Hvernig er hægt að stuðla að friði með því að týna ólífur? Þessari spurningu og fjöldamörgum öðrum svara Gunnar Axelsson og Falasteen Abu Libdeh á friðarfundi á vegum Félagsins Ísland-Palestína í Hafnarhúsinu í kvöld, 8. desember klukkan 20.00.
Síðastliðin ár hafa fjölmargir íslenskir sjálfboðaliðar á vegum félagsins starfað við ólífutínslu í Palestínu. Stór hópur fór frá Íslandi á vegum félagsins í október síðastliðnum. Gunnar og Falasteen kynna starfið við ólífuuppskeruna, sýna myndir og tala um friðsamleg mótmæli með ólífutínslu.
Félagið Ísland-Palestína var stofnað 29. nóvember 1987. Markmið félagsins hefur frá upphafi verið að stuðla að jákvæðum viðhorfum til ísraelsku og palestínsku þjóðanna og vinna gegn hvers kyns aðskilnaðarstefnu. Félagið hefur stutt baráttu Palestínumanna gegn hernámi og rétt flóttafólks til að snúa heim. Þann 18. maí 1989 náðist samstaða á Alþingi um ályktun sem fól í sér stuðning við öll meginmarkmið félagsins, tilverurétt Ísraelsríkis og þjóðarréttindi Palestínumanna.
Stríð og friður í Hafnarhúsi
Í Hafnarhúsi standa nú þrjár sýningar þar sem listamennirnir Yoko Ono, Erró og Richard Mosse takast á við stríðsátök og vonir um heimsfrið. Af þessu tilefni býður safnið ólíkum félagasamtökum og hópum sem standa vörð um frið og mannréttindi að kynna málstað sinn.
Friðarfundirnir fara fram á íslensku og eru öllum opnir án endurgjalds. Listasafnið og Kaffi & matstofa Frú Laugu eru opin til kl 22 á fimmtudagskvöldum.
Yoko Ono berst fyrir friði með aðferðum konseptlistarinnar þar sem hún vekur fólk til umhugsunar og hvetur til aðgerða. Viðamikil sýning á verkum hennar, YOKO ONO: EIN SAGA ENN…, er nú uppi í listasafninu auk þess sem Friðarsúla listakonunnar lýsir upp vetrarkvöldin frá Viðey.
Málverk Errós endurspegla söguleg og ímynduð átök þar sem hann skeytir saman fundnu efni úr myndheimi áróðurs, satíru og skops. Á sýningu hans, Stríð og friður, eru valin verk úr safneignum Listasafna Reykjavíkur og Íslands.
Richard Mosse sýnir ljósmyndir og kvikmyndainnsetningu, Hólmlenduna, sem byggist á ferðum hans um stríðshrjáð héruð Kongó. Myndefnið er fangað á innrauðar filmur sem hannaðar voru í þeim hernaðarlega tilgangi að koma upp um felustaði og felubúninga.