Sameiginleg yfirlýsing Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu vegna Brúneggja fer hörðum orðum um matvælaeftirlit MAST en nefnir Brúnegg ekki á nafn. Þvert á móti er vitnað til Brúneggja sem „tiltekins eggjaframleiðanda“.
Neytendasamtökin sameinast því Samtökunum verslunar og þjónustu um gagnrýni á eftirlit en sneiða framhjá því að nefna brotlegt fyrirtæki á nafn. „Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós,“ segir í tilkynningu Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu.
Í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um Brúnegg kom var bent á að MAST hafði áður verið dæmt fyrir að upplýsa neytendur. Í frétt RÚV af málinu er haft eftir forstjóra Matvælastofnunar að nauðsynlegt sé að skýra hvaða heimildir opinberir aðilar hafi til að upplýsa neytendur um mögulegt svindl. Matvælastofnun (MAST) var dæmd skaðabótaskyld af Héraðsdómi Reykjavíkur í júní fyrir að upplýsa neytendur um að ekkert nautakjöt væri í nautabökum frá matvinnslufyrirtækinu Gæðakokkum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í júní og hefur Matvælastofnun áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.
„Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Mynd úr vörulista Ó. Johnson & Kaaber
Vissulega er rétt að Matvælastofnun upplýsti ekki opinberlega um brot fyrirtækisins Brúneggja. Það vekur þó furðu að Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, taki þátt í þeim leik að veikja eftirlit á Íslandi með því að beina gagnrýni í Brúneggjamálinu gegn MAST eingöngu en sneiða framhjá því að nefna hið brotlega fyrirtæki á nafn. Þá er vert að hafa í huga að tvær ríkisstofnanir bera ábyrgð á því að Brúneggjamálið er nú upplýst. RÚV sem er opinbert hlutafélag byggir fréttaumfjöllun sína á skýrslu matvælaeftirlits á vegum hins opinbera.
Sjá einnig: Brúnegg – fullt hús matar!
Aðildarfyrirtæki Samtaka verslunar og þjónustu hafa í áratug keypt og selt Brúnegg sem vistvæn egg án þess að hafa sjálf sinnt gæðaeftirliti með þeirri vöru sem verslunin selur. Hvers vegna Neytendasamtökin sjá það sem hlutverk sitt að sneiða framhjá þeim hluta til að grafa enn frekar undan því smánarlega litla eftirliti sem er hér á landi fyrir neytendur er óskiljanlegt.
Hér mættu Neytendasamtökin spyrja sjálf sig hvers vegna þau sinna því ekki betur að krefja eftirlitsaðila um upplýsingar? Hvers vegna sinna Neytendasamtökin ekki því hlutverki betur að ganga á Samtök verslunarinnar um að gæðaeftirliti sé nú ekki ábótavant?
Þetta er vægast sagt furðulegt hjónaband fulltrúa neytenda annars vegar og kaupmanna hins vegar.
Sjá einnig: Garðyrkjubændur hætta notkun vistvænna staðlamerkinga
„Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.“
Vert er þó að hrósa Neytendasamtökunum og SVÞ fyrir fyrirspurn sína að umfjöllun lokinni til MAST. Það má þá kannski vænta þess að félagsmenn Neytendasamtakanna fái eitthvað fyrir félagsgjöldin næstu dagana?
„Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum.
Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er við kemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.“
Brúneggjamálið er enn eitt dæmið um þá lensku Íslendinga að segja bara „ekki ég.“ Matvælaeftirlit hér á landi skortir eftirfylgni og almennt skortir fólki að skilja hver hinn raunverulegi umbjóðandi þeirra er. Þetta sést í hverri rannsóknarskýrslu Alþingis á eftir annarri. Röð einstaklinga eru kallaðir til fyrir nefndir og óskað útskýringa en allir benda á að einhver annar hefði bara átt að grípa inn. Brúneggjamálið hefur öll hin sömu einkenni. Það kemur þó spánskt fyrir sjónir að þeir sem þó gerðu mest MAST og svo síðar RÚV séu nú enn einn blóraböggullinn fyrir baráttu sérhagsmunasamtaka verslunarinnar gegn reglum og eftirliti.
MAST var í ferli að fá Brúneggjum lokað. RÚV afhjúpaði málið eftir að hafa fengið aðgengi að vinnu MAST.
Þetta er ekki saga glæstra sigra eftirlits einkaaðila og né Neytendasamtakanna þegar kemur að eftirlit með vörunni sem seld er.
Lærdómurinn er að krefjast aukins fjármagns til eftirlits, skýrari regla og svo auðvitað að skrifstofa Neytendasamtakanna sýni meira frumkvæði í að fylgja hagsmunum félagsmanna eftir.
Lærdómurinn er ekki minna eftirlit né að Neytendasamtökin eigi að ganga í lið með verslunarmönnum sem árum saman seldu svikna vöru og hafa að engu þurft að svara fyrir það hvernig þeir ætla að bæta neytendum fyrir.