Hvað gerir maður þegar maður dettur ofan í mynstrið að sækja alltaf í sömu manngerðina? Og svo kemur upp úr kafinu að viðkomandi er bæði alki og ofbeldishneigður og það sem meira er, það var augljóst allan tímann án þess að maður kæmi auga á það?
Til þess að finna svarið þarf maður að takast á við fortíðardraugana, leyfa sér að verða reiður, hætta að kenna sjálfum sér um ofbeldið, sættast svo við draugana, lifa með þeim, fyrirgefa sjálfum sér og læra að treysta eigin dómgreind aftur. Hljómar einfalt og er það kannski í rauninni. Það sem er erfiðast er að horfast í augu við sjálfan sig og á nákvæmlega þeim tímapunkti, segja bless við fórnarlambshlutverkið, viðurkenna að maður velur sér samferðamenn í lífinu og að ekki er hægt að kenna öðrum um það. Þrátt fyrir hrottafengna nauðgun á viðkvæmum tímapunkti í lífinu.
Ég er stolt af öllum þessum hetjum sem koma fram undir nafni og skila skömminni eins og það er kallað. Því miður er ég ekki svo hugrökk en það er eitt sem sjaldan er talað um en þarf kannski að tala um líka. Það er að rugla ekki saman því að skila skömminni og að leyfa sér að kenna ofbeldismanninum um allt sem miður fer eftir að ofbeldið á sér stað. Þetta var eitt af því erfiða í mínu tilfelli.
Ég var alltaf að leita að einhverjum til að bjarga mér, einhverjum til að vernda mig fyrir þessum vonda heimi eins og ég sá hann þá. Einhverjum sem átti að taka sársaukann, skömmina, þunglyndið, kvíðann og hræðsluna í burtu og setja inn hamingju og eilífa ást í staðinn.
Bara tveir gallar á þessari nálgun – hamingjan er ekki eitthvað sem önnur manneskja gefur manni, maður verður að finna hana hjá sjálfum sér. Hinn gallinn var sá að ég sótti í manngerðina sem var samskonar manngerð og sá sem nauðgaði mér. Þannig fór af stað vítahringur sem entist í rúman áratug.
Í dag er ég miðaldra amma og hef ekki einu sinni sagt börnunum mínum frá því sem gerðist. Með tímanum lærði ég það að ég – og ég ein – átti alla mína fortíð sjálf og að ég bæri ábyrgð á eigin hamingju og innri ró. Það fólst visst frelsi í þessari „uppgötvun“ þó það væri erfitt. Þá loksins leyfði ég mér að „heyra“ þessi orð aftur, öllum þessum árum seinna: „ég finn þig, drep þig og búta þig niður í plastpoka ef þú segir einhvern tíma frá þessu“. Þetta sagði nauðgarinn eftir að hann hafði svívirt mig á allan mögulegan hátt þannig að úr blæddi í nokkrar vikur á eftir, haldið þéttingsfast um hálsinn á meðan og horfst í augu við mig á meðan ég náði ekki andanum.
Nokkrum árum seinna horfði ég í augun á öðrum ofbeldismanni á meðan hann herti að hálsinum á mér, þáverandi eiginmanni sem var mikill drykkjumaður. Það er eitt að hlusta á svo til ókunnugan mann hóta sér lífláti á meðan hann lokaði fyrir öndunarveginn. Það er allt annað og verra að horfast í augu við mann sem maður treysti fyrir fimm mínútum síðan og sjá hreina og tæra morðlöngun í augnaráðinu. Skelfingin sem heltekur mann í svona vonlausum aðstæðum, þar sem líkamlegur styrkur er það sem skilur á milli, er svo lamandi og hræðileg að það er erfitt að finna lýsingarorð. Það brotnar eitthvað innra með manni við þessháttar upplifun.
Áður en ég hitti fyrrverandi hafði ég verið að hitta svipaðar manngerðir og hann. Lokaða, afbrýðisama og stjórnsama menn sem vildu breyta mér á einhvern hátt. Fyrir þá sem þekkja ekki merkin þá er afbrýðisemi og stjórnsemi ásamt þessari kröfu um persónuleikabreytingar stærstu og augljósustu merkin um að þú sért líklega að fara inn í ofbeldissamband.
Gallinn var bara sá að ég sá þá ekki þannig. Þeir virkuðu sterkir, sjálfsöruggir, harðir og svolítið alfa á mig. Það er ekkert að því að vera sterkur og sjálfsöruggur karakter eða jafnvel að vera svolítið alfa. En það sem ég sá sem styrk og hörku var ekkert annað en innantómur hroki, vissa um eigið ágæti og hamslaus sjálfsást.
