Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þing án starfa

$
0
0

Í dag er liðinn mánuður frá kosningunum þar sem ég var kosinn inn á Alþingi ásamt 62 öðrum. Síðustu vikurnar hefur almenningur fátt frétt af okkur þinginu annað en hverjir séu í óformlegum eða formlegum stjórnarmyndunarviðræðum, að þessi hafi talað við hinn og hver vilji eða vilji ekki vinna með hverjum. Þessi fasi þingstarfanna endurspeglar ekki mikilvægi þeirra og það sem verra er – verður til þess að stór hluti þingmanna situr á hliðarlínunni og bíður.

Á meðan forystumenn stjórnmálaflokkanna ræða mögulega stjórnarmyndun gætum við hin gert svo miklu meira gagn en við gerum. Þingið þarf nefnilega ekkert að bíða eftir myndun ríkisstjórnar til að geta hafið störf. Ríkisstjórnir starfa í umboði þingsins en ekki öfugt.

En það er ekki búið að hefja þingstörfin. Þingsalur hefur staðið tómur frá því fyrir kosningar.

Þetta hefur verið nefnt af og til undanfarið. Þá er gjarnan bent á hvað sé farið að liggja mikið á því að þing komi saman til að afgreiða fjárlög. Fjárlög eru stórt og flókið verkefni sem er oftast unnið á þremur mánuðum, en núna er réttur mánuður til áramóta.

En það er fleira sem við þingmenn gætum gert héðan úr salnum. Á venjulegum þingfundardegi á sér oft mikilvæg umræða stað á þinginu. Umræða sem kallast á við það sem er að gerast úti í samfélaginu og styður við ýmislegt sem brennur á almenningi.

Mér varð hugsað til þessa í gærkvöldi þegar ég horfði á fréttaskýringu Kastljóss af skelfilegum aðstæðum alifugla á eggjabúum.

Tryggvi Aðalbjörnsson og félagar hans í Kastljósinu gerðu frábæra hluti í gær. Þau sýndi hvað metnaðarfullur fjölmiðill getur gert mikið til að gæta almannahagsmuna. Ritstjórnin þrýsti lengi á að fá gögn afhent, vann sig svo í gegnum stafla af upplýsingum og matreiddi á aðgengilegan og skýran hátt fyrir almenning. Viðbrögðin hafa heldur ekki látið standa á sér. Fólki misbauð það sem það sá og kallar eðlilega eftir viðbrögðum.

Þegar krafist er viðbragða kemur sér vel að hafa starfandi þing. Ef þingið væri komið saman hefðu kjörnir fulltrúar getað gripið boltann á lofti og unnið málið áfram þar sem umfjöllun Kastljóss sleppti. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn gegna oft sama hlutverki, þó úr ólíkum áttum sé – við eigum öll að gæta hagsmuna almennings.

Starfandi Alþingi gæti spurt landbúnaðarráðherra nánar út í málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þingmenn gætu krafist skriflegra svara frá ráðuneytinu um verkferla og viðbrögð eftirlitsstofnana. Svo væri ekki úr vegi að taka góða umræðu um velferð dýra í stóra samhenginu. Og það sem er kannski undirliggjandi stóra fréttin: Það mætti nýta þessa umfjöllun til að minna á mikilvægi þess að upplýsingar séu aðgengilegar fjölmiðlum og almenningi, sem ætti að vera reglan frekar en undantekningin.

En í staðinn sitjum við þingmennirnir mánuði eftir kosningar og bíðum enn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283