Það styttist í tíma ljóss og friðar, hátíð barnanna, grænna bauna og tvíreykts hangikjöts með glimmer og fölskvalausum Colgate-brosum. Fjórða árið í röð er ég að eyða aðdraganda aðventunnar á ullarsíðbrók úr 66 gráðum norður með úfið hár, taugabrautir heilans á yfirsnúningi og stundum man ég ekki hvenær ég fór síðast í bað.
Það er varanleg dæld í Ron Jeremy sófanum mínum sem hefur verið útnefndur ljótasti sófi Íslandssögunnar af allmörgum, en á honum sit ég hálf volandi og velti fyrir mér hvort Lánasjóðurinn muni skilja að ég hef ekki hugmynd um hver sé hin raunverulega vísindalega nálgun – hvort aðleiðsla eða afleiðsla sé málið – eða hvort aflfræði Newtons sé bara ókei eða hvort ég ætti að styðjast við Einstein ef ég ætlaði að troða manni til tunglsins.
Ég velti fyrir mér hvort ég muni í alvörunni einhvern tímann verða í þeirri stöðu að koma manni til tunglsins og hefur hingað til fundist hugmyndin alveg jafn flókin og að þjappa saman stress- og áhyggjulausum jólum fyrir fjölskylduna. Ég veit samt að ég mun aldrei þurfa að leysa það verkefni að senda mann til tunglsins á Egilsstöðum svo ég get verið róleg í bili. En jólin eru annað mál.
Ég hef nefnt við eiginmanninn að olíubera parketið og mála alla veggi fyrir þessi jól, kaupa nýjan sófa (Ron getur fengið sinn aftur), innrétta herbergi piltunga minna smekklega og henda upp hillum í bílskúrinn og raða öllum verkfærunum huggulega um leið og hægt er að koma jeppaferlíkinu inn.
Ég ætla líka að fá níu á öllum prófum, baka smákökur (allavega 5 sortir), gera piparkökuhús með börnunum í fjölskyldunni, halda aðventukakóveislu fyrir allar vinkonur mínar og börnin þeirra, skera út laufabrauð, hamstra rauðrófur, súrar gúrkur, rjóma og kattarmat, gera heimatilbúinn jólapappír með umhverfisvænu ívafi, skrifa hugheilar jólakveðjur sem munu gera vini og vandamenn hágrenjandi af hughrifum og hella Ajax í lítravís um húsið meðan ég syng fádæma vel uppáhalds jólalög allra.
Svo á að horfa á allar skemmtilegu jólakvikmyndirnar með piltunum, allir á krúttlegu jóla-ljótu-peysunum með malt og appelsín í lúkunum ásamt heimagerðu konfekti meðan við hlæjum góðlátlega að Trölla þegar hann reynir að stela jólunum. Við eiginmaðurinn horfumst reglulega ástfangin í augu yfir kollana á drengjunum sem sitja prúðir og glaðir á milli okkar.
Allt þetta á að gerast meðan ég sæki vinnu líka – því það þarf að borga fyrir þennan hroða sko.
Eiginmaðurinn er ekki eins galinn og ég. Hann er jarðbundnari og hefur í áranna rás reynt að koma mér í skilning um að ekkert muni gerast þó að ég klóri ekki og stíflakki öll niðurföllin í húsinu í desembermánuði ásamt því að standa í stiga með tusku og geðveikisbliki í augum að þvo loftaplöturnar. Þetta hafi einungis þann tilgang að ýta mér hægt og rólega fram af geðveikisbrúninni meðan restin af fjölskyldunni stari á með skelfingarsvip, eins og þau séu að verða vitni að banaslysi í beinni. Húsmóðirin ekki í belti og búið að klippa á bremsurnar.
Aldrei hefur þessi draumsýn um fullkomnun í desember ræst. Það getur verið (ég játa hvorki né neita) að ég hafi stundum grenjað í fósturstellingunni á Þorláksmessu þegar ljóst er að ég hef ekki gert helminginn af þessu og á eftir að skúra gólfin, pakka inn síðustu gjöfunum, gera jólagrautinn, höggva eldiviðinn og reyta rjúpurnar. Þrátt fyrir volið hafa jólin alltaf komið og verið hverjum öðrum ánægjulegri.
Í ár ætla ég að reyna að temja hugann betur. Klára bara skólamisserið, ganga í rólegheitum frá ullarsíðbrókinni og koma reglulegum baðferðum aftur inn í rútínuna mína.
