Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Eru reglur bara fyrir hálfvita?

$
0
0

Íslendingar hafa ekki beint verið þekktir fyrir vilja til að fara eftir reglum og ég hef oft haft á tilfinningunni að þótt ýmsum finnist ágætt að hafa reglur gildi þær samt síður um sig og frekar um aðra sem eru minna klárir en þeir. Samstarfsmaður minn komst eitt sinn svo skemmtilega að orði: „að reglur væru fyrir hálfvita en ekki gáfað fólk eins og hann“.

Einstaklingar og stjórnmálaflokkar sem a.m.k. í orði kveðnu aðhyllast frjálslyndar kenningar hafa mikið notað orð Adam Smith um ósýnilegu höndina og sumir gengið svo langt að láta þá hönd blessa allt sem á þeirra vegi verður oft án þessa að þekkja annað úr fræðum Smith en söguna um þessa frægu hönd. Það er vert að benda á að Adam Smith talar aðeins einu sinni um ósýnilega hönd í bókinni „Auðlegð þjóðanna“ en lykilatriðið í kenningum hans var engu að síður frelsi markaða en ekki sú einokun sem Smith þekkti í sínu heimalandi og víðar sem stýrt var af yfirvaldinu. Þá var einnig lykilatriði í hans kenningum að hagkvæmni í framleiðslu væri leið til að hámarka hagnað, lág verð væri farsæl aðferð til að keppa við samkeppnisaðila og að fjárfestar fjárfesti í iðnaði sem er arðbær og taki fjármagn þaðan sem það er ekki að skila arði. Með öðrum orðum að fyrirtæki sem ekki eru hagkvæm víki fyrir þeim sem eru hagkvæm og að hagkvæmni sé meiri með aukinni sérhæfingu.

Adam Smith sagði líka að neysla væri lokatakmark og tilgangur allrar framleiðslu. Því ætti aðeins að huga að hagsmunum framleiðanda ef það væri nauðsynlegt til að bæta hagsmuni neytandans. Kerfið sem  Adam Smith skrifaði gegn kallaðist kaupskaparstefna (mercantile system) og sagði hann að þar væri hagsmunum neytandans stöðugt fórnað fyrir hagsmuni framleiðenda og að það kerfi virtist upphefja framleiðslu, ekki neyslu, sem lokatakmark og miðpunkt iðnaðar og verslunar. (Adam Smith – Auðlegð þjóðanna)

Það er líka vert að benda á að Adam Smith skrifaði aðra bók sem heitir „The Theory of Moral Sentiments“, þar sem hann talar um að maðurinn sé félagsvera og hafi eðlislæga samkennd með öðrum, þrátt fyrir að vera í grunnin sjálfmiðaður sem væri eðlilegt. Þegar við þroskumst lærum við svo hvað má og má ekki gera við annað fólk og jafnvel þótt við séum sjálfmiðuð þurfum við að læra að búa með öðrum án þess að gera þeim mein. Það væri nauðsynlegt til að þjóðfélagið geti lifað. Hann segir að refsing og verðlaun séu mikilvægir þjóðfélagsþættir, við samþykkjum og verðlaunum það sem gagnast þjóðfélaginu og við refsum fyrir það sem gerir þjóðfélaginu ógagn. Þannig hefur náttúran gefið okkur lyst og ólyst á hlutum sem tryggja áframhaldandi tilveru okkar tegundar og þjóðfélagsins.  Til að þjóðfélagið geti lifað af verða að vera reglur sem koma í veg fyrir að einstaklingar skaði hvern annan. (Adam Smith – The Theroy of Moral Sentiments)

Reglur geta verið settar á til að bregðast við ákveðnum þáttum en þær geta einnig verið sjálfsprottnar og mótast af hegðun mannsins og þróunar samfélagsins án lagasetningar eða eftirfylgni yfirvalda. Markmiðið er að beina hegðun í ákveðna átt og auðvelda þannig skipulag þjóðfélagsins allt frá umferðaskipulagi til verkaskiptingar. Frjáls markaður verður ekki til sjálfkrafa, það þarf ekki annað en að glugga í sögubækur til að átta sig á því, hann verður til vegna þeirra laga og reglna sem móta hann.

Stór hluti reglna sem settar eru í dag snúast um að almannahags sé gætt, að neytandinn sé hafður í fyrirrúmi. Það þarf engin stór orð um það hvað sumt fólk er tilbúið að gera fyrir skyndigróða. En við sem neytendur getum ekki vitað hvort vara eða framleiðsla er í lagi og verðum að treysta á að reglur og eftirlit með þeim sé við lýði í viðkomandi löndum.

