Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Níu bækur tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna

$
0
0

Níu bækur voru í gær tilnefndar til Fjöruverðlaunanna – bókmenntaverðlauna kvenna. Tilnefningarnar voru tilkynntar á aðalsafni Borgarbókasafnsins í miðbæ Reykjavíkur. Fjöruverðlaunin bókmenntaverðlaun kvenna voru afhent í fyrsta sinn vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaununum er ætlað að vekja athygli á og hampa bókum kvenna.

Í flokki fagurbókmennta voru tilnefndar bækurnar Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Kompa eftir Sigrúnu Pálsdóttur og Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur.

bok2eylandÍ rökstuðningi dómnefndar segir um Eyland að Sigríður dragi lesandann inn í „martraðarkennda framvindu með snarpri og hugvitsamlegri frásögn af Íslandi sem misst hefur allt samband við umheiminn. Hvað gerist þegar norræn eyja úti í ballarhafi einangrast algjörlega? Hvaða lögmál taka völdin í slíku ástandi? Sigríður heimfærir dystópíuformið á okkar eigið samfélag og setur þannig hið kunnuglega og hversdagslega í nýtt, ógnvekjandi og ónotalega trúverðugt samhengi.“

 

asssp1600Þá segir um Kompu hennar Sigrúnar að hér sé á ferðinni „margslungin og áhrifarík skáldsaga þar sem hárnákvæmur stíll og hugvitsamleg uppbygging mætast. Þótt sagan sé sögð frá sjónarhóli ungrar fræðikonu og snúi að glímu hennar við sögulegar heimildir fjallar hún ekki síður um mörk raunveruleika og túlkunar. Undir yfirborðinu ólga spurningar um hversu áreiðanlegar heimildirnar um okkar eigin tilveru séu í raun, hvað af því sem við upplifum hafi raunverulega gerst og hvað sé einungis túlkun okkar sjálfra.“

raddirurhusiloftskeytamannsinsUm Raddir úr húsi Loftskeytamannsins eftir Steinunni segir í röksemd dómnefndar: „Hinn langi og skemmtilegi titill Raddir úr húsi loftskeytamannsins er snjöll vísun í þann fjölradda sagnaheim sem skáldverkið geymir. Þar er að finna sögur um sérstakar en þó trúverðugar manneskjur sem reyna að mynda tengsl í oft einmanalegri tilveru.“

Þrjár bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rit almenns eðlis.

Heiða – fjalldalabóndinn eftir Steinunni Sigurðardóttur, Hugrekki – saga af kvíða eftir Hildi Eiri Bolladóttur og Barðastrandarhreppur – göngubók eftir Elvu Björgu Einarsdóttur.

elva9709Um Barðastrandarhrepp göngubók eftir Elvu Björgu segir dómnefndin. „Það er löngun til að vökva ræturnar sem rekur Elvu Björgu Einarsdóttur af stað í göngu um æskuslóðirnar í Barðastrandarhreppi. Áratug síðar er orðin til bók með fjölmörgum gönguleiðum inn til fjalla eftir hreppnum endilöngum og auk þess lýsingum á göngu eftir allri strandlengjunni og sérhverjum bæ sveitarinnar.“

Heiða, fjalldalabóndinn eftir Steinunni fær eftirfarandi rökstuðning fyrir tilnefningunni. „Heiða, fjalldalabóndinn er saga ungrar konu sem fer eigin leiðir í lífi og störfum. Heiða er einyrki á afskekktu sauðfjárbúi og sem vitundarmiðja og sögumaður frásagnarinnar lýsir hún daglegum og árstíðabundnum störfum á búinu, en einnig því hvernig hún leiðist út í sveitarstjórnarstörf vegna andstöðu sinnar við áform fyrirtækisins Suðurorku um Hólmsárvirkjun í Skaftárhreppi, enda ljóst að slík virkjun myndi gerbreyta náttúrufari héraðsins. Bústörfin og lífsbaráttan í afskekktu byggðarlagi eru þungamiðja frásagnarinnar, en einnig er náttúran og mikilvægi þess að standa vörð um hana gegnumgangandi þema.“

