Reglur samfélagsins
Í þessu nútíma samfélagi sem við búum í, þar sem allir hafa áhyggjur af læsi barna og niðurstöður Pisa könnunar eru í öllum fjöðlmiðlum, þá verður mér oft hugsað til læsi fullorðinna á listir og íslenska hönnun.
Hvernig les fólk í listaverk og hönnun? – Eins og ég upplifi það þá gilda ákveðnar reglur hjá hinum almenna borgara. – Ekki stela málverkum! Ekki herma eftir Kjarval! Ekki kópera Eggert Péturson!
Allir hafa leyfi til þess að rífa þann í sig sem vogar sér að herma eftir myndlistasnillingum okkar íslendinga. Allir vilja vernda arfleiðina sem við eigum, listamennina sem gera svo mikið fyrir land og þjóð. Sem auðvitað er gott og gilt eitt og sér.
En þegar kemur að því að skoða hönnun, bæði íslenska og erlenda, þá gilda engar reglur. Alls engar!
Íslendingum finnst almennt bara allt í lagi að stela hönnun og hugverkum annarra og græða á því. Það er viðurkennt sem “allt í lagi” að stela hönnun undir þeim formerkjum að hönnuðurinn hefur ekki einkaleyfi. Ein lítil breyting sem sést ekki á vörunni og þá er hún ekki lengur undir verndarvæng hönnunarverndar.
Atvinnuvettvangurinn horfinn
Þegar einhver nýútskrifaður hönnuðurinn sem hefur eitt þremur árum og fúlgu fjár í nám sitt, ákveður að hanna vöru og setja á markað hér á íslandi, þá er eins og það verði uppi fótur og fit í öðruhverju skúmaskoti landsins. Húsmæður landsins hópast saman til þess að mála perlur og búa til perlufestar eða sauma kjóla, því það er jú ódýrara að henda í festina sjálfur eða sauma flíkina en að kaupa vöruna af hönnuðinum sjálfum. Það eina sem þarf að gera er að skjótast niður í búð vopnuð málmbandi og myndavél í vasanum, hendast svo með flíkina inn í næsta mátunarklefa og mæla og mynda. Nú og svo auðvitað að versla efnið í herlegheitin í tilheyrandi handverks eða saumabúðum.
Ekki líður á löngu þar til auglýsingar flykkjast inn á bland.is þar sem eftirlíkingar af vöru, grey unga hönnuðarins, eru seldar “miklu ódýrara”.
Eftir situr hönnuðurinn með sárt ennið og himinhá námslán. Atvinnuvettvangurinn er horfinn. Hann var étinn upp af gráðugum húsmæðrum. Húsmæðrum sem hafa að öllum líkindum líka farið í gegnum háskólanám og starfa nú við það sem þær hafa lært, greiða niður námslánin og eru nú alsælar með þessar sniðugu aukatekjur sem þær nú hafa.
En hönnuðurinn sem átti hugmyndina, af nú fjöldaframleiddu vöru húsmóðurinnar, lækkar aftur á móti í launum. Vinsæla, fallega varan hans er nú seld á bland.is á svörtum markaði af gráðugum húsmæðrum. Varan sem tók hönnuðinn að minnsta kosti 3 mánuði að þróa og hanna, launalaust, er komin inná annaðhvert heimili landsins, stolin hönnun.
Bleika hálsmenið er hönnun Hlínar Reykdal fatahönnuðar. Hálsmenið með bláu perlunum er eftirlíking sem stúlka selur á Facebook síðu sinni.
Arfleifðin
Ég á tvær dætur og ég tel það skyldu mína sem foreldri að kenna börnunum mínum að við stelum ekki. Við förum ekki út í búð og tökum það sem við viljum án þess að borga fyrir. Því við erum jú ekki ræningjar. Við viljum kenna börnunum okkar muninn á réttu og röngu. Kenna þeim að lesa í aðstæður og gera rétt. En kunnum við, fullorðna fólkið muninn á réttu og röngu? Erum við nógu góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar? Erum við nógu læs á samfélagið og menningu okkar?
Einnig má geta þess að stjórnvöld spila hér stóran þátt og gætu komið hlutunum í betri farveg. Samþykkja þarf stefnur eins og Hönnunarstefnuna til að nám um hönnun geti orðið stærri partur af þekkingu okkar allra. Innleiða þarf fræðslu um hönnun, listir og íslenska arfleið inn í skóla landsins. Þannig getur almenningur tekið upplýstari ákvarðanir gagnvart kaupum og sölu á stolnum hugmyndum. Síðast en ekki síst þarf að gefa faglærðum hönnuðum lögverndun á starf sitt.
Gerum rétt og virðum ungu hönnuði landsins, gefum þeim séns á að vaxa og dafna. Hver veit nema að við munum geta stært okkur af flottum og stórum íslenskum iðnaði fái hann að blómstra í friði fyrir ræningjunum sem leynast út um allt. Ekki veitir af fyrir íslenska atvinnulífið!