Tína hjá prjónasmiðju Tínu hefur vakið athygli fyrir handavinnupistla sína bæði á bloggi sínu og hér í Kvennablaðinu. Tína er einstakur leiðbeinandi og loksins eru nú aðgengilegar fyrir hennar tilstuðlan aðgengilegar og vel útskýrðar leiðbeiningar. Tína stendur ennfremur fyrir námskeiðum og okkur langaði til að fræðast eilítið meira um þau enda vorið og sumarið framundan og kannski meiri tími til að huga að hugðarefnum og tómstundum.
Sæl Tína, hvaða námskeið eru nú vinsælust þessa dagana?
Tvöfalda prjónið er enn vinsælast en önnur námskeið eru þó smátt og smátt að taka við. Eistneska myndprjónið er að koma mjög sterkt inn og sömuleiðis námskeiðið þar sem ég kenni fólki að klippa í sundur prjónles án þess að nota til þess saumavél fyrst.
Geta saumaklúbbar eða hópar óskað eftir að fá þig til að halda námskeið?
Það getur hver sem er fengið mig til sín með námskeið. Ég hef haldið námskeið fyrir starfsmannafélög, vinkvennahópa, kvenfélög, eldri borgara og svona mætti lengi telja. Það besta er þó að verðið er alltaf það sama. Það eina sem breytist er ósk mín um lágmarksfjölda þátttakenda og fer hann eftir því hvort ég þarf að ferðast um langan veg eða ekki. Ef ég er beðin um að koma út á land þá reyni ég, ef hægt er, að sníkja mér gistingu einhversstaðar á viðkomandi stað. Þannig að ég reyni að halda kostnaði í algjöru lágmarki.
Hvað er það helst finnst þér sem vefst fyrir byrjendum í prjónaskap?
Ætli það sé ekki skortur á sjálfstrausti þegar kemur að prjóni. Málið er að mikið af þessu lítur út fyrir að vera alveg hrikalega flókið en er það samt ekki. Það dugir þó til að hræða marga við að prófa nýja hluti.
En þú kennir ekki bara prjón, þú ert líka að kenna hekl ekki satt? Er auðveldara að hekla en prjóna?
Jú, það er rétt hjá þér að ég hef verið með námskeið í hekli fyrir byrjendur. Heklið er hvorki auðveldara né flóknara en ég hef fengið konur til mín sem einhvern veginn hafa ekki fundið sig í prjóni en heillast svo gjörsamlega af heklinu.
Er hægt að nálgast einhversstaðar upplýsingar um námskeiðin þín?
Allar upplýsingar um námskeiðin sem og verð, er að finna á heimasíðunni minni. En segjum sem svo að þú hefðir áhuga á að læra eitthvað sérstakt í prjóni eða hekli, en finnur það ekki á heimasíðunni þá getur þú alltaf haft samband við mig og við finnum þá út úr því í sameiningu. Mörg námskeiðanna á listanum er einmitt tilkomin vegna séróska
Hvernig er svo best að hafa samband við þig?
Það er hægt að ná sambandi við mig í gegnum heimasíðuna eða með því að senda mér póst á prjonasmidjan@hananu.is
Tína er sjálfmenntuð í prjóni og hvernig það kom til að hún leiddist út í prjónaskap er skemmtileg saga og fyrr í vetur tók ég viðtal við Tínu um prjónaskapinn og margt margt fleira. Hér er hægt að hlusta á það.