Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Önnur tilraun til fimm flokka stjórnar – Birgitta byrjar á erfiðum málum

$
0
0

Stjórnarmyndunarviðræður fimm flokka stjórnar Pírata, VG, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar munu hefjast á erfiðum úrlausnarmálum samkvæmt Birgittu Jónsdóttur, umboðsmanni Pírata til stjórnarmyndunar. Þetta kom fram í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.

Birgitta fékk umboð til stjórnarmyndunar fyrir helgi. Að Píratar fari nú með stjórnarmyndunarumboð varð tilefni til umtalsverðrar gremju meðal Viðreisnar. Þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Benedikt Jóhannesson og Þorsteinn Víglundsson, þingmenn Viðreisnar, fundu sig öll knúin til að gagnrýna forseta fyrir að veita Pírötum umboðið. Það hefur ekki verið neitt launungarmál að Viðreisn hefur lítinn áhuga á að starfa með Pírötum.

Birgitta segir í viðtali við Morgunútvarpið að Píratar hafi um helgina fengið á sinn fund fulltrúa fjármálaráðuneytisins til að fara yfir ríkisfjármálin. „Síðan hefur maður verið að spjalla við fólk úr þessum ólíku flokkum og reyna að fá á tilfinninguna hvernig fólk sér fyrir sér að við getum farið í þessa vinnu saman,“ sagði Birgitta við þáttastjórnendur Rásar 2. Birgitta sagði Pírata nálgast þessa stjórnarmyndun meira frá miðjunni og reyna þannig að draga saman vinstri og hægri. „Það er ekki eins og við séum að byrja með tómt blað og við ætlum að reyna að vinna þetta út frá þannig grunni að þeir sem setjast við þetta borð eru á jafningagrunni.“

Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn á þingi sé miðað við atkvæðamagn. Umboðið fær flokkurinn í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, máttu skila umboðinu eftir að hafa reynt allar leiðir til þaula. „Við munum fyrst og fremst fara strax í erfiðu málin, þannig að það liggi þá strax fyrir hvort við getum náð saman eða ekki,“ segir Birgitta. Hún segist finna fyrir tímaþröng. „Já, auðvitað og auðvitað tekur maður þessari ábyrgð mjög alvarlega og þess vegna er maður í vinnunni alla helgina að reyna að undirbúa þetta sem best. En það sem mér finnst miklu mikilvægara en að setja aukna pressu er að þetta sé gert vel, að þetta sé gert þannig að fólk upplifi traust, og fólk upplifi að það sé að fara að framkvæma ólíkar stefnur á þann veg að ríkisstjórnin haldist. Það er alveg tilgangslaust að setja saman ríkisstjórn ef maður hefur ekki tilfinningu fyrir því að þetta starf muni ganga vel út kjörtímabilið,“ sagði Birgitta.

Aðspurð um hverju það breyti að Píratar hafi umboð til ríkisstjórnarmyndunar taldi Birgitta það ekki mikla breytingu. „Nema bara það að það er þá kominn aðeins meiri þrýstingur um það fari að koma í það minnsta einhver ákvörðun um það að flokkar ætli sér að fara í alvöru stjórnarmyndunarviðræður.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283