Ingimar Karl Helgason skrifar:
Fjárfestingafélag Kristins Gylfa Jónssonar greiddi engan tekjuskatt í fyrra, þrátt fyrir að hafa skilað hátt í 100 milljóna króna hagnaði og greitt út arð til eiganda síns.
Brúnegg hafa orðið uppvís að því sem framkvæmdastjóri Bónuss hefur kallað vörusvik. Að selja egg sem vistvæna framleiðslu án þess að uppfylla þær kröfur sem slík merking gerir ráð fyrir. Fyrir þessi egg hefur fólk greitt 40% hærra verð en ella. Þetta hefur komið fram í umfjöllun Kastsljóssins, auk þess að fyrirtækið hefði lítt brugðist við ábendingum og athugasemdum Matvælastofnunar um aðbúnað varphæna.
Um arð og engan tekjuskatt má lesa úr ársreikningi Geysis – Fjárfestingafélags, en þetta félag heldur utan um eignarhlut Kristins Gylfa í Brúneggjum og raunar fleiri félögum.
Í reikningnum kemur fram að hagnaður af rekstri félagsins, sem er til kominn af fjármunatekjum og tekjum af eignarhlutum í öðrum félögum hafi numið 97,3 milljónum króna í fyrra.
Ríflegur arður en enginn skattur
Fram kemur í reikningnum að stjórn leggi til að arður verði greiddur út eigenda „allt að því er lög leyfa“. Eigandinn er einn. Kristinn Gylfi Jónsson.
Þrátt fyrir þennan mikla hagnað greiddi félagið engan tekjuskatt. „Ónýtt skattalegt tap nýtist til frádráttar hagnaði næstu tíu ára eftir að það myndast,“ segir í reikningnum. Samkvæmt honum á félagið inni tæpar tólf milljónir króna í þetta yfirfæranlega skattalega tap. Ekki kemur fram í reikningnum hvenær þetta skattalega tap varð til. Ekki kemur heldur fram hvort félagið hafi greitt tekjuskatt undanfarin ár.
En fram kom í frétt mbl.is í í gær að frá árinu 2010 hefðu Brúnegg hagnast um 219 milljónir króna.