Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Aldarafmæli Framsóknarflokksins

$
0
0

Elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins, Framsóknarflokkurinn, fagnar aldarafmæli þann 16. desember næstkomandi. Framsóknarmenn og konur hyggja á fögnuð í Þjóðleikhúsinu í tilefni af áfanganum. Þá hefur flokkurinn biðlað til félagsmanna um allt land að fagna afmælinu með veisludagskrá í héruðum og landsfjórðungum. Í tilefni af 100 ára afmæli Framsóknarflokksins mun framkvæmdastjórn flokksins bjóða til afmælishátíðar í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 16. desember. Hátíðardagskráin mun hefjast kl. 18.30. Þá segir á vef flokksins að ítarlegri dagskrá verði auglýst á næstu dögum og að kvöldið verði blanda af skemmtun og fræðslu.

Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins, skrifar pistil í tilefni aldarafmælisins á vefsvæði flokksins. Hann segir áfangann merkustu tímamót flokksins. „Slíkt er einstakt í sögu flokks og þjóðar að stjórnmálaflokkur nái slíkum áfanga og sé enn meginstoð í lýðræðislegu kerfi lands- og sveitarstjórna á Íslandi. Hafi fylgt þjóðinni í gegnum tíma mikilli umbrota í sögu hennar og verið við stjórnvölinn stóran hluta þess tíma og tekið þátt í að leggja þannig grunn að því góða samfélagi sem við eigum hér á Íslandi. Slíkt hefði ekki verið hægt nema fyrir þann mikla félagsauð sem Framsóknarflokkurinn hefur alltaf átt í sínum flokksmönnum sem staðið hafa með flokknum sínum í gegnum þykkt og þunnt. Það er máttur hinna mörgu.“

Jón segir að miðað við þann kraft og félagsauð sem hann þekki meðal flokksfélaga sinna búist hann ekki við öðru en að veisluhöldin verði glæsileg.

Framsóknarflokkurinn var stofnaður á Alþingi 16. desember árið 1916. Í fyrstu var aðeins um þingflokk að ræða en síðar var honum breytt í formlega fjöldahreyfingu með flokksfélögum og félagsstofnunum. „Uppruna flokksins má rekja til tveggja hreyfinga sem höfðu mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag á fyrstu árum aldarinnar þ.e. samvinnuhreyfingarinnar og ungmennafélaganna. Þessi samtök börðust m.a. fyrir almennum framförum og umbótum í landinu, aukinni menntun og atvinnurekstri sem sem tryggði mönnum sannvirði fyrir vöru og vinnu. Þessi hugsjónalegi bakgrunnur hafði mikil áhrif á stefnu flokksins og gerir enn í dag,“ segir á söguvef flokksins.

Flokkurinn varð til við samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda skömmu eftir kosningar að hausti 1916. Þegar flokkurinn var stofnaður geisaði heimsstyrjöldin fyrri með miklum truflunum á utanríkisverslun. Konur og verkamenn höfðu öðlast kosningarétt árið áður. Kosningaaldur hafði um leið verið lækkaður úr 30 árum í 25 ár.

Framsókn starfaði aðeins sem þingflokkur til 1930 en árið 1933 var Samband ungra Framsóknarmanna stofnað.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283