Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Íslenskar bækur um fortíð, framtíð og smákökur í nútíð

$
0
0

Það er mikið og gott úrval af íslenskum verkum sem koma út fyrir jólin ár. Kvennablaðið hafði samband við útgefendur og bað þá um að senda okkur uppáhalds bækurnar sínar.  Í samstarfi við forlögin munum við birta kynningar um nýjar íslenskar bækur í aðdraganda jólanna.

Hér má finna þrjár ólíkar en stórgóðar bækur sem eiga það sameiginlegt að vera íslenskar í húð og hár, eða á maður að segja kápu og kjöl?

Nýja Breiðholt er fyrsta skáldsaga Kristjáns Atla. Bókin er skuggaleg og hörkuspennandi framtíðarskáldsaga sem gerist í Reykjavík. Fullkomin bók til að lesa á jóladag ef maður vill ekki verða of afslappaður í hangikjöts- og konfektmóki.

Brú yfir boðaföllin er sjálfshjálparbók og ævisaga þar sem Steinunn Ósk, höfundur bókarinnar, gerir upp ofbeldi sinnar fortíðarinnar með von um að geta verið stuðningur við aðra. Holl lesning sem lýsir leiðina að bjartari framtíð.

Stóra smákökubókin er fullkomin gjöf fyrir þann sem hefur unun af því að stússast í bakstri. Það er enginn efi á því að ef þessi fer í jólapakkann að þá muni allir græða á afrakstrinum.

 

STÓRA SMÁKÖKUBÓKIN eftir Fanney Rut Elínardóttur

Ilmur af nýbökuðum smákökum stígur upp frá heimilum landsmanna þessa dagana og ilmurinn er líklega hvergi betri en hjá henni Fanneyju Elínardóttur, höfundi Stóru smákökubókarinnar. „Jú það passar, við erum búin að vera ansi dugleg að baka“, segir Fanney um smákökubaksturinn. „Ég er alin upp á smákökuheimili og það er hann pabbi sem sá og sér enn um baksturinn á því heimilinu. Spesíur, súkkulaðibitakökur, M&M kökur og ýmislegt fleira var og er enn bakað fyrir hver einustu jól. Þannig að það má segja að ég, kannski eins og flestir Íslendingar, alist við smákökubakstur í desember.“ stora-smako%cc%88kubokin

„En við höfum tekið þetta einu skrefi lengra. Við bökum nefnilega líka á milli jóla og nýárs. Þegar við systkinin vorum yngri reyndi pabbi að banna át á smákökum þangað til rétt yfir jólin. Þannig reyndi hann nýja felustaði á hverju ári þar til hann gafst upp að lokum og bauð okkur í fjölskyldunni og gestum og gangandi að fá sér kökur þó ekki væru komin sjálf jólin. Það er líka miklu skemmtilegra að njóta bakstursins jafn og þétt í desember. Þess vegna fórum við að baka oftar í desember og á endanum tókum við upp á því að henda í eina eða tvær sortir á milli jóla og nýárs líka. Það er kannski besti tíminn til að stunda þetta smákökusport því þá er erillinn í desember að baki og meiri afslöppun möguleg. Hvað er þá betra en nýbakaðar smákökur?“ spyr Fanney að lokum.

Í Stóru smákökubókinni er að finna þessar gömlu góðu smákökur, nýjar og spennandi kökur og kökur sem eru sykurlausar og jafnvel hveitilausar. Það því óhætt að fullyrða að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Stóru smákökubókinni.

Hér að neðan er uppskrift af afar ljúffengri smáköku, sítrónuköku. Orðið á götunni er að innan fárra ára verði hún orðin „standard“ á hverju heimili fyrir jólin. Nýju lakkrístopparnir jafnvel!

sitronukokur

Sítrónukökur

– Fallegar og einstaklega ljúffengar kökur. Uppskriftin gefur um 35 kökur.

115 g smjör

225 g sykur

½ tsk vanilludropar

1 stk egg

börkur af 1 sítrónu, rifinn

1 msk sítrónusafi (helst nýkreistur)

¼ tsk salt

¼ tsk lyftiduft

170 g hveiti

60 g flórsykur (fer ekki í sjálft deigið)

Hitið ofninn í 180°C

fanney-rutBlandið saman smjör og sykur þar til blandan verður létt og ljós, bætið við vanilludropum, eggi, sítrónuberki og sítrónusafa. Skafið niður eftir hliðunum ef þarf og hrærið vel. Blandið öllum þurrefnunum (fyrir utan flórsykurinn) út í hægt og rólega. Passið að allt blandist vel saman.

Setjið flórsykur í skál eða disk, rúllið upp í litlar kúlur (um ein stór teskeið af deigi) og veltið upp úr flórsykrinum og raðið á ofnplötu. Hafið gott bil á milli.

Bakið í 9-11 mínútur, eða þar til kanturinn á kökunum er ljósbrúnn og þær eru ekki lengur glansandi.

Takið úr ofninum og leyfið að standa á plötunni í u.þ.b. 3 mínútur áður en þær eru settar afsíðis til að kólna.

