„Mig langar að verða betri sonur. Standa undir væntingum… Ég var seinþreyttur til vandræða. Sífellt tiplandi á tánum. Eina barnið sem brúkaði aldrei munn…
Það svíður undan umvöndunum mömmu. Og almennt þarf lítið til að ég bogni. Maður vill auðvitað ekkert bregðast fólkinu sínu. Allra síst núna, heimkominn með allt niðrum sig…“
(53)
Ágúst Fannar Bergsson, söguhetjan í Endurfundum eftir Orra Harðarson, á í miklu brasi með sjálfsmynd sína. Hann getur varla haft samskipti við fólk því hann er á kafi í sjálfsvorkunn; þræll eigin vesaldóms og vídeógláps og veikleikar hans birtast skýrast í sjúklegu áti. Hann minnir á Egil í Nautnastuldi Rúnars Helga Vignissonar, fastur í hjálparleysi og passar hvorki við fortíð né samtíð. Hann hefur óbeit á líkama sínum og er lamaður af skömm sem er svo mikil að hann fyllist sektarkennd við að rúnka sér. Hann er hundleiður á þjóðfélaginu og veðrinu, „Landi, þjóð og tungu“ (23) og tilgangsleysinu sem bíður í tóminu (88) en hefur ekki dug til að rífa sig upp.
Handarkrikamorðinginn
Sagan gerist í upphafi 10. áratugarins þegar byggð í sjávarplássum landsins stefnir í ógöngur. Kvótinn gengur kaupum og sölum, frystitogar vinna aflann um borð svo landvinnsla leggst víðast af. Enn er þó vinnu að hafa á Akranesi, heimabæ Gústa, þar sem hann fær að standa vaktina við Baader-flökunarvélina í frystihúsinu. Samfélagið er lítið og staðnað, allir þekkja alla og fátt ber til tíðinda. Kjaftasögur ganga í plássinu og allir hafa viðurnefni, enda eru „aðhlátursefni í götu hverri“; sonur apótekarans er Meðal-Jón og maður angandi af megnri svitalykt er „Handarkrikamorðinginn“. Þetta er á þeim dögum þegar einelti var óskilgreint tabú og mörkin á milli stríðni og ofbeldis óskýr. Skemmtanalíf og áhugamál unga fólksins eru framandi fyrir eldri kynslóðina sem skilur ekkert í neysluhyggju og útlenskri afþreyingarmenningu á vídeóspólum og geisladiskum sem tröllríða öllu. Í sögunni eru tengingar vítt og breitt í kvikmyndir og tónlist sögutímans en þar er Gústi aldeilis á heimavelli. Við erum stödd á póstmódernískum tímum, árið sem Freddie Mercury deyr og „Acthung Baby“ vermdi efstu sæti vinsældalistanna; nostalgískir næntís-dagar með nýrri heimsmynd og djúpu kynslóðabili.
Akfeitt örverpi
Textinn er fullur af sjálfsfyrirlitningu og niðurrifi andhetjunnar Gústa. Hann talar um sjálfan sig sem akfeitt örverpi (83), djöfulsins úrhrak (89), raunalega útgáfu af rúmlega tvítugum manni með biðilsbuxur á hælunum og höfuðið fullt af forboðnum þönkum (99). Hann er „vistarbundinn og átthagafjötraður aumingi, enn í foreldrahúsum. Á ekkert betra skilið eftir endalausa afleiki í tilverunni“ (145) enda „…hálfvegis utanveltu og alveg á nálum, næstum eins og eitthvert offituafbrigði af taugaveikluðustu týpum Woody Allen, algjörlega þó án hinnar sjarmerandi hnyttni sem hann léði þeim gjarnan af mildi hins almáttuga skapara“ (142). Það er ævinlega einhver undirliggjandi vanlíðan í Gústa (179) sem reynist svo eiga sér m.a. skýringar í kynferðislegri misnotkun sem hann varð fyrir í bernsku. Lýsingar á lamandi áhrifum sektarkenndar og sjálfsefa sem þolendur kynferðisofbeldis burðast með eru hjartaskerandi.
Lúser fyrir lífstíð?
Endurfundir er önnur skáldsaga Orra Harðarsonar. Hún er ánægjuleg lesning þrátt fyrir volæði og sjálfsskaðandi niðurrif Gústa og einlitar kvenlýsingar (dísin, lesbían, dræsan og bitra mamman). Í tragík sögunnar og vonleysi má finna sitthvað kátlegt, s.s. skondin tilsvör, neyðarlegar senur og fyndnar mannlýsingar. Setningar eru stuttar og víða frumleg tilþrif í máli og stíl.
Það er hressandi upplifun að eiga endurfundi við þetta hallærislega tímabil Íslandssögunnar sem ekki fer sérlega mikið fyrir í skáldskap. Persónurnar eiga það flestar sameiginlegt að berjast um í vanmætti eins og dýr í gildru. Þær eru lúserar fyrir lífstíð, þorpsslúðrið eltir þær uppi og flóttaleiðir eru flestum lokaðar. Foreldrar Gústa eru fastir í hjólförum tímans og sú spurning leitar á lesandann hvort Gústi muni spóla í sama fari eða hvort hægt sé að túlka sögulok þannig að hann eigi einhvern sjens.