Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Að ganga frá endum

$
0
0

Í hvert sinn sem við prjónum eða heklum eitthvað þá stöndum við frammi fyrir því að þurfa að ganga frá endum. Sama hversu lítið verkefnið er þá skilur það alltaf lágmark eftir 2 enda til að ganga frá. Sá fyrri er við uppfitjunina en hinn er við affellingu.

Sjálf hef ég prufað margar aðferðir með misgóðum árangri. Hér í þessum pistli ætla ég að sýna þér þá aðferð sem mér finnst hvað fallegust og hefur einnig reynst best.

Ég hef oft sýnt þessa aðferð á námskeiðunum mínum og alltaf við mikla hrifningu viðstaddra.  Þú getur gengið frá hvort heldur á réttunni eða röngunni. Ég geng alltaf frá á réttunni og það sést ekki að neinu leyti. Hvorki á réttunni né röngunni.

Hér ætla ég að sýna þér báðar aðferðirnar og notast við annan lit til aðgreiningar. Að venju reyni ég að sýna þetta eins vel og ítarlega og hægt er bæði í máli og myndum.

En fyrst ætla ég að segja þér hvað ég geri ef ég þarf að byrja á nýrri dokku í miðri umferð. Ég prjóna þá alltaf næstu lykkju með bæði gamla endanum sem og nýja og skil eftir væna enda til að ganga frá seinna. Í næstu umferð þarf að gæta þess að prjóna þessa tvöföldu lykkju sem væri hún venjuleg.

Þú skalt aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, hnýta endana saman. Hnútar hafa nefnilega þann leiða ávana að poppa í gegn á réttunni þegar þú átt hvað síst von á því. Ekki láta freistast til þess að halda áfram að prjóna ef þú rekst á hnút í garninu þínu. Segðu frekar nokkur vel valin orð ef þú vilt, klipptu hnútinn burt og haltu áfram eins og værir þú að byrja á nýrri dokku. Treystu mér, þú munt ekki sjá eftir því.

En að fráganginum. Til að byrja með skaltu ganga úr skugga um að þú sért með góða nál með rúnuðum oddi. Ef oddurinn er of hvass, er hætta á að þú kljúfir garnið og það viljum við ekki. Vertu með góð skæri við hendina og góða birtu svo þú sjáir vel hvað þú ert að gera. Núna ætlum við að ganga frá á réttunni. Horfðu vel á stykkið. Finndu eina umferð og fylgdu garnið eftir þvert yfir eina umferð. Sjáðu hvernig garnið hlykkjast upp og niður. Þessa leið munt þú fara með garnendann.

Mynd 1

Byrjaðu á því að stinga nálinni upp í neðri hluta sléttu lykkjunnar. Slétt lykkja lítur út eins og V.

Mynd 2

Þræddu nú nálina undir leggina tvo sem mynda sléttu lykkjuna, eins og myndin hér fyrir ofan sýnir. Gættu þess að ná prjónfestunni eins vel og hægt er.

Mynd 3

Farðu með nálina aftur neðst í lykkjuna og þræddu hana undir vinstri legginn á lykkjunni fyrir neðan og hægri legg lykkjunnar vinstra megin við hana.

Mynd 4

Nú ertu búin að mynda eina lykkju og er tilbúin í næstu.

Mynd 5

Endurtaktu frá upphafi þar til þér finnst vera komið nóg. Ég geri yfirleitt um 5-6 lykkjur.

En nú á röngunni

Mynd 6

Ef þú horfir vandlega á brugðnu lykkjuna þá lítur hún fyrir að að vera samsett af brosi og skeifu. Stingdu nálinni upp undir skeifunni eins og sýnt er á mynd hér fyrir ofan.

Mynd 7

Farðu því næst með nálina undir skeifunni vinstra megin við og samtímis undir brosið á ská til hægri.

Mynd 8

Næst ferðu undir brosið vinstra megin og samtímis undir skeifuna á ská til hægri.

Endurtaktu eins oft og þú telur þörf á.

Næstu tvær myndir sýna þér hvernig þetta lítur út þegar þú ert búin/n. Athugaðu að þegar þetta er gert með sama lit og garn og prjónað var úr þá sést þetta ekki neitt. Einnig gengur þetta best fyrir meðalgróft garn og fínna. Ef garnið er of gróft þá eru líkur til þess að frágangurinn sjáist þar sem þykkara lag er komið ofan á.

Mynd 9

Mynd 10

Ég hvet þig síðan eindregið til að taka fram næstu garndokku sem þú sérð og fitjaðu upp um 20 lykkjur. Prjónaðu smá prufu og felldu svo af. Að lokum skaltu prufa að ganga frá öðrum endanum á réttunni en hinum á röngunni. Sjáðu hvort þér líkar betur. Svo þarf alls ekki að vera að þér líki þessi aðferð. En þú getur alltaf notað þessa aðferð til að brodera myndir eða annað á sléttum fleti.

Læt hér staðar numið í bili en vona hjartanlega að þú hafir lært hér eitthvað nýtt. Ef þú vilt læra meira geturðu alltaf pantað námskeið hjá mér, en hér má lesa meira um námskeiðin mín. Mundu svo að skilja eftir fótspor svo ég viti að þú hafir litið við. Það eitt hvetur mig svo til dáða.

Frágangskveðjur á línuna,

Tína


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283