Margir halda því fram að með reglum sé verið að íþyngja framleiðendum og hefta hagvöxt, það geti enginn unnið undir hinum og þessum reglugerðum. Frelsi framleiðanda felst hins vegar ekkert síður í að geta framleitt og hagnast til langframa með framleiðslu eða sölu á góðri vöru, því slíkt markmið framleiðandans er líklegra til að tryggja neyslu til langframa.  Sá sem vill framleiða góða vöru og græða á því í samkeppni við þá sem brjóta á hagsmunum almennings fyrir snöggan gróða á það á hættu að verða undir og því búa reglur til sanngjarnan grundvöll og eðlilega samkeppnisstöðu fyrir alla.  Ef kostnaður allra er sá sami(ytri aðstæður)við að viðhalda ákveðnum gæðum þá tapa menn ekki á að framleiða vöru með réttum hætti.

Eitt besta dæmið um þetta er hið reglugerðaþunga flugrekstrarumhverfi.  Það er erfitt að finna umhverfi sem eru settar meiri skorður en flugheiminum en samt eigum við flugfélög sem þrífast og dafna þrátt fyrir það. Í dag vita þeir sem fljúga með Icelandair, Atlanta eða Wow að þau uppfylla alþjóðlegar og evrópskar reglur sem er gæðastimpill og gefur þeim aðgang að alþjóðlegum mörkuðum.  Það að hafa séríslenskar reglur myndi ekki skapa sama traust, því sagan hefur sýnt okkur að þær reglur eru oftar en ekki  settar með sérhagsmuni í huga ekki síst með hagsmuni framleiðanda að leiðarljósi, ekki hagsmuni neytandans. Það væri hins vegar nær ómögulegt að reka flugfélag eftir þessum reglum í dag í samkeppni við flugfélög sem ekki þurfa að fara eftir reglum. Flugfélögum sem myndu þá kannski draga úr eftirliti og viðhaldi, fækka ýmsu sem þeim þykir óþarfi enda nær aldrei notað eins og björgunarvesti og –bátum og geta undirboðið þau félög sem vildu starfa á neytendavænni hátt.

Til að eiga vörur á markaði í Evrópu þarf að uppfylla þær kröfur sem þar eru gerðar. Hvort sem við erum þátttakendur á innri markaði eða tolllögð þar sem við höfum ákveðið að standa fyrir utan. Til dæmis fær ekkert flugfélag að fljúga til Evrópu án þess að uppfylla evrópskar reglur hvort sem þau koma frá Evrópu eða annars staðar úr heiminum.  Það skiptir í raun engu máli um hvaða útflutning ræðir, reglur hvers markaðar þurfum við að uppfylla ef við viljum taka þátt.

Frjálslyndið felst ekki í að allt sé óheft, eftirlitslaust og reglulaust. Það felst í opnari mörkuðum og tollfrelsi því það er ein þekktasta staðreynd í hagfræðinni, sem ég held að fáir mótmæli sem hafa á annað borð lesið sér eitthvað til um alþjóðaviðskipti, að það eru einhverjir veigamestu þættirnir í auknum viðskiptum og hagvexti ríkja.  Að setja  reglur til að tryggja þetta er í raun ekki andstaða frelsisins heldur er það grunnur að frelsi markaðanna í þágu bæði neytenda og framleiðenda til langtíma. Hins vegar má ekki rugla því þegar reglur eru settar í slíkum tilgangi saman við einstaklingsfrelsið sem er af öðrum toga. Frjálsyndar hugmyndir líkt og einn frægur frjálslyndur heimspekingur, John Suart Mill, fjallaði um fela í sér að einstaklingurinn megi gera það sem hann vill, jafnvel skaða sjálfan sig, svo fremi sem hann skaðar ekki aðra eða hagsmuni þeirra.  Hluti af frjálslyndara samfélagi gagnvart einstaklingsfrelsi er að þola fólki það að við erum ólík, höfum mismunandi langanir og hugmyndir og ef við sköðum ekki hvert annað er það okkar mál hvað við gerum. Mill sagði einnig að sá sem skaðar aðra eða hagsmuni þeirra skuli vera dreginn til ábyrgðar hvort sem er gagnvart dómstólum eða félagslega ef sú hegðun er talin skaðleg fyrir þjóðfélagið sjálft.

Auðvitað þurfa reglur að taka mið að aðstæðum, þær þarf að ræða og samþykkja.  Stofnanir samfélagsins þurfa að koma að þeim og viðeigandi er að vitna í orð Milton Friedman sem sagði:  „Frelsi markaða útilokar ekki þörfina á stjórnvöldum, þvert á móti, þá eru stjórnvöld nauðsynleg bæði sem staður til að ákveða leikreglurnar og sem dómari eða eftirlitsmaður til að framfylgja þeim reglum“.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283