Á yfirborðinu var ég sterka og sjálfstæða konan en undir niðri fannst mér ég verða að finna þessa manngerð vegna þess að ég hélt að þannig maður gæti bjargað mér og verndað mig á einhvern hátt. Þvílíkur barnaskapur. Svo þegar hlutirnir gengu ekki upp passaði ég mig vel á því að horfast ekki í augu við það að ég leitaði í þessar týpur.
Eftir að ég hafði sloppið frá mínum fyrrverandi og gat farið að hugsa málið í rólegheitum sá ég að það var eitthvað sem ég var sjálf að gera. Nei, ofbeldið var ekki mér að kenna. En makavalið var mín eigin ákvörðun og einskis annars. Ákvörðunin var byggð á skakkri heimsmynd sem ég hafði þróað með mér vegna þess að ég bað engan um hjálp eftir nauðgunina.
Stígamót voru ný samtök þá en mér fannst það bara fyrir veiklundaða einstaklinga. Ég sé núna að ég var sú veiklundaða. Ég var föst í fórnarlambshlutverkinu og var föst í því að láta alla aðra en sjálfa mig bjarga mér og taka ábyrgð á öllu því slæma sem hafði hent mig í lífinu. Lífið virkar bara ekki svoleiðis.
Það sem hjálpaði mér að komast í gegnum þetta var að skilja ofbeldismennina. Það gerði ég með því að lesa bókina „Why does he do that“ eftir mann að nafni Lundy Bancroft. Ég hafði séð og heyrt konur í kringum mig tala um þessa bók og ákvað að lesa hana sjálf. Sú bók kenndi mér muninn á sjálfstrausti og hroka, á persónustyrk og sjálfsást og síðast en ekki síst kenndi kom hún mér í það hugarástand að sjá loksins muninn á afbrýðisemi/stjórnsemi og heilbrigðri, dramalausri ást. Svo þegar ég hitti núverandi eiginmann skildi ég þennan mun í praxís. Þessi sama bók kom mér líka í skilning um að svona menn hætta ekki ofbeldinu nema með mjög sérhæfðri og langvarandi meðferð. Og jafnvel þá er ekki víst að þeir hætti. Þannig að líkurnar á því að ofbeldismenn sjái ljósið sjálfir og hætti ofbeldinu eru hverfandi. Það má vera að þeir breyti eitthvað taktíkinni með árunum en ofbeldishneigðin sjálf verður alltaf þarna. Þannig mönnum er einfaldlega ekki hægt að treysta þrátt fyrir stór og tárvot loforð um annað. Og traust er ein undirstaðan í góðum ástarsamböndum eins og flestir vita.
Enn eitt sem bókin kenndi mér var að aðskilja alkóhólisma frá ofbeldishneigð. Alkóhólismi veldur ekki ofbeldishneigð. Oft fylgist þetta að en það er ekkert orsakasamhengi þarna á milli samt. Ofbeldismenn nota stundum alkóhólisma sem afsökun eða skýringu. Það sem kom mér samt mest á óvart var að einstaklingar sem beita maka og börn ofbeldi eru mjög skipulagðir og hafa fullkomna stjórn á aðstæðum á meðan ofbeldið stendur yfir. Allt tal um stjórnlausa reiði og að „sjá rautt“ á ekki við um þessa tegund ofbeldismanna. Þetta er ein stærsta blekkingin sem er búið að sannfæra okkur um. Þó ég sé að tala um „ofbeldismenn“ þá er ég að tala um bæði kynin.
Konur beita sína nánustu líka ofbeldi hvort sem það er andlegt eða líkamlegt. Að beita aðra manneskju ofbeldi í krafti aflsmunar er alveg jafn fyrirlitlegt hvort sem það er karlmaður að beita konu ofbeldi eða kona að beita barn ofbeldi.
Með tímanum hefur allt þetta kennt mér að treysta eigin dómgreind aftur. Forsendurnar fyrir því að læra þá lexíu voru að viðurkenna að ég var komin út í ákveðið mynstur þar sem ég sótti í þessa týpu af mönnum, að taka ábyrgð á eigin lífi og hamingju en einnig að læra að skilja sjálfa mig og minn fyrrverandi. Sá skilningur varð svo til þess að þegar ég hætti mér aftur út í annað ástarsamband, þá þurfti ég að aðskilja tilfinningar og rökhugsun, horfa hlutlægt á hegðun og gjörðir núverandi eiginmanns (ekki orð hans) og meta þannig hvort hann væri sama týpan og ég hafði áður sótt í.
Það er nefnilega alveg hægt að stjórna tilfinningum sínum á þennan hátt og í tilfelli okkar sem erum föst í þessu mynstri er það lífsnauðsynlegt.