Skiltakarlarnir bjóða til fagnaðarstundar við Landsbankann í Austurstræti í hádeginu í dag fimmtudaginn 1. desember. Bankastjóri Landsbankans Steinþór Pálsson hefur loksins vikið úr starfi eftir mjög gagnrýnar skýrslur frá Bankasýslu ríkisins og Ríkisendurskoðun.
Spillingunni hefur verið greitt þungt högg og er nú von að það sé ólíklegra en áður að þau vinnubrögð verði tekin upp aftur að selja eignir almennings bak við luktar dyr bankastjórans.
Kennarar berjast nú við að fá nokkrar prósentur í launahækkun en þarna er talið að milljarðar hafi glatast sem hefðu mátt nota til að hækka laun kennara um tugi prósenta í fjölmörg ár, slíkt er tjónið og samfélagið líður fyrir, þar sem síst má.
Boðið verður uppá piparkökur og jólaöl. Vonumst til að sjá sem flesta til að líta við og fagna með okkur.
Skiltakarlarnir
Um Skiltakarlana:
Skiltakarlarnir er aðgerðarhópur tveggja eldri karla yfir sextugt sem hafa áhyggjur af landsflótta barna og barnabarna og fengu nóg af facebook og fóru útá götu með skiltin og settu þau á umferðareyjur og víðar. Skiltakarlarnir hafa starfað síðan 2009.
Skiltakarlarnir stóðu fyrir mótmælunum við Landsbankann vegna Borgunarmálsins í janúar sem varð til þess að Bankasýslan hóf rannsókn á sölu Landsbankans á eignasafni bankans. Skýrsla Bankasýslunnar var mjög gagnrýnin á afgreiðslu Steinþórs Pálssonar á sölu eigna bankans.
Skiltakarlarnir stóðu einnig fyrir mótmælunum 4/4 með Jæja hópnum. Þessi mótmæli urðu þau stærstu í sögunni og ollu m.a. falli Forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar en krafan var kosningar strax.
Skiltakarlarnir hafa ítrekað mótmælt þjófnaði úr eignasafni Landsbankans og gagnrýnt stöðu Fjármálaráðherra í því ferli.
(Sjá nánar Skiltakarlarnir á facebook.)