Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður VG og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skrifar:
Kortéri fyrir kosningar, hinn 16. október síðastliðinn, setti Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra reglugerð nr. 906/2016 um kostnað sjúklinga í heilbrigðisþjónustu. Þar með var heimilað – án lagastoðar, eins og ég kem að hér á eftir – að taka innlagnargjald af sjúklingum á spítölum.
Það fór ekki mikið fyrir þessari breytingu, engin frétt sett á heimasíðu velferðarráðuneytis enda ekki nema von: Heilbrigðisráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa tvívegis verið gerðir afturreka með áform sín um spítalaskattinn – fyrst 2009 og aftur 2013.
Innlagnargjaldið sem aldrei var innheimt
Allir muna ákvörðun Sjálfstæðisflokksins undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að láta sjúklinga greiða innlagnargjald fyrir fyrstu nóttina sem þeir dvelja á sjúkrahúsi – það var sett í fjárlög 2009 og skyldu sjúklingar borga 6.000 kr. fyrir að leggjast inn – öryrkjar helmingi minna og fæðandi konur ekki neitt. Þetta átti að skila 360 milljónum í ríkissjóð en komst aldrei í framkvæmd því hrunstjórnin hrökklaðist frá völdum. Ögmundur Jónasson, sem tók við sem heilbrigðisráðherra 1. febrúar 2009 ákvað daginn eftir að gjaldið yrði ekki innheimt og þar við sat.
Draugagangur í fyrsta fjárlagafrumvarpinu
En Sjálfstæðisflokkurinn var ekki fyrr kominn aftur til valda eftir kosningar 2013 og Kristján Þór orðinn heilbrigðisráðherra, að innlagnargjaldið vaknaði til lífsins: Í fyrsta fjárlagafrumvarpi Panamastjórnarinnar var gert ráð fyrir innheimtu spítalaskattsins og átti hann að skila 200 milljónum í ríkissjóð 2014. Ríkisstjórnin var hins vegar gerð afturreka með þessi áform vegna þrýstings frá stjórnarandstöðunni en líka vegna mótmæla verkalýðshreyfingar og Öryrkjabandalagsins. Það væri aðeins veikt fólk sem væri lagt inn á sjúkrahús og það ætti áfram að vera ókeypis á Íslandi.
Ókeypis vist á sjúkrahúsum
Með 18. gr. laga um Sjúkratryggingar (112/2008) er okkur öllum tryggð ókeypis vist á sjúkrahúsum. Þar segir í 1. mgr.:
„Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum skv. IV. kafla, þ.m.t. á fæðingarstofnunum, sbr. þó 23. gr. [… sem fjallar um læknismeðferð erlendis.] eða ákvæði sérlaga. Sjúkrahúsvist skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.“
Þessi grein er svo afgerandi að þegar hrunstjórnin setti spítalaskattinn á 2008 varð hún að setja inn í hana undanþáguákvæði ásamt heimild til að rukka fyrir innlögn í 29. grein sömu laga, en þar er talið upp allt það sem taka má gjald fyrir í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Vinstri stjórnin afnam þessi lagaákvæði vorið 2012 með þeim rökum að þau hefðu aldrei verið nýtt og ekki stæði til að nýta þau. Ef til stæði að taka upp slíka gjaldheimtu yrði að breyta lögum aftur. Það hefur hins vegar ekki verið gert því áformin um það haustið 2013 gengu ekki eftir. Reglugerð nr. 906/2016 er því sett án lagastoðar.
Hverjir eiga nú að borga?
Eftir breytingu Kristjáns Þórs er fyrsta málsgrein 9. gr. reglugerðarinnar svona:
Sjúkratryggðir greiða ekkert gjald fyrir legu á sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum, enda sé hún að ráði læknis. Legan skal tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir. Með legu er átt við samfellda dvöl sjúkratryggðs á sjúkrahúsi, á legudeild eða í undantekningartilvikum á bráðamóttökudeild þegar ekki er unnt að innrita sjúkratryggðan á legudeild, í sólarhring, þ.e. 24 klukkustundir eða lengur, vegna sjúkdómsástands/meðferðar sem krefst almennt innlagnar á legudeild.
Samkvæmt þessu hefur ráðuneytið skilgreint ókeypis vist á sjúkrahúsi skv. 18. gr. uppá nýtt – hún gildi bara ef sjúklingur er lagður inn á “legudeild” eða ef hann þarf að bíða á bráðamóttöku eftir því að komast á “legudeild”. Viðkomandi þarf að vera á “legudeildinni” í sólarhring eða lengur og ástand hans verður almennt að krefjast slíkrar innlagnar.
Hér er verið að breyta reglum til þess að geta rukkað fyrir svokölluð ferliverk, t.d. minni aðgerðir sem gerðar eru með laser-tækni og kalla stundum á 24 tíma innlögn eða meira, t.d. þegar aðgerð er frestað fram eftir degi eða eitthvað kemur uppá í aðgerðinni. Og þá á sjúklingurinn ss. að rífa upp budduna og borga af því að rúmið sem hann lá í er kallað á “dagdeild”, þrátt fyrir ákvæði 18. gr. Þetta á t.a.m. við um margar aðgerðir á kvensjúkdómadeild – en hvergi hefur verið gerð grein fyrir því hvaða hópa þessi ákvörðun snertir né hversu miklu reglugerðin eigi að skila.
Hvað ef?
Helstu rök hægri manna fyrir því að rukka fyrir spítalavist eru þau að það skapi “meira samræmi og jafnræði í gjaldtöku enda er tekið komugjald vegna komu á slysadeild, bráðamóttöku og göngudeild, auk gjalds vegna rannsókna hjá þeim sem ekki eru inniliggjandi.” (Úr greinargerð hrunstjórnarinnar 2008).
Hér athugist að menn eru ekki lagðir inn á sjúkrahús nema vegna þess að þeir eru veikir og þurfa að vera undir læknishendi. Það er ekkert val – og nóg er nú gjaldtakan í heilbrigðisþjónustunni, nær 20% beint úr buddunni, þó ekki sé rukkað fyrir rúmið sérstaklega. Því EF svo fer, þá mun næsti söngur hægri manna vera þessi: Það þarf að ríkja meira jafnræði í gjaldtöku á spítölum – það þarf líka að rukka fyrir dvöl á “legudeildum”. Og áður en við vitum verður búið að fella 18. gr. úr gildi.
Ég vænti þess að nýkjörið Alþingi geri ráðherrann, sem þá verður væntanlega fyrrverandi, afturreka með þessa lögleysu. Það er hvergi stoð í 18. gr. laga um ókeypis vist á sjúkrahúsum til að rukka fyrir vist í tilteknum rúmum eða á tilteknum deildum! Og það dugir ekki að vísa í 29. gr. laganna því þar er heldur engin heimild til að rukka fyrir innlögn á sjúkrahús, hverju nafni sem nefnist. Reglugerðin styðst ekki við lög.