Eldhúsið mitt er oftast eins og eftir loftárás í lok dagsins og ég skammast mín aldrei fyrir það. Á gólfinu er samansafn af haframjöli, kókósmjöli, fræjum, hveiti og öðru sem segir til um matseðil dagsins, og á eldhúsbekknum ríkir stríðsástand. Er ekki eitthvað undarlegt við það að koma inn í tandurhreint eldhús – verður maður ekki að sjá einhver ummerki um að þarna hafi verið unninn hver stórsigurinn á fætur öðrum?
Í þetta sinn skrifast ástandið á múslíframleiðsluna (já og svo var ég auðvitað með tvo fimm ára aðstoðarkokka í dag) á Laufásborginni. Framleiðslunni fylgir mikil óreiða og mikill ilmur sem sest í bókstaflega allt. Vikulegi skammturinn tilbúinn fyrir 140 munna. Mér er sagt að múslíið á Laufásborg sé ávanabindandi og hættulega gott. En hvað veit ég? Það eina sem ég geri er að búa það til.
Mér fannst vanta eitthvað til að hífa upp bragðið af hafragrautnum og ab-mjólkinni, lagði höfuðið í bleyti og úr varð múslí eða granóla eins og það er kallað þegar hafrar eru ristaðir. Hjá okkur nefnist þetta Teddumýsl. Núna er það orðið ómissandi hluti af matarmenningu Laufásborgar. Foreldrarnir höfðu mikinn áhuga á að læra að búa til múslí sjálf.
Það varð því auðvitað úr að ég hélt námskeið á sínum tíma í leikskólamatreiðslu fyrir hungraða leikskólaforeldra sem vildu vita leyndarmálið á bakvið hið vel þekkta vandamál „barnið-mitt-borðar-allt-í-leikskólanum-en-ekki-heima“. (Kannast einhver við það? :)) Ég held reyndar að svarið við því liggi meðal annars í því að börn hafa gaman af því að borða með öðrum börnum, þau smakka saman og eiga í samskiptum um matinn hvort við annað þótt við, þessi fullorðnu, tökum ekki endilega eftir því. Ég veit svo vel að þau ræða um uppáhaldsréttina sína og hvað þau elska mest og hvað þau elska ekki.
Ég hef fengið óskalista frá barnahópum og óskirnar frá þeim eru einfaldlega það sem við vitum að börn elska. Einfalt og klassískt. Börn mynda sína eigin matarmenningu við borðið með sínum kennara sem að sjálfsögðu er góð fyrirmynd og smakkar á öllu og borðar allt og gerir matartímann að jákvæðri upplifun fyrir barnið. Umræðan við matarborðið snýst um bragð og útlit og út frá því myndast jákvætt viðhorf til matarins innan hópsins. Svo skemmir það nú ekki fyrir að tala fallega um kokkinn! Það hefur þessi frábæru áhrif á börnin og matarlystina. Enda hlýtur bara að vera eitthvað töfrabragð sem við laumum í matinn þegar enginn sér.
En aftur að múslíinu. Einn laugardag hittumst við foreldrarnir og elduðum saman súpu, bökuðum brauð, hrærðum saman hummus og gerðum auðvitað múslí líka. Foreldrarnir fóru heim, saddir og sælir með stóran poka af múslí í hendinni ásamt öllum leyndarmálum múslígerðarinnar. Eitt af leyndarmálunum er að líta á uppskriftina sem grunn og svo þróast þitt eigið músli með tímanum út frá henni.
Það sem þú þarft er:
2 dl olía
1 tsk salt
½ tsk kanill
2 tsk vanilludropar
2 dl púðursykur
½ dl vatn
3 lítrar haframjöl, gróft eða venjulegt
1 dl sólblómafræ
1 dl graskersfræ
1 dl hörfræ
Aðferð: Byrjaðu á því að hita ofninn í 180 °C. Helltu olíu í ofnskúffu og bættu við salti, kanil og vanilludropum. Settu púðursykurinn í skál, helltu smá vatni saman við og hrærðu þannig að það blandist vel saman. Helltu saman við olíuna. Bættu við haframjöli og öllum fræjunum. Notaðu hendurnar til að nudda öllu saman svo olían hverfi inn í hafrana. Settu ofnskúffuna í ofninn og bakaðu í um 20 mínútur. Taktu skúffuna út, hrærðu í henni og skutlaðu henni aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar. Taktu skúffuna aftur út, hrærðu í henni og svo aftur inn í 10 mínútur.
Ekkert vesen, bara fylgjast aðeins með og taka eftir þegar hafrar og fræ breytast í gyllt, stökkt, ristað og brakandi gott múslí. Þegar múslíið hefur kólnað er rúsínum, döðlum, apríkósum, þurrkuðum banönum, súkkulaðibitum, eða hverju sem hugurinn girnist, bætt út í. Ef múslíið klárast ekki strax er gott að vita að það geymist í lokuðu íláti og heldur bragði í rúmlega viku.