Ég horfi ekki á fréttir. Ekki nema ég neyðist til þess. Það geri ég í sjálfsvörn. Hver einasti fréttatími er eins og áhættuferð gegnum frumskóg fyrir mig. Þegar ég neyðist til að horfa vegna aðstæðna sem gera mér ókleyft að flýja, sit ég eins og sært dýr og reyni að brynja mig fyrir því sem koma skal. Hvaða nýju lög voru sett sem bæta á mig nauðsynlegum útgjöldum. Hvaða álitsgjafi spýtir út úr sér einhverju sem málar mig og aðra í minni stöðu sem aumingja eða blóðsugur á kerfinu. Hvaða óupplýsta æsingafrétt potar ranghugmyndum inn í almenningsálitið í dag. Hvaða breytingar urðu í útlöndum sem hafa áhrif á stöðu mína og minna líkra á heimsvísu.
Varnarlaus og valdalaus sit ég með langáunna áfallastreitu-röskunina og reyni að missa ekki allt of mikla stjórn á tilfinningunum. Anda djúpt og segja sjálfri mér að þetta sé ekki allt svona alvarlegt.
Ég vildi að ég hefði rétt fyrir mér.
Í gær lenti ég í svona aðstöðu. Fréttirnar rúlluðu í bakgrunninum og þótt ég hafi flýtt mér inn í herbergi til vinkonu minnar var ég ekki nógu fljót og ég heyri útundan mér frétt um stóraukna notkun á heróínskylda verkjalyfinu oxíkódon og parkódín forte auk þess sem nefnt er að við séum í fremsta sæti í notkun svefn, kvíða, þunglyndis og örvandi lyfja á norðurlöndunum.
Enginn skilur neitt i neinu, helst er talið að fleiri eigi við erfiðari veikindi að stríða eða að neyslan sé fíknitengd. Fréttin er hér ef áhugi er fyrir að skoða nánar.
Ég veit vel afhverju notkun sterkra verkjalyfja hefur aukist. Fyrir mér er það AUGLJÓST. Veikt fólk og fátækt hefur bara einfaldlega ekki tök á að halda heilsu við núverandi ástand. Fyrr tveim árum stóð ég fyrir framan Alþingi Íslendinga með skilti sem á stóð að ég neitaði mér um heilbrigðisþjónustu til að fjölskyldan gæti borðað. Lítið hefur breyst.
Reglulega stend ég frammi fyrir því að velja um að betla af vinum og fjölskyldu, selja eitthvað sem mér dettur í hug að gæti reddað málunum eða sinna ekki nauðsynlegum heilsutengdum atriðum. Nota frekar verkjalyf til að keyra mig áfram. Vegna þess að það er ódýrasta leiðin.
Í fyrra seldi ég eldhúsborðið og stólana einn mánuðinn, í öðrum mánuði betlaði ég af tæplega sjötugum foreldrum mínum. Stundum hef ég bara ekki í mér að betla enn einn daginn af fólki sem þarf sjálft á peningunum að halda. Stundum næ ég að kyngja því og ef ég hefði ekki stöðugt kyngt stoltinu síðasta áratuginn væri ég og fjölskyldan mín á götunni.
Í þarsíðasta mánuði tókst okkur fyrsta mánuðinn í mörg ár að vera nokkurnvegin á núllinu um mánaðamót. Ég glotti eins og ég hefði unnið Pulitzer verðlaunin þegar ég áttaði mig á að við ættum eftir þrjúþúsund kall í enda mánaðarins. Þetta hafði ekki komið fyrir í marga mánuði. Um mánaðamótin borgaði ég svo alla reikningana og sá að við ættum fyrir mat og bensíni út mánuðinn og brosti aftur hringinn.
Daginn eftir misteig ég mig í sturtunni og fékk mjög sársaukafullt tak í bakið. Ég var nýkomin úr aðgerð á bakinu þannig að augljóslega hefði ég átt að fara til læknis eða sjúkraþjálfa. En ég reyndi að leysa þetta með að ganga og taka verkjalyf og sjá hvort þetta myndi jafna sig. Vegna þess að ég vissi að læknirinn myndi senda mig í sjúkraþjálfun og ég hafði ekki efni á henni. En sem langveikur sjúklingur kosta verkjalyfin mín mig minna.
Fyrir rúmlega viku endaði ég uppi á spítala og þurfti vegna vöðvaskaða að fá tveggja daga aðstoð til að ganga aftur. Ég var send heim um leið og ég náði að standa við hækjur. Send heim til að bíða eftir myndatöku á bakinu sem er á mánudaginn. Hvernig hef ég þraukað biðina? Jú með verkjalyfjum. Þetta er ekki í fyrsta sinn. Í dag frétti ég svo að áætlað sé að setja upp komugjald fyrir sjúklinga á spítala. Lesið um það hér.
Fátækt og veikt fólk á Íslandi bíður með að sinna sjálfsagðri heilsuvernd þar til það er sótt á sjúkrabíl. Tekur sjálfsskemmandi ákvarðanir daglega.Afleiðingin er bugun, depurð, heilsukvíði og kvíði fyrir hverjum mánaðamótum.
Afleiðingin er fólk sem keyrir sig út við stigversnandi aðstæður og þarf geðlyf, verkjalyf og svefnlyf til þess eins að komast einu skrefi lengra. Ala upp börnin sín, sinna veika fjölskyldumeðliminum, borga fyrir mat, bensín og endalausu óvæntu uppákomurnar.
Bílinn sem bilar endalaust en ekki er til peningur til að gera almennilega við. Húsið sem lekur. Daglegt líf. Halda jól, páska og afmæli. Þora að horfa á fréttirnar einn daginn enn.
Lausnin á verkjalyfjagildrunni er einföld. Gerum fólki kleyft að sinna heilsu sinni. Öllu fólki.