Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Útlendingastofnun hunsaði ítrekað neyðarköll hælisleitandans sem kveikti í sér

$
0
0

Hælisleitandinn sem kveikti í sjálfum sér hafði sýnt ítrekuð merki þess að vera svo langt leiddur af örvæntingu og vonleysi að þeir sem þekkja til málsins tala um að tímaspursmál hafi verið hvenær hann gripi til slíkra örþrifaráða. Skipulags- og áhugaleysi á aðstæðum hælisleitenda skapi andrúmsloft vonleysis meðal fólks sem hingað sækir.

Auglýsing

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að húsnæði Útlendingastofnunar í Víðinesi á þriðja tímanum síðastliðinn miðvikudag, en þar hafði hælisleitandi hellt yfir sig bensíni og kveikt í.  „Maðurinn, sem er illa brunninn, var fluttur á sjúkrahús, en ekki er vitað frekar um líðan hans á þessari stundu. Þetta var annað útkallið sem lögreglan sinnti í Víðinesi í dag, en í hádeginu hótaði annar hælisleitandi að skaða sjálfan sig. Ekki kom þó til þess, en maðurinn var fluttur á lögreglustöð á meðan unnið er í máli hans. Áfallateymi Útlendingastofnunar var kallað út til að hlúa að íbúum og starfsfólki í Víðinesi,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér frá íbúum Víðiness.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér, frá íbúum Víðiness. Íbúar eru mjög skelkaðir eftir atvikið og hugsi yfir því að ítrekaðar beiðnir um aðstoð til handa manninum hafi verið hunsaðar.

Maðurinn sem er frá Makedóníu hafði samkvæmt heimildum Kvennablaðsins sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis um nokkurn tíma. Vinir og kunningjar mannsins í Víðinesi höfðu um leið óskað þess að hann fengi aðstoð. Kvennablaðið veit til þess að öryggisverðir á staðnum og þjónustuteymi Útlendingastofnunar hafði borist ósk um að gripið yrði inn.

Viðmælendur blaðsins, hælisleitendur og fólk sem starfar með hópnum, er slegið vegna málsins. Öllum ber saman um að skipulags- og sinnuleysi hafi orðið til þess að maðurinn greip til slíkra örþrifaráða. Greina má þreytu meðal þeirra sem sinna málaflokknum.

Maðurinn sem er á þrítugsaldri hafði nýlega verið hafnað um landvist hér og átti von á að vera vísað úr landi. Íbúar Víðiness eru slegnir eftir atvikið sem ýtt hefur undir almennt vonleysi á staðnum. Í samtali við íbúa kemur fram að einangrunin sé því sem næst algjör. Íbúarnir fái mat sem sé líkt og skepnufóður, kaldur, ólystugur og einhæfur. Þá sé Víðines nokkuð úr leið þannig að nokkuð mál er að komast í samskipti við aðra en þá sem bíða hælis.

Hljóp um í ljósum logum

Atvikum er lýst þannig að hælisleitandinn hafi hellt yfir sig bensíni og kveikt í sjálfum sér innandyra. Hann hafi síðan í ljósum logum hlaupið út. Íbúarnir eru almennt í miklu áfalli eftir atvikið. Þá reynist mörgum erfitt að sjá að þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt hafi verið að í óefni stefndi, hafi ekki verið gripið inn. Í samtölum við íbúa kemur fram að þau upplifi algjört sinnuleysi um velferð sína. Hælisleitendur njóta ekki heilbrigðistryggingar og verða því að reiða sig á Útlendingastofnun fyrir alla heilbrigðisþjónustu. Biðin eftir aðstoð getur tekið margar vikur og raunar er heilbrigðisþjónusta aðeins aðgengileg í neyðartilvikum.

Áfallahjálp í skötulíki – hælisleitendur urðu að þýða hvort fyrir annan

Sinnuleysi yfirvalda gagnvart íbúum Víðiness hafi svo endanlega verið staðfest þegar áfallahjálp barst íbúum aðeins í skötulíki eftir að hafa orðið vitni af því að einstaklingur kveikti í sér fremur en að eiga á hættu að fara aftur til heimalandsins. Áfallahjálpin barst í stuttum fundi með sjálfboðaliðum sem töluðu aðeins ensku. Það var hælisleitenda sjálfra að þýða fyrir þá sem ekki tala ensku. Jafnvel þegar einstaklingur reyni að enda líf sitt á sársaukafullan máta telji Útlendingastofnun það ekki forsvaranlegt að skaffa túlkun.

