Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og bróðir fyrrverandi stjórnarformanns Glitnis, tók 500 milljónir króna út úr Sjóði 9 hjá Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. Feðgarnir forðuðu báðir miklum fjármunum úr Glitni fyrir hrun. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar í dag.
„Úttekt úr safni – millif[ært]. til Flórída“ er skýringin við færslu Benedikts Sveinssonar á 400 milljónum króna úr Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. 1. október var gerð önnur færsla úr bankanum upp á hundrað milljónir króna með skýringunni „sj 9 selt og í usd“, sem gefur til kynna sama feril og í fyrri færslunni,“ segir í umfjöllun Stundarinnar. „Á árunum eftir síðustu aldamót var Benedikt umsvifamikill fjárfestir. Bjarni Benediktsson, sonur hans, var meðal annars fulltrúi fyrir hans hönd og hlutabréfa hans í olíufélaginu N1 og móðurfélagi þess, BNT ehf. Bjarni var stjórnarformaður beggja fyrirtækja þar til í árslok 2008 þegar hann hætti. Hann var því bæði þingmaður og umsvifamikill í viðskiptum með föður sínum á sama tíma.“
Benedikt er að finna í Panamaskjölunum en Stundin fjallaði ítarlega um félög Benedikts sem finna má í Panamaskjölunum í maí síðastliðnum. Þá hafði þegar komið fram að Bjarni Benediktsson átti félag á Seychelles-eyjum. Í frétt Stundarinnar frá maí síðastliðnum segir að Benedikt hafi stofnað „fyrirtæki á Tortólu í gegnum panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Fyrirtækið heitir Greenlight Holding Luxembourg S.A. og settist Benedikt sjálfur í stjórn þess ásamt eiginkonu sinni og móður fjármálaráðherra, Guðríði Jónsdóttur. Félagið var stofnað árið 2000 og var hætt að greiða umsýslugjöld af því til Mossack Fonseca árið 2010. Félagið var því virkt þar til eftir hrunið árið 2008.“
Á sínum tíma bauðst Skattrannsóknarstjóra að kaupa gögn með nöfnum Íslendinga með eignir á lágskattasvæðum. Bjarni Benediktsson fundaði þá með skattrannsóknarstjóra um kaup á gögnum um Íslendinga í skattaskjólum sem meðal annars höfðu að geyma upplýsingar um hann sjálfan, fjölskyldu og viðskiptafélaga hans. Fjármálaráðuneytið setti kaupunum skilyrði sem reyndist erfitt að uppfylla. „Nafn fjármálaráðherrans var meðal gagnanna í pakkanum sem skattrannsóknarstjóra bauðst,“ segir í frétt sem fjölmiðillinn Reykjavik Media birti þann 3. apríl síðastliðinn.
Þann 27. nóvember árið 2014 vakti Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, máls á því í umræðum á Alþingi að hugmyndir hefðu verið uppi um að kaupa gögn með upplýsingum um skattaskjól.
„Ég hef átt fund með Skattrannsóknarstjóra vegna þessa máls og ráðuneytinu hefur jafnframt borist erindi fyrr á árinu frá Skattrannsóknarstjóra í tilefni af upplýsingum sem embættinu standa til boða,“ sagði Bjarni í svari sínu við spurningu Katrínar og bætti við: „Á fundi okkar Skattrannsóknarstjóra var farið yfir málið frá öllum hliðum og þar kom fram að í sjálfu sér væri ekkert sem kæmi í veg fyrir það að Skattrannsóknarstjóri gæti sótt þessar upplýsingar.“
Afskipti Bjarna Benediktssonar að kaupum Skattrannsóknarstjóra á gögnum um eignir Íslendinga erlendis eru rakin hér. Í umfjöllun Stundarinnar kom fram að ráðuneytið hefði sett fram skilyrði sem töfðu málið og minnt var á að Bjarni Benediktsson lagði mikinn kraft í að láta semja sérstakar griðareglur fyrir þá sem ættu falið fé í skattaskjólum.
„Þann 3. desember bárust þau skilaboð frá ráðuneytinu að það væri tilbúið að tryggja þær fjárheimildir sem nauðsynlegar væru að tveimur skilyrðum uppfylltum. Annars vegar mætti ekki gera samninga við aðra en þá sem væru „til þess bærir“ og hins vegar þyrftu greiðslur fyrir upplýsingarnar að ráðast af hlutfalli innheimtra skattkrafna sem af þeim leiddi.
Skattrannsóknarstjóri greindi ráðuneytinu frá því að líklega yrði ekki unnt að uppfylla annað hinna tveggja skilyrða og þann 27. janúar 2015 óskaði embættið jafnframt eftir því að ráðuneytið skýrði betur hvaða skilning bæri að leggja í inntak hins skilyrðisins,“ segir í frétt Stundarinnar af málinu.