hugrekki-1Um Hugrekki Hildar Eirar segir dómnefndin að hér sé á ferðinni frásögn höfundar af þráhyggju og kvíða. „Frásögnin er persónuleg en hefur jafnframt almenna skírskotun sem margir geta eflaust tengt við eigin reynsluheim. Í bókinni lýsir höfundur ýmsum birtingarmyndum kvíða, áráttuhegðunar og þráhyggju og þeim áhrifum sem þetta hefur haft á líf hennar og líðan. Hún lýsir því hve erfitt getur reynst að átta sig á einkennunum sem fylgja andlegum kvillum en leggur áherslu á að smám saman sé hægt að læra að halda þeim niðri.“

Í flokki barna- og unglingabókmennta eru tilnefndar Doddi: Bók sannleikans! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur en bókin er myndskreytt af Elínu Elísabetu Einarsdóttur. Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur sem og Úlfur og Edda: Dýrgripurinn en höfundur texta og mynda er Kristín Ragna Gunnarsdóttir.

bobe2023Í rökstuðningi dómnefndar fyrir tilnefningu Dodda: Bók sannleikans eftir Hildi Knútsdóttur segir: „Söguhetjan í Dodda: Bók sannleikans ákveður að skrifa þunna bók um sannleikann, eða eigið líf. Honum finnst bækurnar sem fullorðnir vilja að hann lesi, flestar vera hnausþykkar, verulega barnalegar eða yfirþyrmandi ævintýralegar og fjalla um eitthvað sem gerðist í fornöld. Doddi: Bók sannleikans er einmitt ekki þannig. Hún er í dagbókarformi, gerist í íslensku, fjölmenningarlegu umhverfi og fjallar um venjulega krakka í efri bekkjum grunnskólans.“

Þá segi um Íslandsbók barnanna að bókin sé afar falleg og fræðandi bók. „ Í formála tala höfundar um að landið sé dýrmætt og benda meðal annars á að það þurfi að passa landið vel og að nóg pláss sé fyrir alla. Texti bókarinnar er vel skrifaður, fræðandi og kaflarnir hæfilega langir. Fjallað er meðal annars um náttúruna, birtuna og myrkrið, dýralíf, gróðurfar og mannlíf. Í bókinni er farið í gegnum árstíðirnar og skiptist hún í vor, sumar, haust og vetur.“

doddiÚlfur og Edda fær eftirfarandi umsögn: „Sagan af Úlfi og Eddu fer með lesendur í æsispennandi ævintýri þar sem skemmtilegum hversdagsheimi barna er blandað saman við ævintýraheim norrænnar goðafræði á nýstárlegan og frumlegan hátt. Um leið eru þekktir atburðir úr íslenskri menningu gerðir afar aðgengilegir og forvitnilegir án þess að það sé nokkur afsláttur gefinn af skemmtanagildi bókarinnar. Höfundur gefur lesendum glænýja sýn á margar þekktar persónur goðheima og færir þær nær okkar hversdagslegu tilveru og samtíma.“

Dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2017 skipa:

Fagurbókmenntir
Bergþóra Skarphéðinsdóttir, íslenskufræðingur
Guðrún Lára Pétursdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning
Salka Guðmundsdóttir, leikskáld og þýðandi

Fræðibækur og rit almenns eðlis
Erla Elíasdóttir Völudóttir, þýðandi
Helga Haraldsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
Sigurrós Erlingsdóttir, íslenskukennari

Barna- og unglingabókmenntir
Arnþrúður Einarsdóttir, kennari
Júlía Margrét Alexandersdóttir, blaðamaður
Þorbjörg Karlsdóttir, bókasafnsfræðingur


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283