Uppfært: Nesbú hætta að versla við Brúnegg samkvæmt frétt RÚV. Kvennablaðið fékk símtal frá Nesbú í morgun þar sem þetta var staðfest og ennfremur vildi Nesbú taka fram að brúsaeggin hefðu fram á þennan dag ekki eingöngu verið úr eggjum framleiddum hjá Brúnegg heldur væru líka eða um 60-70% af heildarframleiðslu notuð 2. flokks egg frá Nesbú í brúsaeggin.
RÚV greindi frá því í dag að eggjaframleiðandinn Nesbú kaupir um eitt tonn á viku af annars flokks eggjum frá Brúneggjum.
Starfsmaður Nesbús, sem Kvennablaðið ræddi við, sagði að eggin, sem keypt væru frá Brúnegg, færu eingöngu á brúsa, en Nesbú selur eggjahvítur, eggjarauður, eggjakökumix og heil egg í brúsa, til matvælaiðnaðar, í gegnum Ó. Johnsson & Kaaber. Ó. Johnsson & Kaaber selur líka heil Brúnegg samkvæmt vörulista.

Mynd úr vörulista Ó. Johnson & Kaaber
Starfsmaður Nesbús vildi taka fram að Nesbú hefði, eins og öðrum, orðið mikið um umfjöllun Kastljóssins, enda hefðu þau verið grunlaus um hvers kyns var. Í framleiðslu eggjabrúsanna fara líka 2. flokks egg úr framleiðslu Nesbús.
Ekki er tekið fram á umbúðum Nesbús að uppruni eggja í brúsum sé að hluta hjá eggjaframleiðandanum Brúnegg.

Mynd úr vörulista Ó.Johnson & Kaaber
Brúsaeggin eru notuð á veitingahúsum, bakaríum og iðnaðareldhúsum landsins. Kvennablaðið ræddi við nokkra matreiðslumenn sem sögðu að þessi brúsaegg væru notuð í eldhúsum flestra veitingahúsa og víst er af þessum samtölum að dæma að veitingamenn eru grunlausir um að brúsaeggin séu í raun frá Brúneggjum því brúsar eru merktir í bak og fyrir með nafni Nesbús.
Í frétt RÚV segir Stefán Már Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbú að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að hætta viðskiptum við Brúnegg. „En það gæti samt alveg orðið þannig. Við ákváðum að láta þennan dag líða,” segir Stefán. En hvað segir veitingageirinn, matreiðslumenn og bakarar landsins?
Mun matvælageirinn sætta sig við það að nota vörur sem framleiddar eru við þær aðstæður sem raun ber vitni hjá eggjaframleiðandanum Brúnegg.