Í kjölfarið gagnrýndi Bjarni Benediktsson skattrannsóknarstjóra harðlega í fjölmiðlum. „Mér hefur þótt þetta mál vera að þvælast hjá embættinu alltof lengi og að ekki hafi allt staðist sem þaðan hefur komið,“ sagði ráðherrann í viðtali við RÚV þann 7. febrúar. „Auðvitað getur það ekki komið til greina að við ætlum að fara að greiða fyrir gögn af þessum toga með ferðatöskum af seðlum til einhverra huldumanna.“
Bjarni sagði jafnframt að málið strandaði „svo sannarlega ekki á fjármálaráðuneytinu“ en ljóst er að þegar þetta var haft eftir ráðherranum var skattrannsóknarstjóri í biðstöðu vegna þess að bréfi embættisins til ráðuneytisins hafði ekki verið svarað. Bjarni varð því uppvís að því að segja almenningi ósatt í viðtali, sem er það sama og ritari Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir Sigmund fyrir. Sigmundur er þó ekki flokksfélagi ritarans og því virðast gilda aðrar reglur.
Bjarni lét sér ekki nægja að segja almenningi ósatt vegna kaupa Skattrannsóknarstjóra á gögnum um einstaklinga í skattaskjólum, þar sem nafn hans og fjölskyldumeðlima var að finna, heldur sagði hann Alþingi ósatt um málið. Í munnlegri skýrslu sem Bjarni flutti á Alþingi síðasta vor sagði hann að þegar skattrannsóknarstjóra hefði boðist að kaupa gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum hefði fjármálaráðuneytið „eingöngu spurt að því hvort skattrannsóknarstjóri teldi eitthvert gagn af því fyrir meginstarfsemi embættisins að fá gögnin keypt“ og „aldrei gert ágreining um verðið“.
„Vorið 2014 bauðst skattrannsóknarstjóra að kaupa gögn um skattaskjólsstarfsemi Íslendinga og þann 9. september sama ár barst fjármálaráðuneytinu formlegt erindi vegna gagnanna. Sama dag lagði Bjarni Benediktsson fram fjárlagafrumvarp ársins 2015 þar sem lagt var til að framlag til embættis skattrannsóknarstjóra lækkaði um 39,4 milljónir króna frá yfirstandandi ári, að frátöldum 11,3 milljóna launa- og verðlagsbótum. Þann 23. október fundaði svo Bjarni Benediktsson með skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra vegna mögulegra kaupa á gögnunum,“ segir í umfjöllun Stundarinnar um málið.
Ummæli Bjarna um að hann hafi ekki verið að þvælast fyrir eru því í algjörri andstöðu við raunveruleikann. Á mannamáli er slíkt kallað að hagræða sannleikanum eða einfaldlega að ljúga, enda setti ráðuneyti Bjarna Benediktssonar það sem skilyrði að greiðslur fyrir upplýsingarnar yrðu að ráðast af hlutfalli innheimtra skattkrafna sem af þeim leiddu.
Bjarni Benediktsson lét skattinum í té rangar upplýsingar um varnarþing Falson & Co. Hann hefur viðurkennt að hafa talið fyrirtækið skrásett í Lúxemborg. Þar af leiðir að annað hvort gaf hann skattinum rangar upplýsingar um fyrirtækið eða laug að almenningi þegar upp um málið komst. Við vitum einfaldlega ekki hvað hið rétta er. Þá hefur Bjarni sagt Alþingi ósatt og átt beinan þátt í að tefja kaup skattrannsóknarstjóra á mikilvægum gögnum sem vörðuðu hann sjálfan og fjölskyldu hans. Í tilraunum til þess tók Bjarni sig meira segja til og réðst opinberlega á skattrannsóknarstjóra og reyndi með því að grafa undan trausti almennings á verkum stofnunarinnar.
Hvað sagði Bjarni við þingið? „Við gerðum aldrei ágreining um verðið. Við gengum út frá því á sínum tíma að verðið yrði allt að fimmfalt það sem á endanum varð niðurstaðan og embættið bar hitann og þungan af öllum samskiptum vegna þessa máls og gerði vel í því að ná niðurstöðu sem hefur gagnast embættinu og þar með stjórnvöldum í þessari baráttu.“
Það er algjörlega ljóst að Skattrannsóknarstjóri lagði þann skilning í skilyrði fjármálaráðuneytisins að um athugasemd við verð á gögnum væri að ræða – enda gerð krafa um að endursamið yrði um verðið.
Í bréfi embættisins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 10. febrúar 2015 er skilyrðinu þannig lýst að fjármálaráðuneytið vilji að „mögulegt sé að skilyrða greiðslur til seljanda gagnanna við hlutfall af innheimtu“.