Íbúar á Víðinesi fá ekki svokölluð iKort þar sem þeim er skaffaður matur. Ikort koma með 8000 króna pening á viku fyrir þá hælisleitendur sem ekki fá mat úr mötuneyti. Í vasapeninga fá hælisleitendur kr 2500 á viku. Það segja íbúar gera að verkum að raunar eigi þau erfitt með að fara frá í lengri tíma því þá geti þau ekki borðað. 2500 krónur á viku séu fljótar að fara ef fólk sleppir máltíðunum á Víðinesi. Þau upplifa sig einskis virði, einangruð og finna fyrir vonleysi. Eftir atvikið sé fólk enn í þeirri stöðu að eiga erfitt með að fara af svæðinu en þörfin til að komast burt sé enn meiri en venjulega.

Viðmælendur Kvennablaðsins lýstu svefnleysi, martröðum og ugg.

Auglýsing

Íslendingar hæddust að örvæntingu mannsins

Fjallað var um atvikið í fjölmiðlum í kjölfarið. Á vef DV mátti lesa ógeðfelldar athugasemdir frá lesendum sem fögnuðu og gerðu grín að atvikinu. „Og þetta er fólkið sem við viljum fá til Íslands,“ skrifar Facebook-notandi í athugasemd við frétt sem DV.is. „Um að gera að lýsa upp skammdegið,“ skrifar annar. „Það er ekkert verið að spara bensínið, og ríkið borgar það fyrir hann,“ skrifar sá þriðji.

Sema Erla Serdar, baráttukona fyrir réttindum hælisleitenda, bregst við athguasemdunum og gagnrýnir mannfjandsamleg viðhorf á Facebook. „Hælisleitandi hellir yfir sig bensíni og kveikir í sér. Ég mun aldrei geta sett mig í spor einstaklings sem gerir svo og mun aldrei þykjast skilja hvað veldur því að einstaklingar grípi til slíkra örþrifaráða en hjartað í mér brestur þegar ég ímynda mér þjáningarnar og örvæntinguna sem sá einstaklingur hlýtur að búa yfir. Svona viðburður er átakanlega sorglegur og það er enginn sem gerir svo nema hann upplifi algjöra uppgjöf og úrræðaleysi.“

Sema segir viðburðinn endurspegla þær hræðilegu aðstæður sem Íslendingar bjóði hælisleitendum upp á. „Það hatur sem birtist á kommentakerfunum og samfélagsmiðlum í kjölfar fregna af svona hræðilegum atburði er líka óskiljanlegt. Athugasemdir eins og „Það veitir ekki af því að lýsa aðeins upp í skammdeginu“ og „vona að þeir kveiki allir í sér“ og „gat hann ekki fengið að vera í friði með sína brennu auminginn“ eru dæmi um viðbrögð við þessum sorgarfréttum. Ég mun aldrei skilja hvernig hægt er að búa yfir svona ótrúlega miklu hatri í garð annars fólks, hvernig hægt er að sýna svona mikla mannfyrirlitningu. Samkennd, umhyggja og kærleikur eru gildi sem við ættum öll að tileinka okkur. Auðmýkt, virðing og skilningur eru einkenni sem allt mannfólk ætti að búa yfir. Réttlæti, mannúð og jöfn tækifæri eru leiðarstef sem við ættum öll að fylgja. Það mun ég a.m.k. segja við skólakrakkana sem ég heimsæki á morgun til þess að ræða við um fordóma og hatursorðræðu. Það vil ég líka segja við þá sem hafa ekkert fram að færa nema hatur. Þeim vil ég líka senda knús. Svo langar mig að biðja þau um að velta því fyrir sér hvort viðbrögðin hefðu verið einhvern veginn öðruvísi ef ekki hefði verið um karlkyns hælisleitanda að ræða? Og þá hvers vegna?“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283