins og það sé eitthvert lögmál að sanngirni gagnvart einum hóp útiloki sanngirni gagnvart þeim næsta.
„Deildu og drottnaðu“ var lykilaðferð í hernaðarstefnu Rómverja. Aðferðin er stjórntækni sem felst í því að kljúfa andstæðingana í fylkingar, sundra samstöðu þeirra og samvinnu og etja þeim saman. Það er það sem stjórnvöld eru að reyna að gera núna. Að deila og drottna. Þau reyna að sannfæra okkur um að engin leið sé að sækja peninga í vasa hinna ofurríku. Að ábyrgðin á ástandi heilbrigðismála liggi ekki hjá þeim sem ákváðu að falla frá sérstöku veiðigjaldi, heldur hjá fjölskyldum sem þiggja barnabætur og vaxtabætur. Að eina leiðin til þess að tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu á Íslandi sé sú að neita fátækasta fólki í heimi um aðstoð til að rjúfa vítahring fátæktar. Að fátæklingar séu óvinir sjúklinga.
Þróunaraðstoð felst ekki í því að moka graut í hungruð börn og segja svo „ókeibæ“ um leið og þurrkatímabili eða öðru neyðarástandi léttir. Þróunaraðstoð er notuð til þess að taka á rótum fátæktar. Hún er notuð til þess að hefta útbreiðslu sjúkdóma, uppræta fáfræði og styrkja arðbæra atvinnu. Það er útilokað að koma í veg fyrir hungur á meðan stór hluti jarðarbúa er ólæs, þjáður af illvígum sjúkdómum og hefur ekki aðgang að öðrum atvinnutækjum en ofurlitlum landskika og frumstæðustu verkfærum, jafnvel ekki einu sinni hreinu vatni. Fátækt fólk og sjúklingar eru ekki óvinir heldur samherjar. Oft eru fátæklingar og sjúklingar einmitt sama fólkið.
Formaður fjárlaganefndar óskapast yfir því að fyrri ríkisstjórn hafi ætlað að láta milljarð til viðbótar renna til þróunarmála. Hún minnist ekkert á að núverandi ríkisstjórn eftirlét útgerðinni 10 milljarða sem hefðu getað runnið til þróunaraðstoðar, uppbyggingar heilbrigðiskerfisins, aðstoðar við fátæka Íslendinga og margra annarra verðugra verkefna.
Við vitum þetta. Við sjáum í gegnum aumkunarverða tilraun silfurskeiðabandalagsins til að deila og drottna. Við vitum að listamenn, sjúklingar og fátæklingar taka ekki krónu hver frá öðrum. Kvótagreifar, stjórnendur á ofurlaunum og uppgjafa stjórnendur á biðlaunum taka hins vegar heilmikið frá öllum þessum hópum. Fjársvelti heilbrigðiskerfisins er ekki þeim að kenna sem vilja uppræta fátækt og sjúkdóma í þriðja heiminum. Ekki heldur fátækum Íslendingum. Ekki einu sinni listamönnum. Fjársvelti heilbrigðiskerfisins er á ábyrgð stjórnvalda sem setja hagsmuni ríkra ofar hagsmunum fátækra. Flóknara er það ekki.