Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður VG og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skrifar:
Grein mín í Kvennablaðinu á föstudag fékk mikla athygli á fésbók og reyndar víðar. Þar benti ég á að reglugerð nr. 206/2016 sem heilbrigðisráðherra setti kortéri fyrir kosningar hefur ekki lagastoð en með reglugerðinni er þrengt það afdráttarlausa ákvæði 18. gr. sjúkratryggingalaga að vist á sjúkrahúsum skuli vera án endurgjalds. Nýja reglugerðin segir hins vegar að slík vist skuli aðeins vera ókeypis ef sjúklingurinn er á “legudeild” eða á bráðadeild að bíða eftir rúmi á “legudeild”. Þetta þýðir að sjúklingar sem ílendast á spítala eftir smærri aðgerðir og þurfa að liggja lengur en sólarhring á því sem kallað er “dagdeild” eru ekki lengur í “ókeypis vist” á sjúkrahúsi. Og ekki bara það. Ef ástand eða meðferð sjúklingsins kallar ekki “almennt” á innlögn, – hvað sem það nú þýðir – verður vistin heldur ekki ókeypis.
Ráðherrann hefur svarað grein minni – ekki hér í Kvennablaðinu því miður, heldur á veggjum vina sinna á fésbók sem gerir mörgum sem vilja fylgjast með þessu máli erfitt fyrir. Ég verð því að eyða nokkru plássi í þessu greinarkorni til að birta hluta af svari hans og það fyrsta er að hann segir grein mína byggja á “gleymsku eða misminni”. Hann gerir því einnig skóna að ég hafi sem heilbrigðisráðherra á árinu 2009 fundið upp gjaldtöku fyrir ferliverk á sjúkrahúsum. Lesendum til upplýsingar skal minnt á að fyrsta reglugerðin þar um var sett af Sighvati Björgvinssyni 1992 og hefur að mestu verið óbreytt síðan.
Kristján Þór svarar hins vegar í engu meginathugasemd minni sem er að reglugerð nr. 206/2016 hefur einfaldlega ekki lagastoð því hún þrengir gildisvið 18. gr. sjúkratryggingalaga. Í þeim lögum er hvergi gerður greinarmunur á því í hvernig rúmi eða á hvaða deild sjúklingar liggja inni á sjúkrahúsum, vistin skal vera ókeypis.
Sjö milljónir fyrir legu á bráðadeild?
Ég tel að með reglugerðinni sé ráðherrann að hækka sjúklingaskatta og opna fyrir gjaldtöku fyrir legu á sjúkrahúsum, setja á fyrsta vísi að innlagnargjaldi, sem allir vita að Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að og hefur tvívegis reynt að koma á, 2008 og 2013.
Í svari sínu segir Kristján að þetta sé ekki rétt. Þvert á móti spari reglugerðin sjúklingum 7,2 milljónir króna á ári vegna þess reglugerðin “stöðvi innheimtu gjalda á þá sjúklinga sem liggja lengur en sólarhring á bráðamóttökudeild vegna þess að ekki sé unnt að innrita þá á legudeild þar sem þeir ættu annars að liggja.”
Öll höfum við séð sjónvarpsmyndir af yfirfullri bráðadeildinni í Fossvogi. Í mínum huga er það mikið réttlætismál að menn séu ekki rukkaðir meðan þeir bíða þar eftir plássi á t.d. lungna- eða hjartadeild og ég hefði einfaldlega ekki trúað því að það væri gert – hvað þá að sjúklingar hafi borgað 7 milljónir á ári fyrir slíka bið! En svar ráðherrans tekur af öll tvímæli um það.
Ég tel slíka innheimtu fara gegn anda laganna – komugjald á slysadeild er allt annað en tilefni til innlagnar – en ef ráðherrann eða spítalinn telja sig þurfa breytingu á reglugerð til að hætta þessari ómanneskjulegu innheimtu þá geri ég ekki athugasemd við það. En reglugerðin fjallar bara um ýmislegt fleira, þó ráðherrann vilji gera minna úr því.