Ég er búin að baka eina sort og læt þar við sitja og draslið í bílskúrnum má vera mín vegna þar sem ég ætla ekki að éta rjúpurnar innan um sagir, spýtur og nagla eiginmannsins og slafra í mig sósunni undir taktföstum slætti hitaveitukerfisins sem er í einu horninu.

Loftaplöturnar verða ennþá þarna í janúar, febrúar og mars. Nema maður selji bara… Alveg eins gott að gera bara piparkökur með krökkunum.
Herbergi piltanna verða bara eins, full af legókubbum, drasli, leikfangabílum og bókum tvist og bast. Þeir eru hamingjusamir í sínum heimi og ég þarf ekkert að róta til í þeirri hamingju fyrir eitthvað smá tímabil. Ég hef varpað hluta ábyrgðarinnar yfir á systur mína sem ætlar að gæta bús og barna meðan ég fer í FL-ferð (FL stendur fyrir mjög dónalegt) með eiginmanninum suður á BREXIT-eyju með þann eina tilgang að sofa og borða í friði í tæpa viku ásamt því að yfirheyra breskan almenning um Evrópusambandið og af hverju þeim er svona illa við yfirþjóðlegar stofnanir. Heimsækja Winter wonderland og skauta en ég er rosalega flink á skautum. Eða ég var það sem krakki.
Eiginmaðurinn mældi mig alla út um daginn eftir þessa yfirlýsingu mína og sagði „eða þú VARST rosalega flink á skautum“. Hvað með það, ég reikna með rosa fjöri. Ekki eiginmaðurinn.
Eftir að heim verður komið ætla ég að nýta mér rækilega þá tækni sem ljósdeyfar bjóða uppá, en einmitt í desembermánuði er hvað hagstæðast að nýta sér slíka tækni. Hún gerir á augabragði heimilið ofsalega huggulegt og skítur og klístur hverfur eins og dögg fyrir sólu. Samt bara tímabundið, þetta er ekki vísindaleg aðferð til að láta skít hverfa varanlega bara svo það sé á tæru og enginn fara að kvarta við mig seinna.
Nokkur kertaljós og svo mokar maður versta draslinu í einhverjar af þeim kommóðum og skúffum sem heimilið geymir og það gerir kraftaverk fyrir ásýnd heimilisins. Spariföt verða hreinlega það fínasta sem heimilismeðlimir eiga hverju sinni og mér hefur aldrei dottið í hug að kaupa spariskó fyrir þessa nokkra daga, sem einhverra hluta vegna, allir eru að kafna í aðhaldsbrókum eða með bindi og ermahnappa og það bara í örygginu heima hjá sér.
Ekkert að því svo sem fyrir þá sem vilja, en ég svitna eins og óvanur hjólreiðamaður sem hefur dottið í hug að keppa óforvarendis í Tour De France um leið og ég er komin í aðhaldssokkabuxur. Sem er enginn tilgangur fyrir mig því það er enginn á mínu heimili að velta því fyrir sér hversu langt vínarbrauðsbelgurinn á mér stendur fram á meðan þessi heilagi tími líður hjá.
Þeir einu sem hafa einhverjar áhyggjur á þessum tímapunkti eru synir mínir og þær áhyggjur snúast eingöngu um hversu lengi ég verð að vaska upp eftir jólamatinn því þegar því verki er lokið má taka upp gjafirnar. Þeim er blessuðum alveg sama um aðhaldsbrækur, Ajax og smá klístur á eldhúsgólfinu.
Ég ætla samt að skúra, þrífa klósettið og þurrka mesta rykið af og einnig mér finnst ómissandi að setja ilmandi hrein rúmföt á rúmin okkar á Þorláksmessu.
Mögulega í fyrsta skipti síðan ég fór að stjórna mínu eigin heimili er ég ekki að fara að missa kúlið á Þorláksmessu. Mögulega tekst mér í þetta sinn að njóta í stað þess að vera stressuð og leið yfir því að hafa ekki staðist væntingar sem enginn setur nema ég, jú og mögulega kaupmenn og allt verslunarsamfélagið.
Ég vona að mér hlotnist að eyða meiri tíma með þeim sem mér standa nærri, fjölskyldu og vinum og átti mig enn betur á að þetta hefur, og mun aldrei snúast um, glansandi klósett, niðurföll og loftaplötur eða svakalega dýrar gjafir sem setja strik í heimilisbókhaldið.
Gleðileg jól öll sem eitt, njótið ykkar og samverunnar við þá sem þið elskið og þykir vænt um.