Laufey Elíasdóttir leikkona er nú flutt heim frá Noregi eftir að hafa búið þar og starfað í nokkur ár. Laufey kunni ágætlega við sig í Noregi en er nú flutt heim þar sem ekki líkaði öllum fjölskyldumeðlimum við Noreg. Fjölskyldan bjó í mjög litlum bæ og svo ferðaðist Laufey um Noreg með leiksýningar sem hún tók þátt í. Það segir hún hafa verið ólíkt því sem hún er vön.
Starfsframinn gekk vonum framar og hún tók þátt í nokkrum leiksýningum og var m.a. tilnefnd til Heddu-verðlaunanna með leikverkið Urmakernes Hjerte og vann sú sýning verðlaun sjálfstæðu leikhúsanna í Noregi sem nefnast Eddan.
Nú á dögunum var frumsýnd 4. serían af þáttunum Helt Perfekt sem sýndir eru á TVNorge, sem er norska útgáfan af Klovn og fór Laufey þar með stórt hlutverk í einum þáttanna.
Hér gefur að líta stiklu úr Helt Perfekt:
Hér heima hefur Laufey leikið í Blóðböndum, Brúðgumanum, Desember auk þess að fara með hlutverk í Vonarstræti, nýjustu kvikmynd Baldvins Z sem verður frumsýnd síðar á árinu.