Sumar heilbrigðisstofnanir hafa rukkað fyrir legu!
Það er gott að þeir sem komast ekki út af bráðadeild þurfi ekki lengur að greiða fyrir næturvistina þar. En laumufarþeginn í þessari reglugerð er ákvæðið um “legudeildina”. Það mun bitna t.d. á konum sem fara í kvensjúkdómaaðgerð og eiga að geta farið heim innan 24 tíma en svo kemur eitthvað uppá: Það þarf ekki annað en að aðgerðin frestist og af því að viðkomandi sjúklingur var vistaður þar sem heitir „dagdeild“ og hvergi er skilgreint í lögum, þá á hún að borga. Vistin er ekki ókeypis þar sem hún er ekki á legudeild og aðgerðin sem slík kallar ekki „almennt“ eins og segir í reglugerðinni, á innlögn á legudeild!
Í svari Kristjáns um þetta atriði segir að almenna reglan hafi verið sú “að þegar sjúklingur hafði dvalið í lengur en 24 klukkustundir á bráðamóttöku teldist það innlögn og þá ekki innheimt gjald.” Í ljós hafi hins vegar komið “að heilbrigðisstofnanir voru með mismunandi framkvæmd og þar með verið að mismuna sjúklingum við gjaldtöku. Því var ákveðið að skýra þetta nánar í reglugerðinni.”
Bráðadeildir á landinu eru ekki margar þannig að mismunur í framkvæmd og þar með innheimtu hlýtur að hafa legið í rekstri annarra deilda, en heilbrigðisstofnanir á landinu eru nærri 30 talsins, sjúkrahúsin eru 8 og sjúkrarými á 15–16 stöðum til viðbótar. Ef einhverjar heilbrigðisstofnanir voru að rukka fyrir legu á sjúkrahúsum eða í sjúkrarýmum þá hefur það einfaldlega verið óheimilt og hlutverk ráðherrans að samræma gjöldin þannig að létta þeim af sjúklingum strax, en ekki opna fyrir gjaldtöku fyrir legu á “dagdeildum” á öllum heilbrigðisstofnunum.
En eftir stendur að reglugerðin styðst ekki við lög. Þó í 29. gr. sjúkratryggingalaga segi að heimilt sé að setja reglugerð um innheimtu gjalda á sjúkrahúsum fyrir hitt og þetta, þá er 18. greinin afdráttarlaus: Sjúklingum skal tryggð ókeypis vist á sjúkrahúsum á Íslandi.
Lokaspurning um einkaspítala
Bent hefur verið á að nú var fyrsta sinn sett reglugerð sem tekur til sjúkrahúsa sem rekin eru “samkvæmt samningum”.
Sjúkratryggingar hafa frá 2008 haft heimild til að semja við einkaaðila um rekstur sjúkrahúsa, reyndar í margnefndri 18. gr. Sjúkratryggingalögin voru mjög umdeild, enda var þeim ætlað að teppaleggja fyrir einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Víst er að margar atrennur hafa verið gerðar að því að opna hér einkaspítala, en án árangurs til þessa. M.a. hefur Kristján Þór staðið gegn slíkum tillögum og er skemmst að minnast einkaspítalans í Mosfellsbæ og svo klifar Klínikin í Ármúla stöðugt á nauðsyn þessa.
Vegna þessarar reglugerðar er eðlilegt að spyrja Kristján Þór í lokin: Hefur ráðherrann heimilað Sjúkratryggingum Íslands að semja við einkaaðila um rekstur sjúkrahúss/sjúkrahúsa í landinu?
Hvað kom til að setja þurfti reglugerð þar sem þetta ákvæði er ítrekað rétt fyrir kosningar þegar ráðherrann hefur haft til þess 3 og hálft ár?
Telur Kristján Þór Júlíusson að það þurfi samþykki Alþingis fyrir rekstri einkaspítala á Íslandi?