Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Mamma, þá kaupi ég bara landa!

$
0
0

Heiða Hrönn Harðardóttir nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði skrifar.

Heiða

Flestir sem neyta áfengis kannast við að hafa einhvern tímann orðið ofurölvi. Ég geri það að minnsta kosti og flestir sem ég þekki til. Margir læra af reynslunni en hún getur verið dýrkeypt og ekki síst hjá unglingum. Einhver hluti leiðist út í neyslu harðari vímugjafa og/eða þurfa að glíma við fíkn allt sitt líf. Þrátt fyrir misgóða reynslu af áfengisneyslu breyttist viðhorf mitt til unglingadrykkju ekki mikið fyrr en ég byrjaði að læra Tómstunda- og félagsmálafræði. Í einum af fyrstu tímunum mínum spurði kennari bekkinn hverjum þætti í lagi að foreldrar keyptu áfengi fyrir unglingana sína, margir réttu upp hönd og ég var ein þeirra. Rökin sem ég gaf voru þau sömu og svo margir bera fyrir sig, að það væri betra að foreldrar vissu hvað börnin þeirra væru að drekka.

Ég var rétt tæplega 16 ára þegar ég tilkynnti móður minni að mig langaði að byrja drekka og bað hana að kaupa áfengi fyrir mig. Mamma var alls ekki á því en þegar ég sagðist þá bara kaupa landa kom pabbi hlaupandi og sagðist að sjálfsögðu versla fyrir mig ef ég sleppti landanum. Það var svo bara á fylleríi númer tvö sem ég keypti landa því ég átti ekki áfengi en vildi „detta í það“.

Í rannsókn sem Kjartan Ólafsson lektor við Háskólann á Akureyri gerði á drykkjumynstri unglinga og hvaðan þau fengju áfengið, kom í ljós að unglingar sem fá áfengið frá foreldrum sínum eru líklegri til þess að ná sér einnig í áfengi með öðrum leiðum en þeir unglingar sem ekki fá áfengi frá foreldrum sínum. Fram kom að unglingar sem fá áfengið frá foreldrum eru líklegri en aðrir til að lenda í vandræðum undir áhrifum og einnig til að drekka meira. Þau eru líklegri til að slasa sig, lenda í slagsmálum, verða fyrir þjófnaði o.s.frv. Kjartan telur að foreldrar sem kaupa áfengi fyrir unglingana sína séu með því að samþykkja drykkju þeirra sem leiði til þess að unglingarnir drekka meira. Foreldrar eru því ekki að koma í veg fyrir að börnin þeirra neyti landa eða útvegi sér annað áfengi.

Í viðhorfskönnun sem lýðheilsustöð gerði árið 2004 voru 734 foreldrar spurðir á hvaða aldri þeim finnist í lagi að unglingar byrji að drekka áfengi. Rúmlega helming foreldranna þótti í lagi að unglingar byrji að drekka áfengi 18 ára og 26% foreldra þótti í lagi að unglingar byrji að neyta áfengis 17 ára eða yngri. Það var athyglisvert að aðeins 4,6% foreldranna sögðu það aldrei vera í lagi að neyta áfengis. Um 31% foreldra voru þeirrar skoðunar að fullorðnir ættu að kaupa áfengi fyrir unglinga til að vita betur um áfengisneyslu þeirra. En eins og áður hefur komið fram hafa áfengiskaup foreldranna ekki þau áhrif að þeir hafi betri yfirsýn yfir drykkju unglinga sinna.

Það er athyglisvert hversu eðlilegt það þykir í okkar samfélagi að unglingar neyti áfengis. Líkaminn og heilinn eru að þroskast og mótast fram yfir 20 ára aldur og getur neysla áfengis skaðað ákveðnar stöðvar heilans varanlega og einnig haft slæm áhrif á önnur líffæri. Það er því ekki að ástæðulausu sem áfengislög miða aldur til áfengiskaupa við tvítugt. En samkvæmt 18. gr. áfengislaga er bannað að selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Einnig kemur fram í 28. gr. að gera skuli upptækt áfengi sem ungmenni undir 20 ára hafa undir höndum. Það er því lögbrot að kaupa áfengi fyrir unglinga og horfa upp á þau drekka en líta framhjá því. Hvaða skilaboð er þá verið að senda börnum þegar þessi lög eru brotin? Að sum lög sé í lagi að brjóta en önnur ekki?

Rannsóknir hafa sýnt að íþróttir eru ein besta forvörnin en oft byrja unglingar að neyta áfengis og vímuefna innan íþróttahópsins. Nýjustu rannsóknir benda til þess að besta forvörnin sé gott samband milli foreldra og barna. Það besta sem foreldrar geta gert til að halda börnum sínum frá áfengi er að verja sem mestum tíma með þeim og eiga traust og gott samband við þau. Foreldrar sem styðja vel við bak barna sinna, eru áhugasamir og hvetja börnin í námi hafa öflug áhrif á barnið og minnka líkur á vímuefnaneyslu.

Heimildir

http://www.foreldrasamtok.is/2010/11/afengiskaup-foreldra-vi%C3%B0bot-vi%C3%B0-a%C3%B0ra-drykkju/

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10660/Hvad_veistu_um_afengi_Veftexti.pdf

http://www2.lydheilsustod.is/media/afengi/rannsoknir/saman_vidhorf_for_04.pdf.

http://www.althingi.is/lagas/143a/1998075.html

 

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283