Fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fram á Alþingi á morgun. Stjórnendur landspítalans hafa verið upplýstir um hvað þeirra bíður í frumvarpinu og hafa þegar ákveðið að leita til heilbrigðisráðherra eftir tillögum um niðurskurð í rekstri spítalans.
Framhaldsskólarnir eru enn sveltir líkt og verið hefur rétt eins og háskólarnir og skólakerfið allt. Framlög til samgöngumála verða enn langt frá því að fullnægja þörfinni á viðhaldi og uppbyggingu vegamál um allt land ef ekki verður gripið til ráðstafana.
Forystumaður sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hótar enn frekari niðurskurði í framlögum til velferðarkerfisins ef þingið fylgir ekki þegjandi og hljóðalaust stefnu hægriflokkanna í fjármálum ríkisins.
Á þessu hefur strandað í stjórnarmyndunarviðræðum. Vinstri græn hafa í þeim lagt áherslu á að fjármagna rekstur velferðarkerfisins og á innviðum samfélagsins með öruggum tekjum. Aðrir flokkar hafa neitað okkur um það. Það verður ekki útskýrt sem samskiptagjá milli flokka og einstaklinga heldur er um að ræða ólíkar pólitískar áherslur.
Annað hvort fjármögnum við heilbrigðis- velferðar- og menntakerfið núna, eða því verður endanlega rústað.
Um það verður næsta ríkisstjórn mynduð.