Hér má sjá aðra umfjöllun um Stóru smákökubókina ásamt tveimur uppskriftum í viðbót.

Stóra smákökubókin er gefin út af Drápu forlagi

Facebook síða Drápu forlags

 

bru-yfir-bodafo%cc%88llin

BRÚ YFIR BOÐAFÖLLIN eftir Steinunni Ósk

Brú yfir boðaföllin er bók um von, andlegan bata og þær aðferðir sem gerðu Steinunni Ósk, höfundi bókarinnar, kleift að sigrast á æskuminningum sem mörkuðust  af kynferðisofbeldi, óhóflegri drykkju og erfiðum heimilisaðstæðum. Í bókinni deilir Steinunn þeim aðferðum sem hafa hjálpað henni að byggja upp brotna sjálfsmynd og finna þann styrk og þá gleði sem einkennir líf hennar í dag. Bókin er uppgjör við erfiða fortíð og leiðarvísir að bjartari framtíð sem vonandi getur orðið þolendum kynferðisafbrota hvatning til að skila skömminni þangað sem hún á heima.

Þennan sama dag kom bókin út á punktaletri sem er, að því er best er vitað, í fyrsta sinn sem það er gert samhliða almennri útgáfu.

Fanney Þórðardóttir, dóttir höfundar, sá um hönnun og umbrot.

Brú yfir boðaföllin er gefin út af Óðinsauga útgáfu

Facebook síða Óðinsauga útgáfu

Steinunn Ósk höfundur Brú yfir boðaföllin

Steinunn Ósk höfundur Brú yfir boðaföllin

 

 

NÝJA BREIÐHOLT eftir Kristján Atla

Hvað myndum við gera ef allt færi á versta veg, ef Ísland myndi einangrast frá umheiminum og innviði hins siðmenntaða samfélags myndu hrynja á einni nóttu? Hvernig myndum við bregðast við og hverjir myndu erfa landið?

screen-shot-2016-12-08-at-11-27-42Þessum spurningum leitast rithöfundurinn Kristján Atli við að svara í fyrstu skáldsögu sinni, Nýja Breiðholt. Auk þess að vera greining á nútímasamfélagi fléttast söguþættir saman í nýstárlega spennusögu þar sem hver er sjálfum sér næstur og blóðhefndin ríkir að sið hinna fornu Íslendingasagna. Nýja Breiðholt er óvenjuleg og spennandi skáldsaga sem kannar hvert íslenskt nútímasamfélag stefnir með því að skoða hvað við eigum á hættu á að glata.

Í Reykjavík þrjátíu árum eftir flóttann mikla þar sem helmingur þjóðarinnar flúði land og skildi eftir borg án stjórnkerfis, skipulags og yfirvalda þurfa þau sem eftir sitja að reyna að bjarga sér með því sem þau hafa, en þurfa að berjast fyrir sínu og jafnvel útdeila eigin réttlæti. Eftir flóttann hafa innviðir borgarinnar smám saman brotnað niður og einni kynslóð síðar er lítið um nútímaþægindi eins og rafmagn, bifreiðar og þjónustustörf. Reykvíkingum hefur verið varpað aftur á miðaldir og þar mæta þeim ýmsar áskoranir við að reyna að koma upp skikkanlegu samfélagi á nýjan leik.

Í þessu umhverfi gengur raðmorðingi laus. Hann rænir ungum konum úr Breiðholtinu og þegar hann nemur hina ungu Mónu á brott hrindir hann óafvitandi af stað atburðarás sem mun breyta landslagi hinnar nýju Reykjavíkur. Númi, einstæður faðir Mónu þarf að leggja allt í sölurnar til að bjarga henni og saga hans fléttast saman við sögu hinnar undarlegu Brittu sem hefur sérstakan áhuga á máli feðginanna. Saman steypa þau öllu á annan endann en gjörðir þeirra ógna viðkvæmum stöðugleika borgarinnar og gætu leitt til blóðugra átaka valdaafla á milli.

Útgáfuteiti Nýja Breiðholts

Útgáfuteiti Nýja Breiðholts

„Hér var einu sinni fólk. Út um allt, fólk. Búið í hverju húsi, bílar í hverri götu, svo mikið að stundum stoppaði allt. Bílar sátu fastir, fólk stóð í biðröðum, tróð sér jafnvel þúsundum saman eitthvert til að horfa á tónleika eða íþróttir. Samvera var það dýrmætasta sem hægt var að njóta en það áttaði sig enginn á því fyrr en fólkið var farið. Nú söknum við bara, það er það eina sem við gerum. Við söknum.“

Hvað myndir þú gera ef veröldin í kringum þig myndi hrynja á morgun? Velkomin í Nýja Breiðholt, farðu varlega!

Nýja Breiðholt er gefin út af Draumsýn bókaforlagi

Facebook síða Draumsýnar bókaforlags

______

Umfjöllun unnin í samstarfi við : Drápa forlag, Draumsýn bókaforlag og Óðinsauga útgáfa


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283